Umræðan um menntamál leiðsögumanna hefur verið á verulegum villigötum undanfarin ár og jafnvel áratugi og kominn tími til að greiða úr þeirri flækju.
Fyrr á þessu ári skilaði starfshópur á vegum Menntamálastofnunar grunni að starfslýsingu sem undirstöðu fyrir nám í almennri leiðsögn að kröfu Menntamálaráðuneytis. Nokkru áður hafði þessi starfshópur fengið á sitt borð niðurstöður starfshóps Ferðamálaráðuneytis um „menntun og starfsþjálfun leiðsögumanna“. Síðarnefndi starfshópurinn var skipaður haustið 2021 að ósk og beiðni Leiðsagnar – Félags leiðsögumanna og var það hugmynd undirritaðs að þessi leið skyldi farin í því að efla og styrkja stöðu leiðsögumanna. Ekki síst var tilgangurinn sá að leiðsögumenn sjálfir gerðu hreint fyrir sínum dyrum varðandi menntunarmálin, en um þau hafði ríkt óeining sem olli engum nema leiðsögumönnum sjálfum skaða.
Í starfshópi Ferðamálaráðuneytisins (2020-21) áttu fulltrúa auk Leiðsagnar, Ferðamálastofa, Umhverfis- og auðlindaráðuneytið, Mennta- og menningarmálaráðuneytið, Hæfnisetur ferðaþjónustunnar og SAF. Það er ánægjulegt að geta frá því greint að starfshópurinn var fullkomlega sammála um niðurstöður sínar, en þær fólust í ellefu tillögum sem allar miða að því að efla og styrkja stöðu leiðsagnar innan ferðaþjónustu sem og stöðu leiðsögumanna – ekki síst þegar kemur að því að koma í veg fyrir svo kallaða píratastarfsemi og félagsleg undirboð innan greinarinnar. En til þess að tillögur starfshópsins gætu orðið að veruleika reyndi á þau samtök og stofnanir sem þar áttu fulltrúa, að halda samstarfinu áfram í samræmi við niðurstöður hópsins.
Það skýtur því skökku við að þáverandi stjórn Leiðsagnar – en Leiðsögn átti sem fyrr sagði frumkvæðið að myndun starfshóps Ferðamálaráðuneytisins 2021 sem lagði fram áðurnefndar ellefu tillögur – ýtti niðurstöðum starfshópsins frá sér og lét eins og ekkert hefði gerst. Þar hefðu hæglega getað farið forgörðum tækifæri til að efla stöðu leiðsögumanna og bæta hag þeirra og kjör. Þessi fyrri stjórn hélt sig við það heygarðshornið að það væri Leiðsagnar að skera úr um hvað væri „viðurkennt nám“ og hvað ekki. En það er ekki, hefur ekki verið og mun aldrei verða hlutverk stéttarfélags að kveða uppúr með formlega viðurkenningu á námi. Til þess er sú ein leið fær sem nú hefur verið farin – að sátt náist meðal hagaðila (fulltrúa starfshóps Ferðamálaráðuneytis) og að málin fari eftir það í þau formlegu ferli sem tillögur hafa gerðar um. En það er ennþá hægt úr að bæta og ekki verður annað séð en það sé einlægur vilji núverandi stjórnar Leiðsagnar að taka upp þráðinn þar sem frá var horfið fyrir tveimur árum. Því ber að fagna.
Ferðamálaráðuneytið afhenti ráðuneyti menntamála niðurstöður starfshópsins, enda sneru tillögur hópsins að verulegu leyti að menntun leiðsögumanna, ekki síst að því leyti að ein af megintillögum hópsins sneri að því að nám í almennri leiðsögn á Íslandi skyldi taka mið af Evrópustaðlinum ÍST EN 15565:2008 um menntun leiðsögumanna. Menntamálaráðuneytið afhenti tillögurnar Menntamálastofnun til umfjöllunar og hefur nú stofnunin skilað af sér – í samræmi við tillögur starfshópsins – grunni að starfslýsingu sem ætlað er að vera grunnur fyrir námskrá í almennri leiðsögn. Þar er mikilvægum áfanga náð.
Nú reynir á þá skóla sem kenna almenna leiðsögn (Leiðsöguskólinn við MK, Endurmenntun HÍ og Ferðamálaskólann) að fylgja niðurstöðum Menntamálastofnunar eftir og endurnýja námskrár í samræmi við þær niðurstöður. Þær endurnýjuðu námskrár þurfa síðan að vottast af mennta- og menningarmálaráðherra og þá fyrst geta skólarnir fullyrt að kennt sé í samræmi við Evrópustaðalinn IST EN 15565:2008 að viðbættum þeim séríslensku kröfum sem starfshópurinn lagði til og sem varða öryggi, náttúruvernd, neytendavernd og sjálfbærni.
Um nánari lýsingu á þessu er vísað til skýrslu starshópsins, sem er að finna á heimasíðu ferðamálaráðuneytisins og Leiðsagnar.
Fyrsta skref núverandi nýkjörinnar stjórnar Leiðsagnar í þá átt að stilla af áttavitann í umræðu um menntunarmál var að setja skjöldinn svokallaða í bið – þ.e., að hann verði ekki afhentur leiðsögumönnum fyrr en mótaðar hafa verið reglur sem um hann eiga að gilda og sátt hagaðila ríkir um þær.
Megin ásteytingarsteinninn í þeirri umræðu hefur verið hvort nemendur allra þeirra skóla sem kenna almenna leiðsögn ættu rétt á að bera skjöldinn og á sínum tíma ákvað stjórn Félags leiðsögumanna einhliða að nemendur eins ákveðins skóla skyldu ekki hafa rétt á að bera skjöldinn. Forsendur fyrir þeirri ákvörðun voru í meira lagi vafasamar, en gengu í aðalatriðum út á í fyrsta lagi að sá skóli kenndi ekki samkvæmt viðurkenndri námskrá/námslýsingu og í öðru lagi að sá skóli veiti ekki þjálfun í því tungumáli sem nemendur myndu leiðsegja á.
Um fyrra atriðið er það að segja að sú námskrá sem Leiðsöguskólinn í MK kennir samkvæmt (og sem EHÍ er sagt styðjast við) er frá árinu 2004 og var felld úr gildi með nýjum lögum um framhaldsskóla árið 2011. Ný námskrá hefur ekki verið kynnt þar til bærum yfirvöldum og hefur því ekkert stjórnsýsluvægi og getur ekki talist grundvöllur neinnar formlegrar viðurkenningar. Um seinna atriðið er það að segja að fyrrnefndur Evrópustaðall gerir ekki ráð fyrir tungumálanámi, enda snýst leiðsögunám samkvæmt Evrópustaðlinum um nám í leiðsögn – ekki tungumálum.
Nú ber auðvitað að gæta að því að allt nám getur vitaskuld verið af hinu góða og leiðsögumaður verður tæplega verri af að fara í tveggja anna kvöldskóla til að herða þekkingu sína og kunnáttu. En ef námið á að vera röksemd fyrir formlegri stöðu leiðsagnar og leiðsögumanna verður að tala máli stjórnsýslunnar – annars er verr af stað farið en heima setið. Og það að dribbla sóló, eins og félag leiðsögumanna hefur gert undanfarin ár og áratugi er einfaldlega að dæma málið til dauða.
Boltinn er núna hjá skólunum – þeir verða að bekenna lit og segja hvar þeir standa. Vilji þeir njóta þeirrar formlegu staðfestingar að leiðsögn sé kennd samkvæmt Evrópustaðli ÍST EN 15565:2008 að viðbættum kröfum íslenskrar ferðaþjónustu verða þeir að endurskoða námskrár sínar og fá þær viðurkenndar af mennta- og menningarmálaráðherra.
Það er síðan Leiðsagnar að bregðast við því og aðlaga reglurnar um skjöldinn að nýjum veruleika.
Flóknara er það ekki.
Höfundur er fulltrúi Leiðsagnar í starfshópi ferðamálaráðuneytis um menntun og starfsþjálfun leiðsögumanna.
Það er ekki eins og nýútskrifaðir hafi lagt á sig minni vinnu og né greitt minna fyrir námið en þeir sem undan hafa komið.
Látið okkur þá sem útskrifuðumst í vor fá skjöldinn og skilríkin okkar og eins og við eigum rétt á og snúið ykkur svo að því að setja skilyrði fyrirfram um námskrá en ekki eftir á. Svoleiðis gera menn ekki.