Lífbrjótanlegir burðarpokar, líkt og þeir sem Bónusverslanir bjóða upp á, eiga ekki að fara í lífrænu tunnuna á höfuðborgarsvæðinu heldur í almennan úrgang (gömlu góðu gráu tunnuna) samkvæmt upplýsingum frá Sorpu. Kalka á Suðurnesjum vill að pokar þessir fari í plasttunnuna og í einhverjum byggðarlögum úti á landi má nota hann undir lífrænan úrgang.
„Frumskógur og misvísandi upplýsingar,“ segir fólk sem lætur sig endurvinnslumál varða á Facebook-síðu um áhugamálið. „Verið er að stíga skref í rétta átt og vonandi verður öll flokkun og allar merkingar samræmd á landinu öllu fljótlega,“ segir Gunnar Dofri Ólafsson, upplýsingafulltrúi Sorpu, við Heimildina.
„Bónus-burðarpokarnir brotna 100% niður ef þeir eru flokkaðir með lífrænum úrgangi,“ segir á vef Bónuss. Með tilkomu lífniðurbrjótanlegu burðarpokanna hafi sparast allt að 200 tonn af plasti á hverju ári.
GAJA ræður ekki við pokana
Gunnar Dofri segir það vissulega rétt að pokarnir brotni niður en á lengri tíma en almennur lífrænn úrgangur líkt og matarleifar. Og þess vegna henta þeir ekki til vinnslu hjá gas- og jarðgerðarstöðinni GAJA. Þá endurvinnast þeir ekki heldur eins og plast – því þeir eru einmitt ekki úr plasti. „Við þurfum að hafa mikla stjórn á hráefninu sem kemur inn í GAJA og lífplast hegðar sér í grunninn eins og plast í vinnslunni.“
Það jákvæða er, að mati Gunnars Dofra, að með aukinni umræðu um flokkun séu fyrirtæki að verða sífellt meðvitaðri og hafa sum hver sett sig í samband við Sorpu til að fá leiðbeiningar um merkingar á umbúðum sínum.
Athugasemdir