Fimmta Indiana Jones-myndin reynist til dæmis prýðileg skemmtun – enda er Phoebe Waller-Bridge stórskemmtileg þar sem harðhausinn Helena Shaw, guðdóttir Indy, sem hann kallar ávallt Wombat. Persónan er eins og beint upp úr orðheppnum screwball-myndum fimmta áratugarins og Waller-Bridge fer ótrúlega vel að leika ólíkindatól og hörkutól með passlega sveigjanlegan siðferðiskompás. Svo horfir maður bara á Fleabag-þættina hennar aftur, á meðan maður lætur sig dreyma um að hún fái sína eigin hasarseríu, enda er myndin í raun ekkert síður um hana en Dr. Jones.
Mission: Impossible-myndirnar hafa alltaf þurft að reiða sig á öflugar mótleikkonur til að draga fram alvöru tilfinningar úr spýtukallinum Tom Cruise – og tókst það best í þeirri fimmtu, þar sem hin sænska Rebecca Ferguson labbar beint inn úr Casablanca sem hasarútgáfan af Ilsu Lund, enda nefnd eftir henni – Ilsa Faust. Hún er því miður lítið í nýjustu myndinni, en það er myndinni til happs að handbendi skúrksins er Paris, þögult morðkvendi sem Pom Klementieff leikur og skapar eftirminnilega persónu með líkamstjáningu, danskenndum bardagahreyfingum og svipbrigðum – það er nánast eins og hún hafi villst úr þögulli mynd og stelur þessari splunkunýju talmynd með húð og hári.
Athugasemdir