Sjálfur hafði ég ekki heyrt Sinead lengi þegar ég heyrði fyrir tilviljun undurfallegt og skrítið lag á óræðu enskuskotnu tungumáli á kaffihúsi – og uppgötvaði með hjálp galdratækisins Shazam að þetta væri fyrsta lag Throw Down Your Arms, sem er betur þekkt sem reggíplata Sinead.
Þar syngur hún klassísk rótar-reggílög, en sú undirgrein reggísins blandar saman trúarstefjum við mannréttindabaráttu – eitthvað sem er sömuleiðis stef á ferli og lífi söngkonunnar sjálfrar. Þetta lag heitir Jah Nu Dead og blandar saman ensku og rastafarí-slangri, Jah þýðir til dæmis Guð á rastafari. Það var upphaflega sungið af Burning Spear 1978 og rétt eins og Prince má Burning Spear þola það að ábreiða Sinead er umtalsvert betri en orginalinn.
Þá viðurkenndi Bono að söngkonan hefði rænt hjarta hans þegar hún flutti lag hans, You Made Me The Thief Of Your Heart, fyrir myndina In the Name of the Father. Það kom aldrei annað til greina en að láta Sinead syngja lagið, eða eins og Jim Sheridan, leikstjóri myndarinnar, orðaði það: „Þótt myndin heiti Í nafni föðurins, þá snýst þetta allt um móðurina. Karlmaður getur ekki sungið þetta lag. Móðir Írland þarf kvenrödd.“
Athugasemdir