Sófinn í stofunni hefur ekki verið mikið brúkaður í sumar en aftur á móti hef ég lufsast í bíó endrum og eins. Hér gefur að líta bíómyndirnar frá bestu til verstu: Barbie, Indiana Jones, Fast & the Furious, Mission Impossible. Mér finnst Cruise glataðri en Diesel en hef þó smá samúð með honum því hann lítur nú út eins og gamall pabbi í útilegu. Talandi um útlit, tölvuteiknaða andlitið á Harrison Ford í Indiana Jones er svo djúpt í uncanny valley að ég á eftir að fá martraðir. Ég er Phoebe Waller-Bridge aðdáandi og þar sem hún leikur í myndinni og myndin er svo mikil Indiana Jones-mynd, mun ég sætta mig við nokkrar martraðir.
„Mér líður smá eins og ég hafi orðið fyrir menningarlegri gaslýsingu öll mín uppvaxtarár“
Í sumar endurnýjaði ég líka kynni mín við You’ve got Mail með Meg Ryan og Tom Hanks. Ég er ekki frá því að hún hafi elst mjög illa. Karakterinn sem Hanks leikur stundar next level gaslýsingu hálfa myndina og ástarsambandið sem myndin snýst um er fullkomlega óskiljanlegt. Einnig þótti mér sjokkerandi að mér hafi þótt Meg Ryan vera með flott hár. Mér er skapi næst að horfa á allar rómantísku gamanmyndir unglingsára minna og sjá hvort ég geti hægt og rólega undið ofan af þeim hræðilegu áhrifum sem þær höfðu á sjálfsmynd mína og hugmyndir um sambönd og samskipti. Mér líður smá eins og ég hafi orðið fyrir menningarlegri gaslýsingu öll mín uppvaxtarár.
En, þar sem ég efast um að fólk nenni að sjá allt þetta ofbeldissorp sem ég taldi upp áðan, að Barbie undanskilinni, þá langar mig að mæla með The Pez Outlaw á Netflix. Þetta er heimildamynd um skrýtinn lítinn kall sem blandar sér inn í Pez-safnaraheiminn með ófyrirséðum afleiðingum. Pez-heimurinn er eins og hver annar nördaheimur. Fólk með áráttur og þráhyggjur og skemmtileg áhugamál og sérþekkingu á einhverju sem fáir hafa áhuga á. Ástæðan fyrir því að ég horfði á hana er sú að fólk í kringum mig var alltaf að spyrja hvort ég væri ekki örugglega búin að sjá hana. Ef til vill sér fólk mig sem lítinn skrýtinn kall og ég er ekki 100% ósammála.
Athugasemdir