Nú styttist í fyrsta skóladag hjá grunn-, framhaldsskóla og háskólanemum. Kaup á allskyns vörum fylgja því að fara í skóla. Hægt er að nálgast skólavörur á þónokkrum stöðum og kaupa notaðar töskur eða föt fyrir veturinn.
Skólaföt
Það fylgja því gjarnan fatakaup að hefja nýja skólaárið enda getur verið gott að birgja sig upp fyrir veturinn með góðum yfirhöfnum og skóbúnaði. Andri Jónsson er rekstrarstjóri og annar eigenda Barnaloppunnar en það er verslun sem býður neytendum upp á þann möguleika að leigja bás og selja notuð föt. Andri segist taka eftir „augljósri aukningu" í kaupum viðskiptavina á hverju hausti þegar skólaárið byrjar.
„Fólk er að kaupa allt sem börnunum vantar fyrir haustið. Það eru kuldaföt, ullarföt, flísfatnaður, utanyfirgallar, pollaföt, stígvél, kuldaskór og skólatöskur. Í rauninni bækur líka fyrir krakkana sem eru að byrja í skóla til að lesa heima og svo framvegis þannig að það er bara allt mögulegt. Við náttúrulega stjórnum því ekki hvað leigjendur eru að selja en við sjáum það alveg að bækur og skólatöskur seljast mjög vel á haustin."
Föt og aðrir munir sem seljast í Barnaloppunni eru verðlagðar ódýrari en nýjar vörur út í búð. Andri telur að þær vörur sem eru til sölu í Barnaloppunni séu allt að 70-80% ódýrari en samskonar eða sömu vörur kosta nýjar. „Þú getur alveg fengið kuldagalla hjá okkur sem er fínt merki og mjög vel með farinn. Þá ertu kannski að fá hann á svona 40-50% afslætti miðað við ef þú myndi kaupa þér nýjan. En ef þig vantar kuldagalla og þér er alveg sama hvort að hann sé merkjavara eða ekki, þá ertu kannski að fá 90-95% afslátt af vörunni hjá okkur. Það munar alveg um það.“
Aðspurður út í umhverfisvitund viðskiptavina telur Andri að hún færist í aukana með hverju ári. „Við erum alltaf að fá nýja viðskiptavini til okkar, bæði leigjendur og kaupendur. Aldursbilið er líka að stækka hvað það varðar.“ Þegar Barnaloppan opnaði var stærstur kúnnahópur þau sem höfðu nýlokið háskólanámi og voru enn að koma sér fyrir í lífinu. „En svo er rosalega stór breyting hjá eldri kynslóðinni sem var lítið að spá í þessu þegar þau voru yngri og að eignast börn.“
„Skemmtilegasti hópurinn eru krakkarnir. Börnin, og jafnvel unglingarnir, sem koma og eru að versla föt hjá okkur. Þau átta sig á því að hér er hægt að fá fínustu flíkur, leikföng, bækur og dót á einhverju djók verði miðað við að fara og kaupa þetta einhvers staðar nýtt. Sérstaklega í ástandinu sem er núna með þessa svakalegu verðbólgu og hækkanir að þá hjálpar að versla hér.“ Líkt og fullorðna fólkið átta börnin sig á að vörurnar eru ódýrari en Andri segist vona að umhverfisvitund spili þar inn í. „Þau læra mjög hratt af hverju þau eru að koma hingað.“
Grunnkostnaður
Heimildin tók saman hugsanlegan kostnað fyrir staðlaðan nemanda á þremur skólastigum, grunnskólastigi, framhaldsskólastigi og háskólastigi. Ímyndaða nemandann vantar skólatösku, pennaveski, vatnsbrúsa, nestisbox og eina stílabók. Í framhalds- og háskóla kaupir nemandinn sér einnig tölvu.
Grunnskólaneminn fer á Tax Free daga í A4 og kaupir sér skólatösku á 15.314, pennaveski með þremur hólfum á 1.250 krónur, vatnsbrúsa á 3.199 krónur, nestisbox á 1.599 krónur og stílabók á 999 krónur. Þetta gera 22.361 krónur. Hér voru hvorki dýrustu né ódýrustu valkostirnir valdir og vert er að taka fram að yfirleitt þarf að kaupa fleiri vörur eins og skriffæri, vasareikni og möppur.
Framhaldsskólaneminn kaupir sínar skólavörur í Pennanum- Eymundsson. Fyrsta varan fyrir valinu er bakpoki á 25.999 krónur. Síðan er það svartur pennahólkur á 3.499 krónur, vatnsflaska á 3.399 krónur, nestisbox með auka boxi á 2.199 krónur og sandlitaða línustrikaða stílabók á 2.159 krónur. Að lokum er það svo fartölva á skólatilboði hjá Epli á 169.990 krónur og hulstur fyrir hana á 4.990 krónur. Heildarkostnaður eru því rúmar 207.000 krónur.
Háskólaneminn verslar við Hagkaup en sleppir pennaveskinu og stílabókinni enda flest allt nám komið á netið. Neminn kaupir svartan bakpoka á 24.989 krónur, og vatnsflösku á 5.499 krónur. Nestisboxið er pantað af vefversluninni Nestisbox á 8.990 krónur og fartölva keypt í ELKO á 169.995 krónur. Alls borgar háskólaneminn 209.473 fyrir þessar vörur. Hér er námsbókakostnaður ekki tekinn með inn í reikninginn.
Athugasemdir