Um 150 manns hafa safnað samtals rúmum 4.500 bandaríkjadölum, eða því sem nemur um 600 þúsund krónum, fyrir Ásu Guðbjörgu Ellerup – eiginkonu grunaðs raðmorðingja. Ása ætlar sér að skilja við eiginmann sinn og var söfnuninni hrundið af stað fyrir þremur dögum til þess að hjálpa henni með lögfræðikostnaðinn.
Melissa Moore stendur fyrir söfnuninni en hún hefur verið í svipuðum sporum og Ása, verandi dóttir kanadísk-bandaríska raðmorðingjans Keith Hunter Jespersons.
Jesperson var handsamaður árið 1995 og var þekktur sem „broskalla“ morðinginn. Hann myrti í það minnsta átta konur í Bandaríkjunum snemma á síðasta áratug tuttugustu aldar.
„Móðir mín og fjölskylda voru og eru fórnarlömb,“ skrifar Moore í lýsingu með söfnuninni. „Við vissum ekki af tvöföldu lífi hans.“
Ekki í ástandi til þess að segja frá skelfingunni
Moore segist hafa fengið samþykki Ásu fyrir söfnuninni og segir að Ása sé ekki í ástandi til þess að tala um þá skelfingu sem hún og fjölskylda hennar hafa upplifað.
Rex Heuermann, eiginmaður Ásu, er grunaður um að hafa myrt fjórar ungar konur á Long Island í Bandaríkjunum.
Lögmaður Ásu hefur áður sagt að hún hafi ekki vitað af ódæðisverkum Heuermanns.
Markmiðið með söfnuninni er að safna 5.000 bandaríkjadölum, eða því sem nemur um 660 þúsund íslenskum krónum.
Athugasemdir