Félag atvinnurekenda hefur sent fjármálaráðuneytinu erindi þar sem hvatt er til þess að bönkum og öðrum fjármálastofnunum verði heimilað að dreifa endurgreiðslum á stuðningslánum til lengri tíma. Mörg lítil og meðalstór fyrirtæki séu enn ekki búin að ná vopnum sínum að fullu eftir Covid-19 faraldurinn og eru þar með ekki í stakk búin til að greiða lánin niður.
Félag atvinnurekenda hefur fengið upplýsingar frá stóru viðskiptabönkunum þrem um þau stuðningslán sem veitt voru fyrirtækjum sem urðu fyrir tekjufalli í heimsfaraldrinum. Alls veittu bankarnir 1.159 slík lán. Af þeim voru 979 með 100 prósent ríkisábyrgð og 180 með með 85 prósent ríkisábyrgð.
Samkvæmt upplýsingum félagsins þáðu velflest fyrirtækin frest til að greiða þau upp. Fyrst var sá frestur veittur í mars 2021, en þá var veittur tólf mánaða viðbótarfrestur, og svo í janúar á þessu árí, þegar veittur var sex mánaða viðbótarfrestur. Í janúar þáðu lántakendur 248 stuðningslána viðbótarfrestinn, um 21 prósent þeirra sem lánin fengu. Þegar fresturinn var veittur í mars 2021 þáðu 682 lántakendur hann.
Ríkissjóður þegar orðið fyrir tjóni
Aðeins 373 stuðningslána sem veitt voru eru uppgreidd samkvæmt upplýsingum Félags atvinnurekenda en þó ber að hafa þann fyrirvara á að í þeirri tölu eru einnig lán sem greidd hafa verið úr ríkissjóði vegna greiðslufalls lántakanda. Nefnt er sem dæmi að hjá Íslandsbanka voru þannig 18 slík lán greidd úr ríkissjóði.
„Að mati félagsins myndi það í einhverjum tilvikum stuðla að því að firra ríkissjóð frekara tjóni vegna greiðslufalls“
Félag atvinnurekenda hefur því sent fjármálaráðuneytinu erindi þar sem hvatt er til þess að þeim fyrirtækjum sem í erfiðleikum eigi með að hefja endurgreiðslu verði gefinn lengri tími enn á ný. Bent er á að ríkissjóður hafi þegar orðið fyrir töluverðu tjóni vegna gjaldþrota fyrirtækja sem hafi því ekki getað staðið skil á endurgreiðslum stuðningslánanna. „Að mati félagsins myndi það í einhverjum tilvikum stuðla að því að firra ríkissjóð frekara tjóni vegna greiðslufalls, vegna þess að ýmis fyrirtæki, sem ekki ráða við að endurgreiða lánin á næstu tólf mánuðum, myndu vel ráða við greiðslur sem dreift væri á t.d. 36 mánuði. FA vill aftur minna á að fjármálastofnanir þekkja viðskiptavini sína vel og eru í stakk búnar að meta endurgreiðslugetu og þanþol fyrirtækja,“ segir í erindi félagsins.
Athugasemdir