Hafnasamband Íslands gerir alvarlegar athugasemdir við drög að samgönguáætlun Alþingis sem nú er til kynningar. Er það framkvæmdaáætlun næstu fimm ára sem Hafnasambandið er ósátt með en þar þykir stjórnendum hafnanna þær bera lítið úr býtum. Lúðvík Geirsson, formaður stjórnar, segir að tómt mál sé að tala um rafvæðingu flotans verði fjármagn ekki aukið og þar í ofanálag sé viðhaldsþörf í mörgum höfnum orðin mjög veruleg, svo veruleg að það sé farið að hamla útgerð og annarri skipaumferð og hafnartengdri þjónustu. „Þessi fjárhæð þarf alveg að þrefaldast til að mæta brýnustu þörfum.“
Drög að samgönguáætlun fyrir árin 2024-2038 var lögð fram til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda 13. júní síðastliðinn og rann umsagnarfrestur vegna hennar út í gær, 31. júlí. Samhliða áætluninni er lögð fram framkvæmdaáætlun til fyrstu fimm ára áætlunarinnar. Í framkvæmdaáætluninni er gert ráð fyrir veitt verði 6,1 milljarði króna til nýframkvæmda í höfnum landsins. Það telur stjórn Hafnasambands Íslands langt í frá nægilegt enda hafi hafnarsjóðir landsins þegar sótt um framlög upp á 36 milljarða til brýnna framkvæmda, sem falli að meginmarkmiðum og áherslum samgönguáætlunar. „Það er því augljóst að þarna vantar mikið upp á að hafnir landsins geti haldið áfram þeirri þróun og uppbyggingu sem brýn þörf er á,“ segir í umsögn Hafnasambandsins.
Dýpka, endurnýja og rafvæða
Lúðvík Geirsson, formaður stjórnar Hafnasambandsins, segir þörfina á auknum fjárframlögum einkum felast í þrennu. „Í fyrsta lagi er komin tími á töluvert miklar endurbætur og endurnýjun í höfnunum. Þær eru margar hverjar komnar töluvert til ára sinna, stálþil og viðlegukantar.
„Það er ekkert eitthvað sem kostar fimmaur, það eru hundruðir milljóna og milljarðar sem liggja í því í stærri höfnum“
Í öðru lagi er skipaflotinn að stækka og því þarf dýpri, stærri og rúmbetri hafnir en áður voru, og það er verkefni sem menn hafa verið að vinna í.
Svo bætist við í þriðja lagi rafvæðing hafnanna, sem er stóra umræðan í dag. Ef menn meina eitthvað með því að ætla sér að rafvæða flotann og tryggja að hægt sé að raftengja skipin, þá þarf auðvitað að koma upp slíkum búnaði í höfnunum. Það er ekkert eitthvað sem kostar fimmaur, það eru hundruðir milljóna og milljarðar sem liggja í því í stærri höfnum.“
Finnst sem hafnirnar gleymist
Lúðvík viðurkennir að 36 milljarðar séu töluvert há tala og segir að það séu ítrustu óskir og væntingar sem liggja að baki þeirri upphæð. „Menn verða samt að átta sig á að þessar tölur eru engar risatölur miðað við það sem menn eru að horfa til í flugvelli og vegakerfi. Það er eins og menn gleymi því alltaf að hafnirnar eru líka mjög stór innviðaþáttur í samgöngum. Þær hafa orðið útundan og það þarf að gera þar stórátak til að viðhalda þeim búnaði og þeirri aðstöðu sem fyrir hendi er, og styrkja hana enn frekar. Um það snýst málið.“
Árið 2021 var gerð skýrsla fyrir Hafnasambandið þar sem lagt var mat á nýframkvæmda- og viðhaldsþörf hafna á tíu ára tímabili. Þar kom fram að viðhaldsþörf hafna væri metin 12,3 milljarðar króna árin 2021 til 2025 og að gert væri ráð fyrir nýframkvæmdum að upphæð ríflega 68 milljarða til ársins 2031. Þar af var gert ráð fyrir nýframkvæmdum við rafbúnað vegna orkuskipta fyrir 16,6 milljarða króna.
Landtengingarbúnaður þarf að koma fyrst
Lúðvík segir tómt mál að tala um rafvæðingu íslenska flotans næstu ár ef ekki komi til frekari fjármunir í verkefnið. „Það rafvæðir enginn flotann fyrir landtengingu nema að landtengingarbúnaður sé til í höfnunum. Það þarf að byrja á því að fara í það verkefni. Það eru bara allra stærstu hafnirnar sem eru farnar af stað í því, Hafnarfjörður, Faxaflóahafnir og Akureyri er með sitt í undirbúningi. Annars staðar er ekkert að gerast, nema að Síldarvinnslan í Neskaupsstað er farin af stað með sín verkefni.“
Í sumar hefur mengun frá skemmtiferðaskipum verið til töluverðrar umræðu enda hafa íbúar við Eyjafjörð til að mynda þurft að þola bláan reyk yfir firðinum sem skemmtiferðaskip hafa spúið úr sér. Spurður hvort að rafvæðing hafna sé ekki nauðsynleg til þess einnig að hægt sé að landtengja skemmtiferðaskip og koma þar með í veg fyrir umrædda mengun svarar Lúðvík því játandi. „Jújú, sá búnaður sem til er í stærstu höfnum í dag, hann dugar eingöngu fyrir ísfiskstogara og minni skip, hann dugar ekki einu sinni til frystiskipin, hvað þá farþegaskipin. Það er kominn fyrsti vísir að þessum landtengingum í Hafnarfirði og Reykjavík ætlar að tengja fyrsta skipið hjá sér, jafnvel bara í næstu viku. Svo þetta er að gerast en það eru bara fyrstu skrefin.“
Treystir á að þingmenn þekki til í sínum kjördæmum
Lúðvík segir þá jafnframt að þörfin á endurnýjun, viðhaldi og uppbyggingu sé orðin ærið brýn víða, staðan sé þannig að hún sé farin að hamla útgerð og annarri skipaumferð í ákveðnum plássum. „Bæði vegna þess að það vantar meira dýpi og þilin eru komin á aldur. Til að mynda hafa menn miklar áhyggjur af þessu í Vestmannaeyjum. Þetta eru verkefni sem kosta sitt, taka ár og áratugi í framkvæmd og menn verða bara að vera í takt við tímann. Við erum að missa af lestinni.“
„Þessi fjárhæð þarf alveg að þrefaldast til að mæta brýnustu þörfum. Þetta þyrftu að vera 18 til 20 milljarðar króna“
Sem fyrr segir eru milljarðarnir 36 sem hafnarsjóðir hafa þegar sótt um ítrustu kröfur. Lúðvík segir að hægt sé að komast af með minna í fyrsta áfanga, þessi fyrstu fimm ár, en 6,1 milljarður dugi hins vegar engan veginn til. „Þessi fjárhæð þarf alveg að þrefaldast til að mæta brýnustu þörfum. Þetta þyrftu að vera 18 til 20 milljarðar króna.
Spurður hvort hann sé bjartsýnn á að tekið verði tillit til umsagnar Hafnasambandsins við frekari vinnu og útfærslu samgönguáætlunnar svarar Lúðvík: „Ég er alltaf bjartsýnn. Ég held að þingmenn sem þekki til heima, hver í sinni sveit, þeir viti hvar skóinn kreppir í þessum efnum.“
Á því tapa allir.