Skráðar gistinætur í júní voru 1.170.600 og hafa aldrei verið fleiri í þeim mánuði. Þetta er 17 prósent aukning frá því í fyrra þegar gistinætur voru 1.012.300 talsins sem á þeim tíma var met. Þetta sýna nýjar tölur frá Hagstofu Íslands.
Árið í fyrra fór hægar af stað í ferðaþjónustunni heldur en fyrir faraldur. Fjöldi gistinátta fór þó hratt fjölgandi þegar líða tók á árið og líkt og áður segir var júní í fyrra metmánuður. Metið sem þá var sett hefur nú verið slegið. Þegar árið var liðið var 2022 einungis hársbreidd á eftir metárinu 2018 þegar horft er til fjölda gistinátta. Einungis tvö þúsund gistinætur skilja árin tvö að en þær námu rúmum átta og hálfri milljón á hvoru ári fyrir sig.
Sé rýnt í tölur Hagstofunnar sést að uppsafnaður fjöldi gistinátta á fyrri helmingi ársins var mestur árið 2018, þar til nú. Fyrstu sex mánuði ársins 2018 voru skráðar gistinætur á Íslandi rúmlega þrjár og hálf milljón en á þessu ári nemur fjöldi þeirra tæpri 4,1 milljón.
Gistinóttum erlendra ferðamanna fjölgar um 16 prósent
Gistinætur erlendra ferðamanna í síðasta mánuði voru 77 prósent af heildinni eða rúmlega 903 þúsund. Það er 16 prósenta aukning frá því í fyrra þegar þær voru tæplega 778 þúsund. Gistinóttum Íslendinga fjölgar einnig talsvert milli ára eða um 14 prósent. Í júní síðastliðnum voru þær rúmlega 267 þúsund samanborið við rúmlega 234 þúsund í fyrra.
„Gistinætur á hótelum og gistiheimilum voru um 703.000 og um 468.000 á öðrum tegundum skráðra gististaða (íbúðagisting, orlofshús, tjaldsvæði o.s.frv.). Áætlaður fjöldi gistinátta erlendra ferðamanna í heimagistingu utan hefðbundinnar gistináttaskráningar í júní var um 200.000,“ segir á vef Hagstofunnar.
Rétt er að geta þess að allar tölur fyrir árið í ár nema gistináttatölur hótela eru bráðabirgðatölur. Fram kemur á vef Hagstofunnar að áætlun fyrir aðrar tegundir gististaða sé um þessar mundir háð meiri óvissu en vanalega „fyrir tilstilli örra breytinga á framboði og nýtingu og því er rétt að taka þeim tölum með sérstökum fyrirvara þar til endanlegar tölur liggja fyrir.“
Athugasemdir