Tveir karlmenn voru í Héraðsdómi Reykjavíkur 19. júlí síðastliðinn dæmdir til annars vegar átta mánaða og hins vegar tíu mánaða fangelsisvistar fyrir ítrekuð og endurtekin þjófnaðarbrot, ýmist hvor um sig eða í sameiningu. Ákæran yfir mönnunum var umfangsmikil, 41 liður, en heildarverðmæti þýfisins sem þeir félagar stálu nam rúmum tveimur milljónum króna. Í öllum tilvikum var um stuld úr verslunum að ræða.
Brot mannanna tveggja hófust í febrúar á síðasta ári, miðað við dóminn, en hinn 22. þess mánaðar stálu þeir í sameiningu vörum að verðmæti tæplega 35 þúsund krónum úr verslun. Það var hins vegar ekki fyrr en í ágúst sama ár að þeir félagar tóku rækilega til hendinni og í september keyrði um þverbak, en segja má að mennirnir hafi farið í ránsferðir að meðaltali þriðja hvern dag þann mánuð.
Verslun A vettvangur flestra glæpanna
Létu tvímenningarnir greipar sópa í sjö verslunum eftir því sem fram kemur í dómnum. Ein verslun, sem aðeins er nefnd verslun A í dómnum, varð sérlega oft fyrir barðinu á hinum fingralöngu félögum, en alls heimsóttu þeir hana í þrettán skipti í ránsferðum sínum. Einkum var það annar maðurinn sem hafði sérstakt dálæti á versluninni því hann kom þar við í fimmgang í ágúst og október og tók þaðan ófrjálsri hendi vörur að verðmæti ríflega 112 þúsund krónur. Í aðrar verslanir hélt sá ekki einn miðað við dóminn.
Hinn maðurinn fór víðar yfir en þó varð verslun A fyrir barðinu á gripdeildum hans í fjórgang og hafði hann á brott með sér vörur að verðmæti ríflega 111 þúsund krónur. Athygli vekur að mennirnir báðir heimsóttu verslunina og létu þar greipar sópa þrívegis sömu dagana en voru ekki ákærðir fyrir að vera í vitorði með hvor öðrum í þau skipti. Hins vegar voru þeir ákærðir fyrir að hafa í fjórgang í sameiningu rænt úr verslun A vörum að verðmæti 80 þúsund krónum rúmum. Alls var því tjón verslunarinnar ríflega 300 þúsund krónur með rupli mannanna tveggja.
Lægsta upphæðin 1.200 krónur
Það var hins vegar ekki verslun A sem varð fyrir mestu tjóni vegna ránskapar mannanna þrátt fyrir allt, heldur verslun sem nefnd er C í dómnum. Er sú byggingavöruverslun og þangað lögðu þeir kumpánar leið sína 10. september á síðasta ári. Höfðu þeir á brott með sér þýfi að verðmæti ríflega 740 þúsund krónur í það skiptið. Þremur dögum síðar mætti sá þeirra félaga sem stórtækari var í ránunum á nýjan leik í byggingavöruverslunina og hafði þaðan á brott með sér án greiðslu vörur að verðmæti ríflega 113 þúsund króna.
Athygli vekur að í mörgum tilvikum er um að ræða algjöran smáþjófnað, hnupl, því að annar maðurinn var meðal annars ákærður og dæmdur fyrir að hafa rænt vörum að verðmæti tæplega 1.200 krónum í eitt skiptið. Í sameiningu rændu brotamennirnir þá í eitt skipti úr verslun A vörum sem voru virði tæplega sjö þúsund króna.
Hafa áður verið dæmdir fyrir keimlík brot
Báðir játuðu mennirnir brot sín skýlaust. Þeir eiga báðir brotaferil að baki, vegna þjófnaðar, fjársvika fíkni- og umferðalagabrota meðal annars. Þannig var annar mannanna dæmdur í fimm mánaða fangelsi í mars á síðasta ári fyrir keimlík brot, stuld úr búðum og umferðarlagabrot. Í þeim dómi er tilgreint hverju var stolið í það og það skipti. Einkum voru það matvörur sem maðurinn rændi í það skiptið, kjúklingabringur, smjörstykki og risarækjur til að mynda. Í dómi yfir hinum manninum, frá því í febrúar á síðasta ári, er svipað uppi á teningnum en hann er þó dæmdur einnig fyrir ítrekuð fíkni- og umferðarlagabrot einnig, alls í þriggja mánaða fangelsi.
Í dómnum nú er báðum mönnunum gerður hegningarauki vegna fyrri dóma. Var þeim sem fyrr segir gerð fangelsisrefsing annars vegar í tíu mánuði og hins vegar í átta mánuði. Var þeim þá gert að greiða málsvarnarlaun til verjenda sinna, rúmar 241 þúsund krónur hvor, auk þess var þeim gert að greiða skaðabætur vegna hinna stolnu vara ásamt dráttarvöxtum.
Athugasemdir (1)