Þessi grein birtist fyrir rúmlega 10 mánuðum.

Sumar samfelldra öfga á norðurhveli jarðar

Óheyri­leg­ur hiti, æð­andi eld­ar og út­breitt raf­magns­leysi vegna álags. Hita­bylgj­ur hafa skoll­ið á sunn­an­verðri Evr­ópu, norð­an­verðri Afr­íku, á Mið-Aust­ur­lönd­um, í Banda­ríkj­un­um og víð­ar dag eft­ir dag, viku eft­ir viku. Júlí er vissu­lega heit­ur víð­ast hvar á norð­ur­hveli en þeg­ar met eru stöð­ugt sleg­in, ham­fara­hiti mæl­ist á mörg­um stöð­um á sama tíma – og þýsk­ir lækn­ar eru farn­ir að mæla með síesta – þá er eitt­hvað af­brigði­legt á seyði.

Sumar samfelldra öfga á norðurhveli jarðar

Það er spáð 50 stiga hita á mánudaginn og ég viðurkenni að ég er svolítið stressuð út af því,“ segir Ástrós Helga Hilmarsdóttir næringarþjálfi sem er í heimsókn hjá tengdafjölskyldu sinni í Túnis. Ástrós og fjölskylda komu til Túnis 12. júlí. Þann dag var 45 stiga hiti. „Þannig að það var vissulega svolítið sjokk að koma frá Íslandi í veður sem var einhverjum 30 gráðum heitara,“ segir hún hlæjandi.

 Síðustu dagar hafa svo verið enn heitari í strandborginni Bizerte, norðlægustu borg Afríku, og enn á eftir að bæta í. Vissulega getur verið mjög heitt í Túnis á sumrin, það þekkir Ástrós af eigin raun, en ástandið núna er óvenjulegt og um það ræða heimamenn mikið.

HitabylgjaÁstrós og Áróra dóttir hennar klæddar eftir veðri í hitabylgjunni í Túnis á leið á markaðinn að morgni dags.

Í nágrannaríkinu Alsír er það sama uppi á teningnum. Þar hefur hiti mælst sá hæsti í heiminum undanfarna daga. Hvert hitametið á fætur öðru hefur fallið, t.d. það sem fæstir vilja státa af: Hæsti lágmarkshiti nætur eða rétt tæpar 40 gráður. Svo heitt hefur ekki verið á nóttunni hjá Ástrós og tengdafjölskyldunni í Bizerte en engu að síður oft um 30 gráður. Yfir daginn hefur hitinn farið upp í 46-48 gráður.

Sofa á gólfinu

Enga loftkælingu aðra en viftur er að finna í húsinu, ekki frekar en víðast hvar í Túnis, og því verður að nota hyggjuvitið: Vakna eldsnemma, milli kl. 4 og 5 á nóttunni, opna alla glugga og reyna að lofta út – kæla veggi og gólf. Sinna erindum á meðan það er ekki orðið of heitt. Og loka svo kirfilega öllu þegar sólin er farin að skína á húsið milli 8 og 9 á morgnanna. Halda sig að mestu innan dyra bróðurpartinn úr deginum og kannski skella sér á ströndina um kvöldið. Jafnvel á miðnætti. „Síðan sefur tengdafjölskyldan á flísalögðu gólfinu eða úti,“ segir Ástrós. Allt sé gert til að reyna að kæla sig.

Suður-Evrópa brennandi heit

Handan Miðjarðarhafsins hefur einnig verið gríðarlega heitt undanfarið og nær óbærilegt á sumum stöðum. Um og yfir 45 gráður hafa mælst á Ítalíu og syðst á Spáni. Þurrkar í ofanálag hafa orðið til þess að gróðureldar hafa kviknað, m.a. á Grikklandi og Kanaríeyjum. Sömu sögu er að segja frá Mið-Austurlöndum. Í Sýrlandi og Líbanon loga eldar um fjöll og firnindi.

Samkvæmt upplýsingum Veðurstofu Evrópusambandsins er líklegt að júlí verði sá heitasti frá upphafi mælinga á jörðinni. Fyrstu tvær vikur hans voru þær heitustu hingað til. Alþjóða veðurstofnunin segir að síðasti mánuður hafi verið heitasti júní frá því hafið var að mæla hitastig.

Náttúruleg kælingBörn stinga sér til sunds í Túnis.

Hið gríðarháa hitastig beggja vegna Miðjarðarhafsins hefur varað dögum saman. Í dag er eilítið svalara en síðustu daga svo fólk, m.a. í Túnis, hefur getað andað léttar. En aðeins um hríð. Því næsta hitabylgja er víst að undirbúa komu sína. Hún gæti orðið enn magnaðri en sú síðasta.

„Þetta er ekki veður eins og við höfum átt að venjast,“ segir John Nairn, ráðgjafi hjá Alþjóða veðurstofnuninni. Ekki sé hægt að líta á tveggja vikna hitabylgju í Túnis sem einangraðan og staðbundinn atburð, segir veðurfræðingurinn Hamdi Hashad við fréttastofuna Al Jazeera. Hiti mælist nú 5 gráðum meiri á svæðum við Miðjarðarhafið en í meðalsumri.

Já, oft heitt en nei, ekki svona svakalega

Um tveir þriðju hlutar landmassa jarðar er að finna á norðurhveli jarðar. Land hitnar hraðar en vatn og sumrin á þessum slóðum, þegar sólin er hátt á lofti, eru vissulega oft heit syðst í Evrópu svo dæmi sé tekið. En yfirleitt eru hitamet sumarsins ekki að falla fyrr en ágúst. Það sem mörgum sérfræðingnum þykir óvenjulegt nú er hversu snemma hitabylgjurnar létu á sér kræla, hversu hár hiti fylgdi þeim og hversu lengi þær hafa staðið yfir.

Það sama virðist hafa gerst í heimshöfunum. Frá því um miðjan mars hefur yfirborð sjávar verið heitara við miðbaug og til norðurs á hverjum einasta degi samanborið við sömu daga öll ár frá 1981. Á suðurhveli, þar sem hafsvæðin eru mun stærri en á norðurhveli, er sjórinn einnig hlýrri en áður á þessum árstíma. Og þar á að heita vetur þótt oftast sé hann mildur.

„Þegar rafmagninu slær út og vifturnar hætta að snúast er það skellur í hvert einasta skipti.”
Ástrós Helga Hilmarsdóttir,
sem dvelur í Túnis.

Dalir heljar og dauða eru víða

Það er ástæða fyrir því að sumir dalir í fjarlægum löndum eru kenndir við dauða og helvíti. 52,2 gráður mældust 16. júlí í Turpan-dældinni sem oft er kölluð Dauðadalur Kína. Hin eiginlegi Dauðadalur í Bandaríkjunum bætti um betur og þar mældist hiti sama dag 53,9 gráður. Á stöðum sem þessum eru oft brennandi heitt – út í eyðimörkum og auðnum. En það sem veldur mörgum ugg er að hitastig hefur verið óvenjulega hátt á svæðum þar sem milljónir manna búa. Aldrei í sögunni hefur hiti mælst hærri í Peking en þann 6. júlí. Í nítján daga samfleytt fór hitastigið yfir 43 gráður í Phoenix í Arizona. Svipað hefur gerst í Ítalíu, svo dæmi sé tekið. Langdregin og öfgafull hitabylgja nánast lamað samfélagið.

LygamælirÞótt heitt hafi verið í Dauðadalnum í Kaliforníu undanfarið hefur opinber, skráður hiti aldrei farið í 55 gráður þótt þessi mælir við upplýsingamiðstöð ferðamanna sýni það.

Gróðurhúsalofttegundir valda því að andrúmsloftið hlýnar. Þær eru að miklu leyti tilkomnar vegna mikils bruna á jarðefnaeldsneyti í gegnum tíðina. Þær safnast upp í lofthjúpnum og geta myndað, líkt og orðið ber með sér, ástand sem líkist því sem skapast innan í gróðurhúsi á sólríkum degi. Hiti frá sólinni innilokast nálægt yfirborði jarðar vegna þessara gastegunda. Þetta hefur orðið til þess að hitastig jarðar er að meðaltali í kringum 1,2 gráðum heitara en það var fyrir iðnbyltingu.

Munu verða tíðari

Í ár er hið náttúrulega veðurfyrirbrigði El Niño svo að leggja sín lóð á vogarskálarnar. Mikill varmi sem Kyrrahafið hefur safnað í sig undanfarin ár leysist úr læðingi. Áhrif El Niño til hlýnunar koma yfirleitt ekki að fullu fram fyrr en að ári liðnu.    

Óvenju heit sumur hafa vissulega orðið síðustu aldir og áratugi. Þau eru einmitt óvenjuleg því þau voru svo sjaldgæf. Þau ýktustu urðu kannski á um 100 ára fresti áður fyrr en nú má eiga von á slíkum öfgum á fimm ára fresti að jafnaði, hefur Economist eftir James Hansen, veðurfarsfræðingi við Columbia-háskóla. Hann hefur sett fram þá kenningu að hækkun hitastigs á heimsvísu hafi tekið stökk á öðrum áratug aldarinnar. Undir það hafa ekki allir kollegar hans tekið hingað til. En kannski verður nú breyting þar á, segir hann.

Á metan úr jarðvegi hlut að máli?

En fleira en bruni jarðefnaeldsneytis gæti verið að gera sitt í þeirri hlýnun sem yfir jörðina gengur. Þannig eru ýmsar kenningar um að metan, sem er öflugri gróðurhúsalofttegund en koltvíoxíð en hefur mun styttri helmingunartíma, sé að losna úr jarðvegi í auknum mæli, m.a. vegna bráðnunar sífrera og jökla. Það gæti því verið afleiðing ofan á afleiðingu mannanna verka.

Aðrir hafa nefnt að neðansjávar eldgosið í Hunga Tonga í Kyrrahafi í ársbyrjun 2022 sé að hafa áhrif á hina óvenjulegu hita sumarsins. Þekkt er að risaeldgos sem spúa milljónum tonna af brennisteinsdíoxíði geti tímabundið lækkað hitastig með því að hindra að geislar sólar nái til yfirborðs. En gosið í Hunga Tonga var annars eðlis og vatnsgufan sem frá því kom var gríðarleg. Í neðri lögum lofthjúpsins breytist hún í rigningu og snjókomu en í þeim efri getur hún haldið til lengur og valdið gróðurhúsaáhrifum og tímabundinni hlýnun. Á það hefur hins vegar verið bent að áhrifin ættu að vera um garð gengin eða í það minnsta að fjara verulega út.

Í hita augnabliksins

Það er auðvitað gott að vita orsökina fyrir hinum háa hita sumarsins.  En fólk sem býr við lamandi afleiðingar hans er eflaust ekki að velta henni stöðugt fyrir sér heldur fyrst og fremst að reyna að hafa það bærilegt í hita augnabliksins.

Í Þýskalandi hafa læknar lagt til að tekin verði upp síesta þegar verst lætur og siðir nágranna þeirra á Spáni þar með teknir upp. Þetta er ekki lagt til í gamni heldur af því að langvarandi og miklir hitar geta verið lífshættulegir. Þýskaland hefur sloppið við slíkt enn sem komið er í sumar en gráðurnar þó orðið allt að 38,8 í Bæjaralandi. „Farið snemma á fætur, vinnið af kappi að morgni og takið síestu um miðjan dag,“ sagði yfirlæknir í viðtali við þýska útvarpsstöð. Ráðamenn segja hugmyndina alls ekki galna en að hana verði að þróa í samvinnu fyrirtækja og starfsfólks.

Þegar vifturnar þagna

Þetta eru allt saman ráð sem íbúar Túnis kunna og nýta. Þeir vakna fyrir fyrsta hanagal og sinna erindum. „Hér er fólk almennt lítið úti á daginn,“ segir Ástrós Helga og að flestum fyrirtækjum og verslunum sé lokað frá hádegi og fram eftir degi. Á kvöldin vaknar fólk til lífsins á ný.

Það sem í ofanálag hrellir íbúa Bizerte og margra annarra staða í heiminum sem nú glíma við ofsahita er endurtekið rafmagnsleysi. „Rafmagnið er sífellt að fara af hverfinu,“ segir Ástrós. Það sé af því að margir eru að nota viftur og önnur kælitæki og rafmagnskerfið einfaldlega höndli ekki álagið. Þegar rafmagninu slær út og vifturnar hætta að snúast „er það skellur í hvert einasta skipti,” segir hún og dæsir. „Þá fyrst verður alveg svakalega heitt!“

Í síðdegissólStrandir í Túnis eru fullar af fólki síðdegis og á kvöldin.

Mánudagurinn með sínum 50 gráðum nálgast og Ástrós viðurkennir að hún sé kvíðin. Dóttir hennar er tveggja ára og nýtur þess, þrátt fyrir allt, að busla í uppblásinni barnalaug í skugga við hús ömmu sinnar og afa. Þær mæðgur borða ógrynni af vatnsmelónum, rétt eins og heimamenn, til að fá nægan vökva.

„Við höfum velt því fyrir okkur að fara á hótel sem býður upp á loftkælingu,“ segir Ástrós um það hvernig fjölskyldan frá Íslandi hyggst bregðast við næstu hitabylgju. „En það er nú þannig að loftkælingarnar virka stundum ekkert á hótelunum. Við sjáum hvað við gerum. Í dag ætla ég að njóta þess að það eru 4-5 metrar á sekúndu. Þetta er allt annað líf!“ segir hún hlæjandi en er varla búin að sleppa orðinu þegar rafmagninu slær út. Og netsambandið slitnar.

En metrarnir 4-5 gera sitt þótt vifturnar stöðvist. Golan þægilega á undan væntanlegri hamfarahitabylgju.

Kjósa
14
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir (1)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
  • Kristjana Magnúsdóttir skrifaði
    EG MÁ ÞAKKA FYRIR ÞAÐ AÐ HAFA ÞÓ FÆÐST Á ÍSLANDI ÞRÁTT FYRIR ALLT AÐ HUGSA SER ALLANN ÞENNAN STEIKJANDI OFSA HITA SEM AUMINGJANS FÓLKIÐ Í UTLANDINU VERÐUR AÐ SÆTTA SIG VIÐ MAÐUR MINN
    0
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Mest lesið

Domino's-þjóðin Íslendingar
2
Skýring

Dom­ino's-þjóð­in Ís­lend­ing­ar

Guð­fað­ir og stofn­andi Dom­ino´s á Ís­landi, Birg­ir Bielt­vedt, hef­ur enn og aft­ur selt hluta­bréf í fyr­ir­tæk­inu og er út­gerð­ar­kon­an Guð­björg Matth­ías­dótt­ir nú orð­inn stærsti hlut­haf­inn. Birg­ir er rauði þráð­ur­inn í æv­in­týra­legri sögu pitsu­fyr­ir­tæk­is­ins á Ís­landi sem hef­ur kom­ið sér í ein­staka mark­aðs­stöðu á skyndi­bita­mark­að­in­um á Ís­landi.
„Ótrúlega falleg framtíðarsýn“ að hlaupa með pabba sínum á níræðisaldri
6
ViðtalHlaupablaðið 2024

„Ótrú­lega fal­leg fram­tíð­ar­sýn“ að hlaupa með pabba sín­um á ní­ræðis­aldri

Rann­veig Haf­berg hélt að hún gæti aldrei byrj­að að hlaupa. Hún létt­ist um 38 kíló á einu og hálfu ári með breyttu mataræði og hleyp­ur vænt­an­lega sitt tí­unda of­ur­m­ara­þon á Lauga­veg­in­um í sum­ar. Ey­steinn Haf­berg, fað­ir henn­ar, byrj­aði að hlaupa um sjö­tugt eft­ir hjarta­áfall. Hann er orð­inn fræg fyr­ir­mynd í ís­lenska hlaupa­heim­in­um. Móð­ir henn­ar er líka byrj­uð að hlaupa. Og barna­börn­in.
Eigi að læra íslensku áður en fjölskyldan kemur
9
FréttirFlóttamenn

Eigi að læra ís­lensku áð­ur en fjöl­skyld­an kem­ur

Meiri­hluti alls­herj­ar- og mennta­mála­nefnd­ar tel­ur efni til að víkka að­eins skil­yrði til fjöl­skyldusam­ein­ing­ar í um­deildu út­lend­inga­frum­varpi. Skil­yrði til und­an­þágu eru þó frem­ur ströng: Flótta­mað­ur­inn sem sæk­ir um fjöl­skyldusam­ein­ingu gæti feng­ið und­an­þágu ef hann hef­ur á einu ári lært ís­lensku, ver­ið virk­ur á vinnu­mark­aði í átta mán­uði, hef­ur til­tækt íbúð­ar­hús­næði fyr­ir fjöl­skyld­una og get­ur fram­fleytt sér.

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

Fékk ekki að segja bless við eiginmann sinn
2
Fréttir

Fékk ekki að segja bless við eig­in­mann sinn

Sara Sig­ur­björg Guð­munds­dótt­ir, eig­in­kona Precious Fel­ix Tani­mola sem var send­ur úr landi til Níg­er­íu í nótt, seg­ist ekki hafa feng­ið að kveðja hann: „Sím­inn var tek­inn af hon­um og ég fékk ekki að segja bless.“ Precious flúði til Ís­lands frá Úkraínu vegna stríðs­ins. Hon­um hafði ári áð­ur ver­ið boð­ið að spila þar fót­bolta með úkraínsku fé­lagsliði.
Samsæriskenningar um forsetaframbjóðendur
5
FréttirForsetakosningar 2024

Sam­særis­kenn­ing­ar um for­setafram­bjóð­end­ur

Sam­særis­kenn­ing­ar um fram­bjóð­end­ur til for­seta Ís­lands hafa lát­ið á sér kræla, sér­stak­lega hvað varð­ar tengsl við Al­þjóða­efna­hags­ráð­ið og meint­ar fyr­ir­ætlan­ir þess um heims­yf­ir­ráð. Stjórn­mála­sál­fræð­ing­ur seg­ir kenn­ing­arn­ar ekki eiga við rök að styðj­ast þótt vissu­lega sitji valda­mik­ið fólk í ráð­inu.
Skuldir á hvern íbúa í Garðabæ og Hafnarfirði nálgast tvær milljónir króna
8
Greining

Skuld­ir á hvern íbúa í Garða­bæ og Hafnar­firði nálg­ast tvær millj­ón­ir króna

Mik­ið er skegg­rætt um fjár­hags­stöðu sveit­ar­fé­laga á höf­uð­borg­ar­svæð­inu. Þeg­ar horft er á skulda­stöðu þess hluta rekst­urs þeirra sem er fjár­magn­að­ur með skatt­tekj­um er stað­an skást í Kópa­vogi og Reykja­vík en versn­ar hrað­ast í Garða­bæ og á Seltjarn­ar­nesi, þar sem veltu­fé frá rekstri var nei­kvætt í fyrra. Hafn­ar­fjörð­ur er eina sveit­ar­fé­lag­ið á höf­uð­borg­ar­svæð­inu sem var með veltu­fjár­hlut­fall, sem seg­ir til um getu sveit­ar­fé­lags til að borga skuld­ir sín­ar, um­fram það sem æski­legt er. Heim­ild­in rýndi í árs­reikn­inga sveit­ar­fé­lag­anna.

Mest lesið í mánuðinum

Skólastjórinn hættir eftir áralanga óánægju foreldra
1
Fréttir

Skóla­stjór­inn hætt­ir eft­ir ára­langa óánægju for­eldra

Móð­ir á Kirkju­bæj­arklaustri ætl­ar að flytja með börn­in sín úr bæn­um þar sem hún tel­ur ástand­ið í Kirkju­bæj­ar­skóla óvið­un­andi. Son­ur henn­ar hef­ur lít­ið mætt í skól­ann í á ann­að ár eft­ir at­vik í skól­an­um sem for­eldr­arn­ir kærðu til lög­reglu. Mál­ið var lát­ið nið­ur falla. Skóla­stjór­inn er nú á för­um en sveit­ar­stjór­inn seg­ir það „eng­um ein­um að kenna þeg­ar tveir deila“.
Rúlletta Róberts og vitnisburðir starfsfólks: „Þetta er bara rosalega mikið álag“
2
ÚttektRóbert Wessman, Alvogen og Alvotech

Rúll­etta Ró­berts og vitn­is­burð­ir starfs­fólks: „Þetta er bara rosa­lega mik­ið álag“

Starfs­menn Al­votech lýsa vinnu­álag­inu sem ómann­eskju­legu og hafa leit­að til stétt­ar­fé­laga út af ógreiddri yf­ir­vinnu og fleiri mál­um. Vinnu­að­stæð­urn­ar hafa ver­ið svona út af því að Al­votech hef­ur unn­ið að því að fá mark­aðs­leyfi fyr­ir sam­heita­lyf Humira í Banda­ríkj­un­um. Fyr­ir­tæk­ið hef­ur veðj­að öllu á þetta lyf en sala á því hef­ur dreg­ist sam­an og sam­heita­lyfj­um þess hef­ur alls ekki geng­ið eins vel í Banda­ríkj­un­um og reikn­að var með.
Fékk ekki að segja bless við eiginmann sinn
5
Fréttir

Fékk ekki að segja bless við eig­in­mann sinn

Sara Sig­ur­björg Guð­munds­dótt­ir, eig­in­kona Precious Fel­ix Tani­mola sem var send­ur úr landi til Níg­er­íu í nótt, seg­ist ekki hafa feng­ið að kveðja hann: „Sím­inn var tek­inn af hon­um og ég fékk ekki að segja bless.“ Precious flúði til Ís­lands frá Úkraínu vegna stríðs­ins. Hon­um hafði ári áð­ur ver­ið boð­ið að spila þar fót­bolta með úkraínsku fé­lagsliði.
Ákveðið að saksækja þrjá í Lindsor-málinu rúmum 15 árum síðar
8
Skýring

Ákveð­ið að sak­sækja þrjá í Lindsor-mál­inu rúm­um 15 ár­um síð­ar

Sama dag og Geir H. Haar­de flutti ræðu til þjóð­ar­inn­ar þar sem hann bað guð um að blessa Ís­land veitti Kaupþing af­l­ands­fé­lagi lán sem not­að var til að kaupa verð­lít­il skulda­bréf af starfs­mönn­um og vild­ar­við­skipta­vini bank­ans. Nú, 15 og hálfu ári eft­ir að lán­ið var veitt, stend­ur til að sak­sækja þrjá ein­stak­linga í Lúx­em­borg vegna þess.

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár

Loka auglýsingu