Ása Guðbjörg Ellerup hefur sótt um skilnað frá eiginmanni sínum, Rex Heuermann sem grunaður er um að hafa myrt fjórar ungar konur. Þau voru gift í 27 ár. CNN greinir frá þessu. Ákærur hafa verið gefnar út gegn Heuermann vegna þriggja af konunum fjórum en reiknað er með að hann verði einnig ákærður fyrir að myrða þá fjórðu. Málið hefur vakið gríðarlega athygli þar sem áratugur er síðan lík þeirra fundust og morðingi þeirra einfaldlega kallaður Gilgo-strandar morðinginn.
Samkvæmt lögreglunni í Suffolk-sýslu vissi Ása að líkindum ekkert um að eiginmaður hennar lifði tvöföldu lífi, annars vegar sem arkitekt og heimilisfaðir, en hins vegar sem grunaður raðmorðingi.
„Ef þú spyrð mig, þá trúi ég ekki að þau hafi vitað um þetta tvöfalda líf sem hann lifði,“ segir Rodney Harrison, lögreglumaður í Suffolk-sýslu.
Á blaðamannafundi lögreglunnar á föstudag sagði Harrison: „Dömur mínar og herrar. Rex Heuermann er djöfull sem gengur á meðal vor – rándýr sem hefur rústað fjölskyldum“.
Lögregluyfirvöld hafa þó ekki útilokað neitt og rannsókn stendur enn yfir á því „hvort fjölskyldan hafi vitað af því sem Heuermann var að gera,“ segir Harrison í samtali við CNN.
Ása sótti um skilnað í gær, miðvikudag, viku eftir handtöku Heuermann. Lögmaður hennar, Robert Macedonio, segir henni hafa brugðið mjög við að heyra af því sem eiginmaður hennar er sakaður um. Óafvitandi hafi hún hjálpað til við rannsóknina því það voru hár úr henni sem fundust á líkum kvennanna sem lögreglan gat þá tengt við Heuermann.
Ása og Heuermann giftu sig í apríl 1996. Síðan þá hafa þau búið á æskuheimili hans í úthverfi Massapequa Park á Long Island ásamt syni Ásu og dóttur sem þau eiga saman.
Fjölskyldan hélt sig út af fyrir sig
Samkvæmt Long Island Press segja nágrannar heimilið vera „krípí“ og engu viðhaldi þar sinnt. Þá hafi fjölskyldan verið fjarræn. „Þau héldu sig út af fyrir sig. Við sáum aldrei neitt grunsamlegt,“ segir Frankie Musto, nágranni þeirra, við miðilinn.
Harrison lögreglumaður sagði við CNN á mánudag að hann hafi fengið þær upplýsingar að þegar Ásu og dóttur þeirra hafi verið sagt frá glæpunum sem Heuermann er sakaður um hafi þeim „verið mjög brugðið, þær fundu fyrir viðbjóði og upplifðu skömm“. Vegna þessara viðbragða telur hann að þær hafi ekkert vitað.
Heuermann var úrskurðaður í gæsluvarðhald án möguleika á reynslulausn. Þegar hann var leiddur fyrir dómara lýsti hann sig saklausan. Hann kemur næst fyrir dóm þann 1. ágúst.
Heuermann hefur ekki fengið neina gesti í fangelsið. Hann má hringja tvö símtöl á dag en óljóst er hvort hann hefur nýtt sér það.
Athugasemdir (1)