Í það minnsta 1,1 milljarður býr við fátækt í þeim löndum sem ný skýrsla Þróunaraðstoðar Sameinuðu þjóðanna (UNDP) um fátækt nær til. Íbúar í þeim 110 löndum sem fjallað er um í skýrslunni telja 6,1 milljarð en íbúar jarðarinnar náðu átta milljörðum seint á síðasta ári. Samkvæmt skýrslunni er helmingur fátækra börn eða 566 milljónir.
Fjöldi fátækra jarðarbúa hefur dregist saman á undanförnum árum en þegar sambærileg skýrsla var birt fyrir fjórum árum bjuggu 1,3 milljarðar við fátækt. Fram kemur í nýju skýrslunni að í 15 löndum hafi þróun fátæktar ekki haldið í við fólksfjölgun, þannig að í þeim löndum hafi fjölgað í hópi fátækra þrátt fyrir að hlutfall fólks sem býr við fátækt hafi lækkað.
Við skýrslugerðina er stuðst við svokallaða MPI vísitölu, sem horfir ekki til tekna fólks heldur margra annarra þátta. Þættirnir sem horft er til eru næring, barnadauði, skólaganga, orkugjafar til eldunar, aðgangur að neysluvatni, salernisaðstaða, aðgengi að rafmagni og húsnæði.
Horft er til skorts á þessum þáttum við mat á alvarleika fátæktar, þeim mun meira sem fólk skortir á þessum lista, því alvarlegri er fátæktin. Alvarleika fátæktarinnar er svo komið til skila með kvarða. Þau sem glíma við minnsta fátækt, mælast með 33,3 til 39.9 stig af 100 á kvarðanum.
Staðan verst sunnan Sahara
Staðan er einna verst í löndum Afríku sunnan Sahara eyðimerkurinnar. Ekki einungis er hlutfall fátækra þar hærra en annars staðar, heldur búa íbúar á því svæði einnig við alvarlegri fátækt heldur en fólk í öðrum heimshlutum. Næstum helmingur fátækra býr í þeim hluta heimsins, 534 milljónir.
Af þeim 12 milljónum sem búa við allra mestu fátæktina, þ.e. mælast með 90 til 100 stig á áðurnefndum kvarða, þá búa tíu milljónir á þessu svæði.
Nærri tveir þriðju fátækra, eða um 730 milljónir, búa í miðtekjuríkjum. Þar af leiðandi eru aðgerðir í þessum ríkjum brýnar til þess að draga úr fátækt á heimsvísu að mati skýrsluhöfunda. Þrátt fyrir að aðeins einn tíundi hluti þeirra sem skýrslan nær til búi í lágtekjuríkjum þá búa 35 prósent fátækra í þeim.
Fátækt er almennt meiri í dreifbýli heldur en í þéttbýli. 84 prósent fátækra búa í dreifbýli.
Niðurstöðurnar virðast jákvæðar en ný gögn skortir
Fram kemur í skýrslunni að niðurstöður hennar séu jákvæðar við fyrstu sýn. Til að mynda hafi dregið úr fátækt til muna í mörgum löndum. Til að mynda bjuggu 415 milljónum færri íbúar Indlands við fátækt samkvæmt nýjustu tölum miðað við 15 árum fyrr. Auk þessi hafi mörgum íbúum Kína og Indónesíu verið lyft upp úr fátækt á nýliðnum árum. Þó kemur fram að þörf sé að uppfærðum gögnum, í mörgum löndum sem fjallað er um í skýrslunni hafa ekki borist gögn frá því fyrir heimsfaraldur.
Sé einungis litið til þeirra landa sem hafa skilað gögnum frá árunum eftir heimsfaraldur; Mexíkó, Madagaskar, Kambódíu, Perú og Nígeríu, sést að þar tókst ágætlega til við að halda áfram á sömu braut og áður þegar kemur að því að draga úr fátækt. Verulega fækkaði í hópi fátækra í Perú, Nígeríu og þá sérstaklega Kambódíu en þar lækkaði hlutfall fátækra í landinu úr 36,7 prósentum í 16,6 prósent frá árinu 2014 til ársins 2022. Á þeim tíma helmingaðist fjöldi fátækra í landinu, úr 5,6 milljónum í 2,8 milljónir.
Líkt og áður segir vantar enn nýrri gögn til að fá fyllri mynd af stöðu mála, sérstaklega til að varpa ljósi á áhrif faraldursins á börn. Fram kemur í tilkynningu UNDP að í yfir helmingi landa sem fjallað er um í skýrslunni hafi enginn marktækur munur mælst á fátækt barna milli tímabila eða að fátækt þeirra hafi dregist mun hægar saman heldur en hjá fullorðnum. Það gefi til kynna að fátækt meðal barna muni halda áfram að vera brýnt vandamál, sérstaklega með tilliti til skólagöngu og vannæringar.
Athugasemdir