Eldgos er hafið á Reykjanesskaga. Í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands segir að gosið hafi hafist um klukkan 16:40. Eldgosið kemur upp úr lítilli dæld rétt norður af Litla Hrút og það rýkur úr því til norðvestur.
Talið er að sprungan sé um 200 metra löng að því er kemur fram á Facebook-síðu Veðurstofunnar. Sjá má kvikustróka koma upp úr sprungunni. Í færslunni er fólk hvatt til þess að fara að öllu með gát: „Vísindamenn Veðurstofunnar eru á svæðinu við mælingar. Gangan að gosinu er löng og landslagið krefjandi, við hvetjum því fólk til þess að bíða átekta og fylgja fyrirmælum Almannavarna.“
Reykjarmökkurinn sést glögglega í þeim vefmyndavélum sem staðsettar eru á svæðinu.
Þegar Heimildin ræddi við Þorvald Þórðarson, eldfjallafræðing, rétt fyrir klukkan fimm var hann hinn rólegasti. „Ég reikna fastlega með að þetta sé í grennd við Litla-Hrút, það er mín ágiskun,“ sagði Þorvaldur.
Þegar hann var spurður að því hvort hann gæti staðfest það hvort eldgos væri hafið sagði hann að sérfræðingum í hópi eldfjallafræði og náttúruvárhóps Háskóla Íslands sýndist á öllu að svo sé. Hópurinn væri á leið að gosstöðvunum fljótlega.
Þriðja gosið á þremur árum
Eldgosið sem nú er hafið er það þriðja sem kemur upp á tiltölulega litlu svæði á jafnmörgum árum. Að kvöldi 19. mars 2021 hófst eldgos í Fagradalsfjalli. Þann 18 september það sama ár var kvika hætt að renna úr gígnum en gosinu var ekki formlega lýst lokið fyrr en þremur mánuðum síðar.
Fyrir tæpu ári síðan hófst svo eldgos í Merardölum, þann 3. ágúst 2022. Gosið stóð í um 18 daga.
Jörð skolfið undanfarna daga
Jarðskjálftahrina hófst í norðaustanverðu Fagradalsfjalli þann 4. júlí síðastliðinn með skjálfta upp á 3,6 að stærð sem fannst á Reykjanesskaga og höfuðborgarsvæðinu. Eftir fyrstu nótt hrinunnar höfðu um 2200 skjálftar mælst, þeirra stærstur var skjálfti upp á 4,8 að stærð.
Stærsti skjálftinn í hrinunni reið yfir í gærkvöldi, 5,2 að stærð. Skjálftinn fannst víða um land og honum fylgdi grjóthrun úr Keili.
Athugasemdir