Fjármála- og efnahagsráðherra birti nýlega svar við fyrirspurn frá Dagbjörtu Hákonardóttur um breytingar á reglum um skatta og gjöld á árunum 2018-2022, hvort þessar breytingar hafi leitt til hækkunar eða lækkunar og áhrif þeirra á tekjur. Í svarinu kemur fram að á árinu 2022 hafi áhrif skattalækkana umfram skattahækkanir á tímabilinu numið 69,4 ma.kr. ef tímabundnar ráðstafanir vegna Covid eru taldar með, en 54,1 ma.kr. ef aðgerðum sem tengjast Covid er sleppt. Þetta eru háar tölur. 69,4 ma.kr. eru 6,1% af tekjum ríkissjóðs á árinu 2022 og 1,84% af vergri landsframleiðslu sama árs.
Stærsti liðurinn í samantektinni eru lækkanir vegna breytinga á tekjuskatti einstaklinga, 6 breytingar sem komu til framkvæmda á árunum 2019-2022 og lækkuðu tekjuskatt um 27,6 ma.kr. Þessi lækkun nemur 7,4% af öllum tekjum ríkissjóðs af sköttum á tekjur og hagnað á árinu 2022 og 0,73% af vergri landsframleiðslu ársins.
Í fyrirspurninni er spurt um áhrif breytinga á sköttum og gjöldum á tekjur. Það er ekki tekið fram að spurt sé um áhrif á tekjur ríkissjóðs en í svarinu er miðað við áhrif á tekjur ríkissjóðs. Í fyrirspurninni er ekki vikið að því að ástæða kunni að vera til þess að taka tillit til áhrifa breytinga í verðlagi og launum á niðurstöðurnar. Í svarinu er þó tekið tillit til verðlagsbreytinga í einu tilfelli. „Tekjuáhrif krónutölugjalda og nefskatta miðast við raunbreytingu, þ.e. umfram almenna verðlagsbreytingu.“ Það er augljóslega rétt að taka tillit til verðbólgunnar í svona útreikningum. Ef gjöld fyrir þjónustu ríkisins hækka um 10% þegar verðbólga er 10% gefur það misvísandi mynd af raunverulegri breytingu að tilgreina hækkun nafnverðsins. Það má jafnvel velta því fyrir sér hvort ekki sé réttast að draga frá hækkun gjaldanna hækkun launa frekar en hækkun verðlags vegna þess að mikið af kostnaði vegna þjónustu ríkisins hækkar með launum auk þess sem þannig fást mælingar á breytingum á gjöldum þar sem miðað er við hvort gjöldin hækka eða lækka sem hlutfall af tekjum, þ.e. hversu mikil byrði er af gjöldunum. Mikilvægi þess að leiðrétta fyrir breytingum verðlags og launa er þeim mun meira sem verðbólgan er meiri.
Ekki er nefnt í svari ráðuneytisins að tekið sé tillit til áhrifa breytinga á verðlagi og launum á aðrar stærðir, t.d. tekjuskatt. Þess er ekki heldur getið af hverju það hafi ekki verið gert.
Í svari fjármála- og efnahagsráðuneytisins er sagt að meðtaldar séu „helstu breytingar á skattalögum sem hafa haft í för með sér aukningu eða minnkun á tekjum ríkissjóðs frá ársbyrjun 2018 til ársloka 2022.“ Þar eru engin áhrif af breytingum tekjuskatts einstaklinga á árinu 2018. Heildarlækkun tekjuskattsins, 27,6 ma.kr., er tilkomin vegna breytinga á skattareglum sem komu til framkvæmda á árunum 2019-2022.
Hækkun eða lækkun á tekjuskatti
Fljótt á litið gæti virst nærtækt að reikna út breytingu á skattbyrði milli áranna 2018 og 2022 með því að reikna út tekjuskatt miðað við tilteknar tekjur á árinu 2022 og skattareglur á því ári og reikna svo tekjuskatt miðað við sömu tekjur og skattareglur ársins 2018. Mismunurinn væri þá skattahækkun eða skattalækkun. Vandamálið við þessa aðferð er að fæstir voru með sömu tekjur á þessum árum. Ef við miðum við launavísitölu voru tekjur fólks 30,8% hærri á árinu 2022 en á árinu 2018. Til að fá eðlilegan samanburð á skattlagningunni þarf að taka tillit til þessarar hækkunar teknanna. Ef það er ekki gert verður útkoman lang oftast sú að tekjuskatturinn lækkar vegna þess að persónuafsláttur og tekjuviðmiðanir fyrir skattþrep eru hækkuð í takt við hækkun verðlags og launa.
Það er hægt að leiðrétta fyrir breytingum verðlags og launa með mismunandi hætti. Mér finnst eðlilegast að reikna út breytingar á skattbyrði vegna tekjuskatts á milli áranna 2018 og 2022 með því að reikna út skattinn miðað við tilteknar tekjur og skattareglur á árinu 2018 og reikna svo út tekjuskatt miðað við sömu tekjur hækkaðar um almenna breytingu á tekjum og skattareglur ársins 2022. Ef hlutfall tekjuskatts af tekjum hefur hækkað þá telst það skattahækkun en annars er um skattalækkun að ræða.
Myndin hér fyrir neðan sýnir breytingar á byrði af tekjuskatti milli áranna 2018 og 2022. Myndin sýnir reyndar ekki breytingar í tekjum ríkissjóðs af tekjuskatti heldur breytingar í tekjum hins opinbera (ríkis og sveitarfélaga) af tekjuskatti og útsvari, sem er sennilega það sem fólk hefur oftast í huga þegar rætt er um byrði af tekjuskatti. Miðað er við skattastuðla fyrir staðgreiðslu, persónuafslátt og viðmiðunarfjárhæðir og hlutföll fyrir skattþrepin sem hægt er að nálgast á heimasíðu Skattsins, www.rsk.is. Myndin gefur til kynna hversu ólíkar niðurstöðurnar verða eftir því hvaða aðferð er notuð til að reikna út breytingar á skattbyrðinni.
Fyrri línan í myndinni sýnir niðurstöður ef tekjuskattur (og útsvar) er reiknaður út fyrir tilteknar tekjur sem sýndar eru á lárétta ásnum, fyrst miðað við skattareglur á árinu 2018 en svo einnig miðað við reglur sem giltu á árinu 2022. Hlutfall tekjuskatts af tekjum er reiknað fyrir bæði árin. Mismunur hlutfallanna er sýndur í myndinni.
Seinni línan er búin til með því að reikna út tekjuskatt ársins 2022 miðað við að tekjur hafi hækkað með launavísitölu og séu 30,8% hærri en tekjur ársins 2018. Frá hlutfalli tekjuskatts af tekjum á árinu 2022 er svo dregið hlutfall tekjuskatts af tekjum á árinu 2018 sem reiknað er með sama hætti og áður.
Fyrri aðferðin er sennilega nálægt þeirri aðferð sem notuð var til að reikna út áhrif skattabreytinga í svari fjármála- og efnahagsráðherra. Sú aðferð gefur mikla lækkun á skattbyrði vegna tekjuskatts á öllum tekjubilum nema þeim sem eru fyrir neðan skattleysismörk. Ef hins vegar miðað er við breytingu á hlutfalli tekjuskatts af tekjum og tekjuskattur ársins 2022 reiknaður miðað við að tekjur hafi hækkað sem nemur launavísitölu frá árinu 2018 fæst að skattbyrðin hefur aukist lítilsháttar á flestum tekjubilum. Ég held að þetta sé réttasta viðmiðið varðandi það hvort tekjuskattur hafi hækkað eða lækkað.
Til að fá niðurstöður varðandi hækkun eða lækkun tekjuskatts í heild þarf að vega tölurnar í myndinni með hlutfallslegum fjölda fólks á einstaka tekjubilum. Sennileg útkoma úr slíkum reikningi er að byrðin af tekjuskatti hafi aukist á milli áranna 2018 og 2022 um ½ prósentu þegar tekið hefur verið tillit til hækkunar launa á tímabilinu. Ef þeirri leiðréttingu er sleppt fæst að byrðin hafi lækkað um 3 prósentur.
Athugasemdir (1)