Bretar vöknuðu nýlega upp við vondan draum.
Svo gæti ég haldið áfram á ótrúlega fjölbreytta vegu, því vissulega hafa Bretar að undanförnu vaknað upp við ansi marga vonda drauma — frá og með martröðinni Brexit.
En frá einu dæmi sagði á dögunum í Observer.
Bretar hafa sem sé talið sér trú um að málefni illa staddra barna væru í þokkalega góðu lagi hjá þeim.
Að minnsta kosti þegar í óefni væri komið.
Undanfarinn áratug hafi nefnilega risið af grunni ágætur fjöldi barna- og unglingaheimila þar sem börn í vandræðum gætu fengið inni, hvort heldur væri vegna hegðunar- eða heilbrigðisvandamála, félagslegra vandamála af öllu tagi, afskiptaleysis foreldra og svo framvegis.
Á dögum Thachter
Þessi heimili eru reist af einkaaðilum sem reka þau líka en ríkið ber kostnaðinn. Allt það fyrirkomulag ber keim af einkavæðingarpólitíkinni sem hefur verið guðspjall dagsins á Bretlandi allt frá því á dögum Thatchers og tala nú ekki um síðasta áratuginn undir stjórn Íhaldsflokksins.
Einkavæðingin átti, eins og við vitum, að leysa úr læðingi kraft markaðarins og getu hans til að leysa vandamál bæði betur og ódýrar en hin dauða hönd ríkisins. Að vísu hefur komið í ljós – og æ betur eftir því sem árin hafa liðið – að í ótrúlega mörgum tilfellum hefur þetta reynst fals og villuljós.
Sér í lagi þegar málið snýst um velferðarmál, menntamál, heilbrigðismál og innviði alls konar.
Þjónusta hefur orðið dýrari en jafnframt versnað.
Ótrúlega oft, sem sagt.
En Bretar trúðu því sem sagt að börn í vandræðum væru ekki í vandræðum því öll nýju vistheimilin væru svo ágæt og prýðileg.
En nú er samt komið babb í bátinn.
Blackburn, Burnley og Bradford
Athugun Observer á ástandi þessara mála á Englandi leiddi sem sé í ljós nokkuð sem fólk hefði kannski ekki getað látið sér detta í hug fyrir fram. Á undanförnum fimm árum hefur nýjum einkabarnaheimilum fjölgað fimm sinnum hraðar á þeim svæðum í Englandi þar sem húsnæðisverð er lægst.
Observer nefnir sérstaklega láglaunasvæði í norðvestri í grennd við borgirnar Blackpool, Burnley og Bradford.
Yfirmenn barnaverndaryfirvalda hika ekki við að halda því fram að ástæðan sé einföld – „bláköld gróðahyggja [blatant profiteering]“ hinna einkafyrirtækjanna sem byggja, stofna og/eða reisa hin nýju barnaheimili. Ekki aðeins húsnæði (og byggingakostnaður) heldur og laun starfsfólks eru góðum sjónarmun lægri þarna í norðvestrinu heldur en í suðrinu og sérstaklega í London og þess vegna rísa svo mörg barnaheimili þar.
Einkafyrirtækin græða einfaldlega meira á að koma þeim þarna fyrir.
En hverjar eru afleiðingarnar?
Rifin upp með rótum
Jú, börn í viðkvæmri stöðu eru rifin upp með rótum úr sínu nærumhverfi og send á heimili í 300–500 kílómetra fjarlægð. Í einstaka tilfelli kann slíkt að vera gott fyrir börnin (þau sem búið hafa við einhverjar tómar skelfingar heima hjá sér) en í lang, langflestum tilfellum eykur það á vandræði þeirra og vanlíðan að nærri alveg sé skorið á samskipti þeirra við vini og ættingja og þau sett niður á alveg framandi stað.
Svo ný vandamál – rótleysi, einmanaleiki, einangrun – bætast ofan á þau sem fyrir voru.
Og þessi nýju vandamál stafa bara af því að einkafyrirtækin græða meira á því að koma upp barnaheimilum sínum þar norður frá en í suðrinu eða í London, þaðan sem flest börnin koma (einfaldlega af því þar búa flestir).
Hve vel einkafyrirtækjum er treystandi ...
Rannsókn Árna H. Kristjánssonar á aðbúnaði og líðan barna á vöggustofum hérlendis færir fólki hérlendis vonandi heim sanninn um – hafi verið þörf á því – hve grimmilegt og hættulegt það er að svipta börn eðlilegum tengslum við annað fólk. Sama gerir könnun Observer á því hvernig komið er vist viðkvæmra barna í vandræðum á Englandi.
En aðallega er hér komin enn ein sönnun þess hve varasamt og stórhættulegt er að hleypa gróðafyrirtækjum að velferðarmálum. Þegar heyrast hryllingssögur af einkareknum elli- og hjúkrunarheimilum. En líklega hefur fáum dottið í hug, þegar einkafyrirtækjum var falið að reisa og reka barnaheimili, að einmitt þetta gæti orðið ein af afleiðingunum.
En svona getur alltaf og ævinlega gerst ef blákaldri gróðahyggju er hleypt að viðkvæmu fólki. Höfum það í huga þegar dregur að kosningum og sumir fara að tala um hve vel einkafyrirtækjum sé treystandi til að reka velferðar- og samfélagsfyrirtæki.
Það þarf að passa börnin.
Athugasemdir