„Lifðu lífinu líkt og hver dagur sé þinn síðasti. Lærðu líkt og þú lifir að eilífu.“ Þessa lífsspeki tileinkaði 17 ára Amanda Riley sér við útskrift úr menntaskóla, en tilvitnunina má finna við mynd af henni í árbókinni. Um tíu árum seinna var hún orðin eiginkona og móðir í Kaliforníu sem fer reglulega í kirkju. Hún er félagslynd og bloggar um lífið og tilveruna. En dagar hennar verða brátt taldir. Hún er með 4. stigs krabbamein og fjallar ítarlega um það á blogginu sínu.
Eða hvað? Í hlaðvarpinu Scamanda er fjallað um blekkingarleik og stórfelld fjársvik Amöndu. Það er óþarfi að gefa of mikið upp um í hverju svikin felast nákvæmlega, það skýrist fljótt við fyrstu hlustun. Rannsóknarblaðamaðurinn Charlie Webster varði fimm árum í að skoða mál Amöndu. Í þáttunum rýnir hún í bloggfærslur hennar, kraftaverkabarnið sem átti að sigra krabbameinið, að ógleymdri bónusdótturinni. Einnig er rætt við samferðafólk hennar sem lýsir henni meðal annars sem „ótrúlega trúverðugri“.
Svik og prettir virðast falla vel í kramið um þessar mundir en Scamanda er dæmi um fjölmörg hlaðvörp þar sem einhvers konar svik gegna stóru hlutverki. Þar er vert að minnast á The Dropout, Believe in Magic og A very British Cult. Scamanda gefur þeim lítið eftir og það er því tilvalið að hafa svik sem þema í hlaðvarpshlustun sumarsins.
Athugasemdir