Nokkrir íbúar neðarlega í Fossvogsdal, þar sem Reykjavíkurborg áformar að byggja nýjan leikskóla fyrir allt að 150 börn, lýsa yfir áhyggjum af því að þegar leikskólinn verði byggður muni bílaumferð aukast mjög mikið á svæðinu. Embætti skipulagsfulltrúa í Reykjavíkurborg segir í svörum til íbúa að fylgst verði með þróun umferðar um Fossvogsveg og ráðstafanir gerðar, ef þurfa þykir.
Samþykkt var í borgarráði í gær að auglýsa deiliskipulagstillögu fyrir svæðið. Í henni er gert ráð fyrir að svæðinu megi rísa 2.200 fermetra tímabundin leikskólabygging, auk þess sem skilgreindur er byggingarreitur fyrir allt að 2.400 fermetra leikskóla sem á að vera á lóðinni til frambúðar.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sátu hjá við afgreiðslu málsins, en í umhverfis- og skipulagsráði tóku fulltrúar flokksins undir með þeim íbúum í hverfinu sem töldu staðsetninguna ekki heppilega fyrir leikskóla af þessari stærð. „Eins og íbúar í hverfinu benda á er Fossvogsgata þröng, með gangstétt aðeins öðrum megin og hentar því ekki hinni miklu umferð, sem mun óhjákvæmilega fylgja stórum leikskóla,“ sagði í bókun fulltrúa sjálfstæðismanna í umhverfis- og skipulagsráði í vikunni.
Hætta á umferðaröngþveiti ætti að vera í lágmarki, segir skipulagsfulltrúi
Einn íbúi sagði, í umsögn um svokallaða skipulagslýsingu sem samþykkt hefur verið fyrir svæðið, að það sé „óraunsæ rómantík að halda að foreldrar munu koma með börn sín gangandi eða hjólandi í leikskólann“ og að hugmyndin um að setja niður leikskóla á þessum stað, á lóð sem heitir Fossvogsblettur 2-2A, muni stefna á milli 300 til 400 bílum aukalega niður í Fossvogsalinn á hverjum degi, „með tilheyrandi teppum á þessu afmarkaða friðsæla svæði“.
Í svari til þessa íbúa frá skipulagsfulltrúa er bent á að tvær aðkomuleiðir séu að Fossvogsvegi, bæði frá Bústaðavegi um Háaleitisbraut og hins vegar frá Bústaðavegi um Eyrarland og umferð sé um göturnar í báðar áttir. „Hætta á umferðaröngþveiti ætti því að vera í lágmarki,“ segir í svarinu frá skipulagsfulltrúa borgarinnar, en boðað að fylgst verði með áhrifum leikskólans á umferðina, sem áður segir.
Hrifin af leikskóla en telja hann of fjölmennan
Þeir íbúar sem sendu inn umsagnir við skipulagslýsingu reitsins, lýstu sumir yfir ánægju með að það standi til að reisa leikskóla á svæðinu, en athugasemdir eru gerðar við fyrir hugaða stærð hans.
„10 deilda leikskóli fyrir 150 börn í grónu íbúahverfi þar sem gatnakerfið er þröngt og aðkoma erfið er of stór. Lagt er til að leikskólinn muni taka við mun færri börnum,“ skrifar einn fasteignaeigandi á svæðinu.
Annar segir foreldra innan hverfisins lengi hafa kallað eftir leikskólaplássi innan hverfis og segir í umsögn hans að skutlið á milli póstnúmera fyrir og eftir vinnu sé vonandi á enda. Fyrirhugaður leikskóli sé hins vegar of stór, og það rökstyður íbúinn með því að nærumhverfið sé ekki þéttbyggt, í nærumhverfinu séu ekki margar barnafjölskyldur og staðsetningin sé í jaðri hverfisins, en ekki miðju þess.
„Að ofantöldu má leiða að umferðin til og frá leikskólanum sé mest megnis á bíl. Þrátt fyrir mjög góða hjólastíga höfum við áhyggjur af því að barnafjölskyldur muni koma og fara akandi,“ skrifar íbúinn, sem nefnir að skynsamlegri nálgun væri að byrja með 50 barna leikskóla á svæðinu og að minni leikskóli myndi frekar þjóna sínu nærumhverfi. „Upplifun okkar er sú að hér sé verið að leysa tímabundinn vanda vegna myglumála og barnafjölda vestan Elliðaár með einu pennastriki í Fossvogi,“ skrifar íbúinn í niðurlagi umsagnar sinnar.
Ætla má að fleiri íbúar rafhjólavæðist eða noti almenningssamgöngur
Í svari skipulagsfulltrúa borgarinnar er til þessa íbúa segir að þessi áform ein og sér muni því miður ekki leysa núverandi skort á leikskólaplássum.
„Markmiðið með áformum þessum er miklu fremur að nýta sem best gróðursælt og skjólgott svæði sem hentar einkar vel fyrir starfsemi leikskóla og byggja góðan leikskóla til framtíðar sem hefur gott aðgengi frá helstu stofnbrautum borgarinnar, bæði akandi og hjólandi umferðar. Lóðirnar báðar til samans veita nægjanlegt rými fyrir 10 deilda leikskóla en sú stærð þykir jafnframt auka hagkvæmni framkvæmdarinnar,“ segir í svari skipulagsfulltrúans.
Þar kemur einnig fram að leikskólanum sé ekki ætlað að þjóna eingöngu nærumhverfi sínu, heldur ekki síður starfsfólki stofnana í nágrenninu, eins og Borgarspítala, RÚV og Kringlunni.
„Líkast til mun meirihluti barna koma og fara frá leikskóla í bíl. Spár um fjölda barna í hverfum borgarinnar benda þó til þess að fjöldi barna í þessu hverfi muni aukast á komandi árum og þá munu foreldrar geta komið með börn sín til leikskólans með öðrum ferðamátum en bílum. Ennfremur má ætla að enn fleiri íbúar Fossvogsdals muni rafhjólavæðast eða nýta sér almenningssamgöngur sem mun vega upp á móti ætlaðri bílaumferð að hinum nýja leikskóla,“ segir í svari skipulagsfulltrúans.
Skipulagslýsingin og ábendingar og athugasemdir voru kynnt á fundi umhverfis- og skipulagsráðs borgarinnar á miðvikudaginn. Síðan var samþykkt í borgarráði á fimmtudag að auglýsa deiliskipulagstillögu fyrir reitinn. Samkvæmt henni er gert ráð fyrir 32 bílastæðum við leikskólann.
Athugasemdir