Mikil aukning er í útflutningi á hormónum úr blóði fylfullra hryssa frá Íslandi á þessu ári. Útflutningurinn hefur farið stigvaxandi um árabil allt fram að metárinu 2021 þegar hann nam tæplega 1,7 milljörðum króna.
Svo virðist sem fyrirtækið Ísteka ehf. standi eitt að þessum útflutningi.
Í fyrirtækjaskrá Skattsins er unnt að nálgast ársreikninga Ísteka. Á mynd 2 má sjá árssölu félagsins fyrir árin 2017-2021:
Sölutölur Ísteka virðast þannig hreyfast í takt við vörur í 29. kafla tollskrárinnar sem inniheldur hormón. Af einhverri ástæðu er sérstakur flokkur í íslensku tollskránni: 299999999 – Vörur úr kafla 29 sem eru bundnar trúnaði. PMSG er eina hormónið sem við vitum um úr kafla 29 sem flutt er út. Þessi leynd er því undarleg.
Hormónið sem Ísteka framleiðir úr blóði fylfullra hryssa nefnist PMSG. Það er notað til að auka frjósemi dýra í kjötiðnaði umfram það sem náttúrulegt er. Unnt er að framleiða líftæknishliðstæður hormónsins en það er töluvert dýrara en að taka blóð úr hryssum.
„Því virðist sem uppnámið sem meðferð blóðmera olli 2021 og 2022 sé að falla í gleymskunnar dá í heimi viðskipta.“
Haustið 2021 kom fram mikil gagnrýni á blóðtöku úr fylfullum hryssum og var útflutningur á hormóninu PMSG í kjölfarið talsvert minni á árinu 2022. Ef fram heldur sem horfir getur útflutningur á PMSG orðið jafnmikill á þessu ári og á metárinu 2021. Því virðist sem uppnámið sem meðferð blóðmera olli 2021 og 2022 sé að falla í gleymskunnar dá í heimi viðskipta.
Í nýlegri grein okkar fjölluðum við um það álit ESA að íslensk stjórnvöld færu ekki að reglum um verndun dýra sem notuð eru í vísindaskyni þegar PMSG hormónið er framleitt úr blóði fyllfullra hryssa.
Löndin sem enn flytja út PMSG hormónið eru Ísland, Argentína og Úrúgvæ.
Kaupendur hormónsins
Framan af virðist útflutningur hormónsins PMSG einkanlega hafa verið til Hollands. Breyting varð á þessu á árinu 2020 en þá bættist við útflutningur til Þýskalands. Árið 2021 fór nálega allur útflutningurinn til Þýskalands. Um haustið það ár, eftir að gagnrýni á blóðtöku úr fylfullum hryssum kom fram, virðist útflutningur til Þýskalands hafa dregist mikið saman. Þess í stað hófst kröftugur útflutningur til Bretlands, sem stóð þá orðið utan Evrópusambandsins. Á þessu ári ári hefur aftur orðið breyting á og fyrstu fjóra mánuði ársins 2023 hefur verið mjög mikill útflutningur til Þýskalands. Þetta má sjá á mynd 3.
Þýska blóðmerabúið Meura lokaði á árinu 2023. Það var eina blóðmerabúið í Þýskalandi og var PMSG hormónið síað úr blóði hryssanna með plasmaphoresu, sem er framkvæmd þannig að blóðinu er dælt úr hryssunum í gegnum síu og inn í líkama þeirra aftur. Þær verða því ekki fyrir blóðmissi ólíkt íslenskum hryssum. Þarna þótti svo nærri gengið heilsu dýranna að búinu var lokað. Þetta gæti útskýrt að einhverju leyti aukinn útflutning á PMSG hormóninu til Þýskalands.
Útflutningur á PMSG hormóninu sem framleitt er af Ísteka ehf. er mikill og vaxandi. Hann dróst saman þegar gagnrýni á blóðmerahald stóð sem hæst og lagðist nánast alveg af til Þýskalands. Útflutningurinn virðist því miður vera kominn á fullt skrið einkanlega til Þýskalands þótt óvissa ríki enn um lögmæti blóðmerahalds.
Athugasemdir (1)