Sala Íslandsbanka á 22,5% hlut ríkisins í bankanum hefur verið áberandi í samfélagsumræðunni síðustu daga í kjölfar sáttar sem bankinn gerði við Fjármálaeftirlitið. Meðal þess sem fólk hefur velt fyrir sér eru þær miklu fjárhæðir sem tengjast málinu. Á síðasta ári fékk þáverandi bankastjóri Birna Einarsdóttir alls 68,9 milljónir króna í laun fyrir störf sín. Hún hefur nú sagt starfi sínu lausu.
Heimildin spurði gangandi vegfarendur í miðbæ Reykjavíkur hvað þeir myndu gera við 68 milljónir og hver afstaða þeirra væri í Íslandsbankamálinu. Enginn af viðmælendunum myndi taka húsnæðislán hjá Íslandsbanka að svo stöddu og var Arion banki talinn heppilegri kostur í flestum tilvikum.
Stjórnvöld bera ekki ábyrgð
Jóhanna Kristín Hjartardóttir hefur fylgst svolítið með Íslandsbankamálinu og finnst það fáránlegt. Bankinn mun greiða sögulega háa sekt: 1,2 milljarða króna vegna lögbrota sem framin voru innan hans í útboðinu.
Hvað myndir þú gera við 68 milljónir?
Fjárfesta. Helst kaupa íbúð eða eitthvað svoleiðis en ekki það að lánin séu góð akkurat núna.
Ertu búin að vera að fylgjast eitthvað með Íslandsbankamálinu?
Já, svolítið.
Og hvað finnst þér?
Bara eiginlega fáranlegt. Manni finnst einhvern vegin eins og að stjórnvöld séu ekki að taka neina ábyrgð, færa þetta allt yfir á einhverja sem að þau geta bara svona skúbbað út. Og já, bara smá svona siðblinda í gangi finnst manni.
Og fjármálaráðherra, finnst þér hann þá ekki búinn að standa undir ábyrgð heldur?
Nei, bara alls ekki. Ég meina, maðurinn á ekkert að vera í þessari stöðu lengur.
Ef þú værir að kaupa íbúð í dag, myndiru taka húsnæðislán hjá Íslandsbanka?
Nei. Ég er hjá Íslandsbanka en ég er að fara að skipta.
Veistu hvert þú ætlar að fara?
Það eru ekkert margir betri kostir en jú ætli það sé ekki bara Arion eða Landsbankinn, það er allavegana skárra akkurat núna til þess að sýna eitthvað að maður sé á móti þessu.
Leika sér
Bræðurnir Arnar Kári og Birgir Steinn Styrmissynir myndu leggja háa upphæð inn á bankabók og fjárfesta fyrir 68 milljónir.
Hvað mynduð þið gera ef þið fengjuð 68 milljónir?
Birgir Steinn: Ég myndi leggja háa upphæð inn á banka og síðan líka leika mér með restina.
Hvað þýðir að leika sér með peninga?
Birgir Steinn: Kaupa mér hluti eins og föt og kannski bíl.
Hvað myndir þú gera?
Arnar Kári: Eins og hann þá myndi ég byrja á að leggja mikið til hliðar, eins mikið og mögulegt væri. Svo myndi ég kaupa mér íbúð og leigja eina út og svo myndi ég reyna að jafnvel kaupa tvær. Búa í einni, leigja hina út. Hafa eins lítið eftir til að leika sér með.
Frábært, og eru þið eitthvað búnir að fylgjast með sölunni á Íslandsbanka?
Báðir: Nei.
En eruð þið með einhverja skoðun á fjármálaráðherra?
Báðir: Nei.
Ein spurning að lokum, ef þið væruð að kaupa ykkur íbúð í dag, haldiði að þið mynduð taka lán hjá Íslandsbanka?
Arnar Kári: Nei, ég held ég myndi ekki gera það.
Hvert myndir þú fara?
Arnar Kári segir: „Ég myndi fara í Arion,“ og Birgir tekur undir.
Bjarni Ben ágætur
Líkt og bræðurnir myndi Ingibjörg Aðalheiður Gylfadóttir frekar taka húsnæðislán hjá Arion banka.
Hvað myndir þú gera við 68 milljónir?
Ég myndi kaupa mér sumarhús og íbúð.
Hvar myndir þú kaupa þér sumarhús?
Í Grafningi.
Ertu búin að vera að fylgjast eitthvað með Íslandsbankamálinu?
Voða lítið.
Ertu með einhverja skoðun á því?
Nei, enga sérstaka.
Hvað finnst þér um Bjarna Ben fjármálaráðherra?
Hann er ágætur. Jájá.
Ein spurning að lokum, myndiru taka húsnæðislán hjá Íslandsbanka í dag?
Ég er í Arion banka, ég myndi fara í Arion banka.
Myndi kaupa fasteign
Breki Þórðarson segist ekki hafa fylgst nógu vel með Íslandsbankamálinu.
Hvað myndir þú gera við 68 milljónir?
Bara kaupa fasteign.
Hvar myndir þú kaupa?
Ég veit það ekki, bara einhvers staðar á höfuðborgarsvæðinu.
Ertu búinn að vera að fylgjast eitthvað með þessu Íslandsbankamáli?
Ekki nógu mikið nei en aðeins bara.
Myndiru samt taka húsnæðislán hjá Íslandsbanka í dag?
Örugglega ekki nei.
Af hverju?
Bara af því að það er bara ekki minn banki held ég.
Fylgist aðeins með
Hrafnkell Hákonarson myndi láta sig hverfa frá Íslandi fengi hann 68 milljónir króna.
Hvert myndiru fara?
Filippseyjar.
Af hverju?
Af því að konan mín er þaðan. Mér líkar vel við Filippseyjar.
Ertu búinn að fylgjast eitthvað með Íslandsbankasölunni?
Ja, svona bara í gegnum útvarpið bara.
Og hvað finnst þér?
Maður átti svosem alveg von á þessu. Mér leist aldrei á þessa konu þarna.
Myndir þú taka húsnæðislán hjá Íslandsbanka í dag?
Nei. Aldrei.
Athugasemdir