Það eru tæp 15 ár síðan að íslenska ríkið sat uppi með heilt bankakerfi í fanginu, í kjölfar þess að nokkrir lukkuriddarar með ofsafengna trú á eigin ágæti settu það, og næstum landið allt, á hausinn. Það gerðu þeir með því að nýta sér, og taka að einhverju leyti yfir, þau kerfi sem smíðuð hafa verið til að reka íslenskt samfélag.
Bankakerfið var endurreist með handafli. Neyðarlög voru sett, höft múruð upp og regluverkið hert. Ferlið tók mörg ár og hafði margháttuð áhrif á líf venjulegs fólks. Margir þeirra sem sóttu völd og ríkidæmi til þess kerfis, og komu eignum í skjól eða fengu himinháar afskriftir hjá nýja bankakerfinu, hafa beðið þolinmóðir eftir því að byggja einhverja útgáfu af því að nýju. Lykilbreyta var að koma bönkunum úr höndum slitabúa og ríkisins, og í hendur gömlu leikendanna.
Það hefur tekið langan tíma, en á síðustu árum hefur þróunin orðið hraðari. Lögbundnar lífeyrisgreiðslur hafa búið til digra sjóði úr peningum almennings. Þeir sjóðir hafa nýst til að kaupa stóra bita af íslensku atvinnulífi, sérstaklega á tímum þegar það mátti ekki nota þá utan landsteinanna. Lífeyrissjóðirnir eru, að uppistöðu, eigendur sem hafa engin bein áhrif á rekstur þeirra fyrirtækja sem þeir eiga í, þrátt fyrir að þau starfi flest á fákeppnis- eða einokunarmarkaði og að hátterni þeirra hafi þar af leiðandi mikið áhrif á líf eigenda sjóðanna, almennings í landinu.
Oft virðast sjóðirnir þó frekar samsama sig með starfsmönnum þóknanaþyrstra fjármálasjoppa en eigendum sínum. Þeir eru þeirra fólk.
Í bakpoka almennings
Í bakpoka þessa kerfis hafa gömlu leikararnir úr bankahruns-harmleiknum snúið aftur, og tekið sér völd langt umfram þá fjármuni sem þeir leggja fram.
Þeir náðu yfirráðum yfir lykileignum úr slitabúum og nýjum bönkum. Fundu leiðir til að kreista tugi milljarða króna út úr félögum eins og Arion banka og Símanum. Leiðir til að breyta olíufélagi í fjárfestingafélag sem síðan breytti tryggingafélagi í fjárfestingarbanka. Stóra skrefið er svo að sameina Kviku, troðfulla af persónum og leikendum úr síðasta bankaleikriti, við Íslandsbanka á svipaðan hátt og Kaupþingi var spyrnt saman við Búnaðarbankann árið 2003, og þynna um leið hlut ríkisins enn frekar.
Allt gerist þetta fyrir framan augun á almenningi í landinu sem er að uppistöðu alfarið á móti því að verða fyrir reglulegu afleiddu tjóni af tækifærismennsku og valdabaráttu gráðugra manna sem skortir alla samhygð.
Viðskipti ársins
Þegar sitjandi ríkisstjórn var mynduð árið 2017 var eitt helsta markmið hennar að auka traust í samfélaginu, sem hafði hrunið með bönkunum níu árum áður. Vinna átti hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið á Íslandi og leiðarljósið í þeirri vinnu átti að verða „aukið traust á íslenskum fjármálamarkaði.“
Hvítbókin lá fyrir í lok árs 2018. Kannanir sem gerðar voru við vinnslu hennar sýndu að það væri langt í það að almenningur myndi treysta fjármálaheiminum. Á meðal þeirra orða sem flestir Íslendingar notuðu til að lýsa íslensku bankakerfi voru að það væri dýrt, spillt og gráðugt. Það var einnig kallað glæpastarfsemi og sagt drifið áfram af eiginhagsmunasemi.
Ósk landsmanna var að bankakerfi framtíðarinnar yrði sanngjarnt, réttlátt, traust, með góða þjónustu, hagkvæmt, heiðarlegt, gagnsætt og fyrir almenning.
Fyrsta skrefið í nýjustu einkavæðingu íslenskra banka var stigið skömmu fyrir kosningar 2021, í miðjum heimsfaraldri. Þá var 35 prósent hlutur í Íslandsbanka seldur langt undir markaðvirði, og bankinn komst í afar dreifða eignaraðild. Hluthafar voru alls 24 þúsund eftir útboðið. Virði bankans rauk upp um 60 prósent í kjölfar skráningar á markað og þúsundir leystu út skyndihagnað. Hluthafar Íslandsbanka voru um 13 þúsund í lok síðasta árs, og hafði fækkað um ellefu þúsund á einu og hálfu ári.
Salan mæltist svo vel fyrir hjá fjármálageiranum og fylgihnöttum hennar að Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Bankasýslunnar, og Birna Einarsdóttir mættu saman á Hótel Nordica í desember 2021 til að taka við verðlaunum Innherja fyrir viðskipti ársins. Í smókingum og gala-kjólum.
Fagfjárfestarnir opinberaðir
Stefnt var að því að ljúka við sölu á eftirstandandi hlut í Íslandsbanka á árunum 2022 og 2023. Næsta skref í þeirri vegferð var stigið 22. mars í fyrra. Þá var 22,5 prósent hlutur seldur á 52,65 milljarða króna með svokölluðu tilboðsfyrirkomulagi. Þetta var stóru stráka leið, sem notuð er út í alþjóðlegum bankaheimi. Í henni felst að svokallaðir fagfjárfestar, sem þurfa að búa yfir ákveðinni reynslu, sýna fram á ákveðna tíðni viðskipta og eiga nægjanlega mikið af peningum, fá einir að taka þátt.
Þegar útboðið í mars var gert upp kom í ljós að hinir útvöldu voru alls 207 talsins. Þar á meðal reyndust einstaklingar sem skilgreindir voru sem innherjar í Íslandsbanka, sem var einn fimm innlendra söluráðgjafa sem höfðu verið valdir til að selja hlut ríkisins. Viðskipti slíkra þarf að tilkynna til Kauphallar. Þegar það var gert varð, eðlilega, allt vitlaust. Hér var ekki um að ræða einstaklinga sem voru fagfjárfestar í þeim skilningi sem fyrirkomulagið hafði verið selt þingi og þjóð.
Skýr krafa var sett fram um að opinberað yrði hverjir hefðu fengið að kaupa. Þegar listinn var birtur opinberaðist að á meðal kaupenda voru starfsmenn og eigendur söluráðgjafa, erlendir skammtímasjóðir, fólk í virkri lögreglurannsókn, umdeildir útgerðarmenn, aðilar sem áttu stóra hluti í bönkum fyrir hrun og auðvitað faðir fjármála- og efnahagsráðherra.
Einna mesta athygli vakti mikill fjöldi litilla áhugamannafjárfesta sem rökstuddur grunur var um að uppfylltu ekki skilyrði þess að teljast fagfjárfestar. Sá sem keypti fyrir lægstu upphæðina, starfsmaður í verðbréfamiðlun Íslandsbanka, keypti fyrir 1,1 milljón króna.
Þetta voru fagfjárfestarnir sem fengu að kaupa ríkisbanka.
Málum drepið á dreif til að bjarga ríkisstjórn
Skýr krafa var sett fram um að rannsóknarnefnd Alþingis yrði skipuð. Meðal þess sem rannsóknarnefnd getur gert er að gefa álit sitt á stjórnsýslu ráðherra án þess að meta ábyrgð hans á grundvelli laga um ráðherraábyrgð. Auk þess hefur slík nefnd afar víðtækar heimildir til að afla upplýsinga. Til að bjarga ríkisstjórnarsamstarfinu var sveigt framhjá þeirri eðlilegu skipan, enda fyrirliggjandi að stjórnin hefði aldrei lifað af niðurstöðu rannsóknarnefndar.
Þess í stað fól Bjarni Benediktsson Ríkisendurskoðun að framkvæma stjórnsýsluúttekt á söluferlinu, sem felur í sér að framkvæma mat á frammistöðu þeirra sem embættið hefur eftirlit með. Í þessu tilfelli var það Bankasýsla ríkisins, stofnun sem þegar hafði verið ákveðið að leggja niður. Aukaáhrif af þessari afvegaleiðingu fjármála- og efnahagsráðherra var að ríkisstjórnin keypti sér tíma til að drepa málinu á dreif, enda skilaði Ríkisendurskoðun ekki af sér niðurstöðu fyrr en í nóvember.
Sú niðurstaða var svört. Ríkisendurskoðun benti á fjölmarga annmarka á söluferlinu og sýndi svart á hvítu fram á að starfsmenn og stjórn Bankasýslu ríkisins voru fullkomlega vanhæf til að takast á við það verkefni sem henni var falið. Hægt hefði verið að fá hærra verð fyrir hlutinn auk þess sem Bankasýslan hafði ekki haft réttar upplýsingar um eftirspurn þegar ákvörðun um verð og umfang sölu var tekin. Í skýrslunni segir að „upplýsingar til ráðherra í rökstudda matinu voru ónákvæmar bæði hvað varðar fjölda þeirra fjárfesta sem skráðu sig fyrir hlutum og heildarfjárhæð tilboða. Ákvörðun ráðherra byggði því á ónákvæmum upplýsingum.“
Meðvirkni og hvítþvottur
Ríkisendurskoðun taldi auk þess að upplýsa hefði þurft með afdráttarlausum hætti í minnisblaði Bankasýslunnar frá 20. janúar 2022, greinargerð fjármála- og efnahagsráðherra vegna framhalds á sölu á hlutum ríkisins í Íslandsbanka, og í kynningum fyrir þeim þingnefndum Alþingis sem veittu greinargerðinni umsögn, hvað fólst í settum skilyrðum um hæfa fjárfesta. Það var ekki gert.
Þess í stað var notast við óljósu hugtökin „hæfir fjárfestar“ eða „hæfir fagfjárfestar“, en bæði fjármála- og efnahagsráðuneytið og Bankasýsla ríkisins voru sammála um að bjóða slíkum einkafjárfestum aðkomu að sölunni þrátt fyrir að slíkt sé óvenjulegt.
Í sérstakri umræðu sem fór fram á Alþingi í kjölfar birtingar skýrslunnar sagði Bjarni Benediktsson marga vera svekkta yfir því að ekkert fyndist í skýrslunni um lögbrot. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins eyddu öllum sínum tíma í að ræða alvarleika þess að skýrslan hefði lekið til fjölmiðla degi áður en til stóð að birta hana opinberlega. Það væri í raun stærsti glæpurinn sem hefði verið framinn, að almenningur hafi fengið að vita aðeins of snemma.
Skýrsla Ríkisendurskoðunar fór síðan í hefðbundna, og meðvirka, hvítþvottarmeðferð hjá stjórnarþingmönnum í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Þeirri leiksýningu lauk í lok febrúar síðastliðins með birtingu á áliti meirihluta nefndarinnar, sem skipuð var stjórnarþingmönnum, þar sem sagði að bankasalan hafi heilt yfir tekist vel „og þá sérstaklega í veigamestu atriðunum“. Minnihlutinn, skipaður stjórnarandstöðuþingmönnum, krafðist þess enn og aftur að rannsóknarnefnd yrði skipuð.
Kerfislæg lögbrot
Á þessum tíma lá fyrir að Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands var að rannsaka þátt innlendu söluráðgjafanna fimm sem áttu samtals að fá 322,5 milljónir króna greiddar úr ríkissjóði fyrir að finna heppilega fagfjárfesta og fá þá til að kaupa. Ákveðið var að forgangsraða rannsókn á Íslandsbanka, sem að einhverjum ástæðum ákvað að það væri prýðileg hugmynd að taka þátt í sölu á bréfum á sjálfum sér gegn þóknanatekjum. Hinir fjórir eru, samkvæmt upplýsingum Heimildarinnar, enn til skoðunar hjá eftirlitinu.
Það komst að þeirri niðurstöðu, í frummati sem var birt stjórnendum Íslandsbanka fyrir næstum hálfu ári síðan, að bankinn hefði gerst sekur um alvarleg, kerfislæg og margþætt lögbrot. Í ljós hefur komið að hluti þeirra fjárfesta sem Íslandsbanki flokkaði sem fagfjárfesta, og fengu að kaupa í lokaða útboðinu, uppfylltu ekki skilyrði til þess. Í ofanálag voru þeir að fá slíka flokkun í einhverjum tilvikum sama dag og útboðið fór fram, og í öðrum þremur til fimm dögum eftir að það var yfirstaðið.
Auk þess hvöttu starfsmenn Íslandsbanka tugi annarra viðskiptavina sinna til að láta breyta flokkun sinni í fagfjárfesta, sem hefði haft í för með sér að þeir afsöluðu sér réttarvernd sem tryggð er almennum fjárfestum. Það er ólöglegt.
Regluvarsla bankans hafði klifað á því linnulaust frá árinu 2019 að það þyrfti að taka upp símtöl þegar verið væri að selja hlutabréf með þeim hætti sem var gert í söluferlinu, enda ólöglegt að gera það ekki. Enginn hlustaði. Ekki liggur fyrir hversu mörg símtöl starfsmenn Íslandsbanka áttu við viðskiptavini sem var boðið að kaupa hluti í bankanum. Það útskýrist af því að einungis símtöl sem þeir sjálfir hringja eru skráð. Þau voru 184 alls en einungis 22 þeirra voru hljóðrituð og varðveitt.
„Sælir strákar“
Til að bíta höfuðið af skömminni veitti Íslandsbanki Bankasýslunni rangar upplýsingar um flokkun þátttakenda í útboðinu sem, líkt og áður sagði, leiddi til þess að ráðherra tók ákvörðun um söluna á fölskum grundvelli. Blekkingar bankans fólust í því að skila inn tilboðsbók sem innihélt tilboð frá níu viðskiptavinum hans sem höfðu ekki flokkun sem fagfjárfestar á þeim tímapunkti, og máttu þar af leiðandi ekki taka þátt í útboðinu.
Allt virðist þetta hafa verið drifið áfram af græðgi. Annars vegar græðgi bankans, sem vildi hámarka þær þóknanatekjur sem hann gæti rukkað íslenska ríkið um vegna fjölda fjárfesta sem bankinn kæmi með að borðinu. Hins vegar græðgi þeirra sem sáu mögulegt hagnaðartækifæri með kaupum á afslætti frá dagslokagengi, en uppfylltu ekki skilyrði fyrir þátttöku.
Þessari stemningu er ágætlega lýst í tölvupósti sem birtur er í sáttarskýrslunni. Í einum sendi forstöðumaður hjá Íslandsbanka tveimur viðskiptavinum póst sem byrjar á: „Sælir strákar, gaman að hitta ykkur í dag þó svo að ég hafi þurft að hlaupa í fyrra fallinu. Þar sem við ræddum aðeins um Íslandsbanka þá skoðaði ég aðeins í kerfin í dag og hjó eftir að félögin ykkar [nafn fyrirtækis] og [nafn fyrirtækis] eru ekki sett upp til að eiga verðbréfaviðskipti hjá bankanum.“
Má ráðherra selja föður sínum ríkiseign?
Enn er ónefnd ein yfirstandandi athugun. Umboðsmaður Alþingis hefur frá því í mars síðastliðinn verið með álitamál um hæfi Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, vegna kaupa einkahlutafélags föður hans, Benedikts Sveinssonar, á hlut í Íslandsbanka til skoðunar.
Umboðsmaður vill vita hvort, og þá hvernig, reglum stjórnsýslulaga hafi verið fullnægt þegar félag föður Bjarna fékk að kaupa hlut í bankanum. Bjarni svaraði upphaflegri umleitan embættisins sem var greinilega ekki sátt með svörin og þann 5. maí var hann beðinn um frekari skýringar á eigin hæfi við sölu á hlutnum. Bjarni var auk þess beðinn um öll þau gögn sem fyrir lágu um samskipti við Bankasýslu ríkisins frá því að söluferlið hófst þar til úthlutun hlutabréfa lauk, meðal annars tölvupóstsamskipti, minnisblöð og símtöl.
Bjarni, og ráðuneyti hans, svaraði frekari spurningum 9. júní á svipaðan hátt og gert hafði verið áður. Nú er beðið eftir því að umboðsmaður klári málið og kynni einhverskonar niðurstöðu í því.
Samandregið liggur því fyrir að stofnunin sem ríkisstjórnin fól að selja Íslandsbanka, Bankasýsla ríkisins, brást hlutverki sínu samkvæmt niðurstöðu Ríkisendurskoðunar. Einn söluaðilinn sem ráðinn var til verka framdi kerfislæg og margháttuð lögbrot. Hæfi fjármála- og efnahagsráðherra er til skoðunar hjá umboðsmanni Alþingis vegna þess að pabbi hans keypti hlut í bankanum sem hann seldi.
Þetta er dómurinn sem fallinn er yfir því sem forstjóri Bankasýslu ríkisins kallaði „farsælasta hlutafjárútboð Íslandssögunnar“.
Ábyrgð bleiku pressunnar
Fjölmiðlar gegna gríðarlega mikilvægu aðhaldshlutverki í lýðræðisríkjum. Það getur oft verið erfitt fyrir þá að sinna því hlutverki, sérstaklega þegar þeir sem beittir eru aðhaldi eru valdamiklir aðilar í stjórnmálum eða viðskiptalífi. Þannig háttaði um við bankasöluna. Við slíkar aðstæður, þar sem gaslýsingar og mótspyrna gerenda gagnvart því að allt verði uppi á borðum er gríðarleg, reynir mjög á að fjölmiðlar leitist við að vernda borgarana fyrir misbeitingu valds.
Upplýsingahlutverkið felur í sér að fjölmiðlar láti borgurunum í té áreiðanlegar upplýsingar og vandaða greiningu á samfélagsmálum. Öflugir sjálfstæðir fjölmiðlar skapa þannig forsendur fyrir upplýsta almenna umræðu sem er grundvallaratriði í lýðræðisríki. Þeir vinna að hlutlægni í almannaþágu. „Bottom-up“ með hagsmuni heildarinnar og neytenda að leiðarljósi, ekki „top-down“ með hagsmuni þröngra valdakjarna í forgrunni.
Frammistaða þeirra fjölmiðla sem skilgreina sig sem sérhæfðir viðskiptamiðlar hérlendis, hinnar svokölluðu bleiku pressu, hefur á þessu tímabili verið til skammar. Og litlu betri en það klappstýruhlutverk sem fjölmiðlar tóku sér gagnvart fjármálakerfinu fyrir bankahrun.
Bullandi rangstæðir
Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um bankahrunið sagði að sú linkind sem einkenndi blaðamenn gagnvart viðskiptalífinu og helstu leikendum innan þess á þeim tíma hefði meðal annars stafað af því að myndast hefði óþarflega mikið „vináttusamband við umfjöllunarefnið".
Í þeirri skýrslu er líka greint frá því hvernig fyrirtæki drógu úr auglýsingum til þeirra fjölmiðla sem fjölluðu gagnrýnið um þau. Þeir þóttu „óæskilegir“.
Allt ofangreint er hægt að heimfæra á íslenskan veruleika árið 2023. Sama orðræða fær að þrífast. Þeir sem vinna með það að leiðarljósi að upplýsa almenning um það sem er satt og rétt eru „erfiðir“. „Leiðinlegir“. „Neikvæðir“. „Öfundsjúkir“.
Vilji bleiku pressunnar til að skrumskæla allan fréttaflutning af sölunni á hlut ríkisins í Íslandsbanka í mars í fyrra er öllum augljós. Saman höfðu Innherji, Viðskiptablaðið og viðskiptahluti Morgunblaðsins, sem renna síðan reglulega í eitt yfir kampavínsglasi á vettvangi hlaðvarpsins Þjóðmála, tekið afstöðu með málflutningi Bankasýslunnar, Bjarna Benediktssonar og málafylgjufólks hans og fjármálageirans.
Þessi hópur var þegar búinn að leggja mikið á sig til að gera lítið úr alvarleika rannsóknar Fjármálaeftirlitsins, löngu áður en sáttarskýrsla þess var opinberuð. Morgunblaðið skrifaði frétt eftir frétt í upphafi árs þar sem málið var talað niður. Ritstjóri Innherja skrifaði pistil um að þetta væri smámál sem einhverjir lúðar sem kallaðir hefðu verið til sem álitsgjafar væru að blása upp. „Líklega verður sáttargreiðslan nokkrir tugir milljóna en hæsta stjórnvaldssekt sem fjármálaeftirlitið hefur lagt á fjármálafyrirtæki var 88 milljóna króna sekt á Arion banka árið 2020 fyrir að upplýsa ekki tímanlega um hópuppsagnir hjá bankanum,“ skrifaði hann. Viðskiptablaðið tók þennan málflutning systurútgáfa sinna svo upp að öllu leyti. Þannig virkar hringekja meðvirku viðskiptafjölmiðlanna.
Reynt að teikna upp hliðarveruleika
Eftir að stjórnendur Íslandsbanka sendu frá sér tilkynningu á fimmtudagskvöld vegna sektarinnar og lögbrota, sem var augljós en misheppnuð tilraun til að selja áfelli sem traustyfirlýsingu, spilaði bleika pressan með að fullum krafti.
Innherji skrifaði frétt þar sem uppleggið, í samstarfi við bankastjóra Íslandsbanka, var að fjármálaeftirlitið væri að senda einhverskonar skilaboð út á markaðinn með sektarupphæðinni. Undirliggjandi þar var að í raun hafi Íslandsbanki ekkert gert neitt rosalega rangt. Hann væri fórnarlamb óbilgjarns eftirlits. Umfang sektarinnar væri vandamálið, ekki lögbrotin sem Íslandsbanki hafði framið.
Viðskiptablaðið skrifaði nafnlausa frétt um málið með fyrirsögninni „Dæmi um sektir sem eru hlutfallslega hærri“ þar sem blaðið lagði áherslu á þann fréttapunkt að Íslandsbanki myndi ekki sækjast eftir hlutverki við frekari sölu á hlutabréfum í bankanum.
Kostulegasta útleggingin var hjá viðskiptaritstjóra Morgunblaðsins sem skrifaði fréttaskýringu, byggða á viðbrögðum „margra viðmælenda Morgunblaðsins á fjármálamarkaði“, þar sem reynt var að klæða sektina í þann búning að hún væri afleiðing af ofstæki eftirlitsstofnunar. Það blað hatast út í Samkeppniseftirlitið og hefur lagt mikið á sig við að teikna upp þá mynd að sátt sem Eimskip gerði við það eftirlit vegna samkeppnisbrota, þar sem Eimskip viðurkenndi alvarleg samkeppnisbrot og greiddi 1,5 milljarð króna í sekt í ríkissjóð, hafi í raun bara verið leið félagsins til að losna við málið. Það hafi ekkert gert neitt rangt. Morgunblaðið setti mál Íslandsbanka í sama búning og segir það minna „um margt á sekt Eimskips“, að mat stjórnenda Íslandsbanka hafi verið að „frekari barátta hefði ekki borgað sig“.
Stundum er varla annað hægt en að velta því fyrir sér klukkan hvað að morgni þessi hersing byrji að drekka kampavínið.
Alltaf persónulegt, aldrei faglegt
Yfirlýstur tilgangur með þeirri vegferð sem sitjandi ríkisstjórn réðst í árið 2017, og fól meðal annars í sér bankasölu, var að endurheimta traust á stjórnmál og endurheimta traust á fjármálakerfið. Sú vegferð er nú út í skurði.
Nánast allt sem gat mistekist, mistókst. Ástæðan er að uppistöðu sú að Ísland er alltaf persónulegt, aldrei faglegt. Frændhyglin og strokuspillingin sem er innbyggð í stjórnmálin, stjórnsýsluna, suma fjölmiðlana og atvinnulífið kemur í veg fyrir að traust geti byggst upp á ný. Það þarf alltaf að hringja í strákana og leyfa þeim að vera með.
Eina leiðin til þess er að taka í sundur kerfi samfélagsins, sem snúast nær öll um að tryggja litlum valdahópum hliðvörslu að upplýsingum, tækifærum og peningum annarra, og smíða ný þar sem raunveruleg ábyrgð fylgir athöfnum. Þar sem góðir stjórnarhættir eru ekki bara eitthvað sem er skrifað inn í froðuyfirlýsingar sem vitnað er í á tyllidögum. Þar sem gagnsæi þýðir gagnsæi en ekki hið gagnstæða. Þar sem meginlínan er að vanda sig, koma hreint fram og segja satt. Í þessu felst ekki bylting, heldur eðlileg bæting sem hefur þegar fest sig í sessi í þroskaðri frjálsum og markaðssinnuðum lýðræðisríkjum í kringum okkur.
Gangi okkur vel með það.
Ef til vill er eitthvað svona í Lindarhvolsmálinu sem ekki má spyrja um einu sinni í boði meirihluta Alþyngis
Einn þessara skuldaði Glitni 15 milljarða þegar hann fór í þrot. Skuldin síðan afskrifuð þegar hún stóð í 21 milljarði. Þessir peningar voru notaðir til að sprengja upp verð í Glitni á fölskum forsendum. Glitnir lánaði til kaupanna með veði eingöngu í bréfunum. M.a. af þessum viðskiptum lenti Lárus bakvið lás og slá.