Aðeins tæpur fjórðungur landsmanna er ánægður með störf Ásgeirs Jónssonar seðlabankastjóra og þá er aðeins rétt rúmur fjórðungur ánægður með störf Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra. Hins vegar eru nær því þrír af hverjum fjórum ánægðir með störf Guðna Th. Jóhannessonar, forseta Íslands.

Þetta eru niðurstöður könnunnar kannanafyrirtækisins Prósents sem framkvæmd var daga 8. til 23. júní.
Fyrirtækið hefur ekki gert viðlíka kannanir áður svo ekki er hægt að gera samanburð á því hvernig ánægja með störf þessara embættismanna hefur þróast yfir tíma.
Þegar horft er á frekara niðurbrot á skoðunum þátttakenda í könnnuninni kemur í ljós að alls eru 22 prósent aðspurðra ánægð með störf Ásgeirs en 55 prósent eru óánægð. Þá eru 28 prósent ánægð með störf Katrínar en 52 prósent eru óánægð.
Hins vegar eru 74 prósent ánægð með störf Guðna forseta. Þar af eru 45 prósent mjög ánægð og 29 prósent frekar ánægð. Aðeins 8 prósent eru óánægð með störf hans.

Konur eru marktækt ánægðari með störf bæði Guðna og Katrínar en hins vegar eru karlar marktækt ánægðari með störf Ásgeirs.
Úrtak könnuninarinar var 2.700 manns og svarhlutfall var 50 prósent. Könnunin var netkönnun meðal könnunarhóps Prósents.
Athugasemdir