Samfylkingin mælist langstærst í nýrri könnun Maskínu með 27,2 prósenta fylgi. Ríkisstjórnarflokkarnir mælast samanlagt með 34,2 prósent fylgi; Sjálfstæðisflokkurinn stærstur með 18,5 prósent, Framsóknarflokkur með 8,8 prósent og Vinstri græn slétt 7 prósent. Vísir greindi frá niðurstöðunum í morgun.
„Við höfum legið mjög lágt í könnunum að undanförnu,“ sagði Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna, um niðurstöður könnunnar í beinni útsendingu í Pallborðinu á Vísi, þar sem greint var frá könnuninni. Bætti hún við að þetta kæmi sér ekki á óvart.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði könnunina ekki sýna mikla breytingu, væri innan vikmarka við aðrar nýlegar kannanir, en var engu að síður vonsvikinn. „Þetta er óásættanleg mæling fyrir Sjálfstæðisflokkinn,“ sagði Bjarni í þættinum. „En meira að segja niðurstaða kosninga er ekki í samræmi við okkar tilfinningu um samhljóm með stefnumálum Sjálfstæðisflokksins.“
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, virtist rólegur yfir niðurstöðunni og benti á að á svipuðum tíma á síðasta kjörtímabili hafi flokkurinn mælst með fimm prósenta stuðning. „Það er aldrei gaman að fá lélegar mælingar. Við erum búin að vera sex ár í ríkisstjórn og það eru áskoranir í efnahagsmálum semr eru dálítið sérstakar,“ sagði hann.
Í könnuninni mælast Píratar með 11,3 prósenta fylgi, Viðreisn 9,7 prósent, Flokkur fólksins 6,6 prósent, Miðflokkurinn 6,3 prósent og Sósíalistaflokkurinn 4,7 prósenta fylgi.
Samkvæmt nýrri Maskínukönnun samtals = 48,2%.