Eiríkur Búi Halldórsson, verkefnastjóri verkefnisins Hverfið mitt hjá borginni, deildi sínum persónulega skjá í upptöku af fundi íbúaráðs Laugardals, sem aðgengileg er á YouTube. Þar sést spjall þeirra Guðnýjar Báru Jónsdóttur, verkefnastjóra hjá mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu borgarinnar, á samskiptaforritinu Messenger.
Íbúaráðið hafði í lok apríl óskað eftir því við skóla- og frístundasvið að teknar yrðu saman tölur um fjölda barna í leikskólum hverfa, og biðlistum, eftir búsetu þeirra.

Ráðinu þótti svarið við fyrirspurninni ekki alveg fullnægjandi. Í það vantaði upplýsingar um biðlistana.
„Svo að það sé á hreinu þá er svarið bara lagt fram við fyrirspurninni,“ sagði Guðný við Eirík. „Það er ekki á verksviði ráðsins að afla þessara upplýsinga.“
Eiríkur svaraði: „Leyfi þeim að ræða þetta fram og til baka - reddast vonandi. Geta í mesta lagi bókað.“
„Já, vertu bara harður við þau,“ sagði Guðný. „Það er alltaf þannig að svar við fyrirspurn er bara lagt fram og ekkert framhald af því.“
Eiríkur sagði Guðnýju í framhaldinu að Þorleifur Örn Gunnarsson, fulltrúi Samfylkingarinnar á fundinum, hefði svarað ráðinu.
„Kæfði þetta,“ sagði Eiríkur svo.
Í Facebook-hópnum Leikskólamál í lamasessi er athygli vakin á þessum samskiptum Eiríks og Guðnýjar. Þar hafa fjölmargir foreldrar stigið fram og lýst óánægju sinni.
Athugasemdir