Á hverju kvöldi leggst ég á koddann og sé fyrir mér morgundaginn. Ætla að vakna snemma, hugleiða, taka vítamín, fá mér hafragraut, gera nesti fyrir daginn, fara út að skokka, sleppa því alveg að vera í símanum, lesa í bók, skrifa aðeins, stoppa í götin á buxunum mínum, endurpotta plöntunum, finna ramma fyrir myndina sem á alltaf eftir að hengja upp, gera loksins allar sniðugu uppskriftirnar sem ég save-aði á Instagram, fara síðan í göngutúr og tína blóm, bóka kannski tíma í göngugreiningu bara svona til öryggis, hefðbundinn dagur í lífi manneskju.
Nema svo vakna ég seint, snooze-a svo oft að öll morgunplönin eru farin í vaskinn og ég er heppin ef ég á banana til að borða á hlaupum út úr húsi. Það fer af stað keðjuverkun sem útrýmir öllum öðrum dagsplönum, mæti seint, of lítill tími, of mikil þreyta, kem heim, hryn í sófann, kveiki á Netflix, borða frosna pitsu, fer með símann upp í rúm og sofna allt of seint í þeirri einlægu trú um að þetta muni allt breytast á morgun.
Ég bara skil ekki hvers vegna ég held alltaf að ég sé að fara að vakna sem einhver allt önnur manneskja, eða að einhver umskiptingur úr Kötlu verði mættur til að gera þetta dæmi almennilega.
„Kannski er ég bara ekki gerð til að vera skokkandi hafragrautselskandi umskiptingur?“
Ef ég byggði sambönd mín við annað fólk á þennan hátt væri löngu búið að greina mig með alvarlega heilabilun, ef að á hverjum morgni yrði ég hissa að einhver sem hafði aldrei í lífi sínu hugleitt, heklað eða borðað hafragraut hefði ekki gert það í dag en myndi gera ráð fyrir að hún myndi væntanlega byrja á því á morgun.
Kannski er þessi veruleikafirring ákveðin sjálfsbjargarviðleitni í samfélagi sem krefst of mikils af okkur? Eða kannski er ég bara ekki gerð til að vera skokkandi hafragrautselskandi umskiptingur? Engin leið að vita, en ég tók samt vítamín í morgun svo þetta er allt í áttina.
Athugasemdir