Þessi grein birtist fyrir meira en ári.

Garðrækt í safni í súld

Doktor Gunni rýn­ir í tvær plöt­ur ís­lenskra tón­list­ar­kvenna: How To Start a Garden með Nönnu og Muse­um með JF­DR.

Garðrækt í safni í súld

Nanna – How To Start a Garden

   

Útgefandi: Republic

Eins og alkunna er eiga fjölmargir íslenskir tónlistarmenn fínu gengi að fagna erlendis. Nú þegar plötusala er í mýflugumynd eru streymistölur á Spotify stundum notaðar til að mæla vinsældir tónlistarfólks. Of Monsters and Men eiga sennilega mest streymda íslenska lagið, Little Talk er núna með 873.500.000 spilanir á Spotify – alveg galinn hellingur! Hljómsveitin er algjörlega búin að meika það, hefur túrað heiminn þvers og kurs og gefið út þrjár plötur síðan sveitin sigraði Músiktilraunir 2010. Það er því saga til næstu plötubúðar þegar söngkona sveitarinnar og annað aðalandlit hennar, Nanna Bryndís Hilmarsdóttir, tekur sig til og gefur út sólóplötu, Hvernig á að hefja garðrækt.

Öfugt við suma tónlistarmenn hefur Of Monsters and Men aldrei auglýst það sérstaklega að vera íslensk hljómsveit, enda er erfitt að benda á hið „íslenska“ í hljóðheimi hennar, öfugt við t.d. Sigur Rós, þar sem fólk þykist finna fyrir alíslenskum fjöllum og firnindum. Sólóplata Nönnu hljómar þó mun meira „íslensk“ en Monsters, oft glittir í fossbarða hamraveggi, snjófjúk á heiði og einmana hrafn á flugi. Nanna er mjög melankólískt stemmd, platan er mjög hæg, angurvær og jafnvel drungaleg – samt kraftmikil þegar hún vill það. Melódíurnar eru lengi að sýna sig, stundum springa þær út eins og fallegt blóm, stundum gerist ekkert. Það mun hafa verið einangrun á Covid-tímum, sem hleypti þessari harmrænu heimsendadepurð í Nönnu og fyrir vikið er platan ansi seintekin og skriðþung – eins og ört minnkandi skriðjökull á hamfarahlýnunartímum, gæti einhver erlendur poppskríbent jafnvel sagt.

Nanna bakkar upp melankólíuna með dapurlegum ástarsorgar- og einangrunartextum og gengur oft nærri sér og berar inn að beini. Í Crybaby, einu af bestu lögum plötunnar, syngur hún til að mynda: When all the very best of me was / Given to the dogs in the street / Well, I don't have a problem / With crawling on fours … og maður tekur andköf og hugsar: Æ, æ, aumingja stelpan. Það er vitanlega vandað vel til verka í allri framleiðslu, enda er Aaron Dessner úr hljómsveitinni The National með puttana í hljóðvinnslunni. Nanna syngur mjög vel og er góður túlkandi. Það er smá kántrífílingur víðs vegar, heildin er mjög snyrtilegt indie-folk, sem stundum fær lánað út hljóðheimi Sigur Rósar. Fín en frekar erfið plata – og ekki það auðgrípanlega indie-popp, sem úr þessari átt hefur komið áður. Það er ekki skilyrði að vera þunglyndur, í ástarsorg, eða almennt niðurdreginn vegna ótta við heimsenda til að samsvara sig við verkið, en það hjálpar eflaust til.

JFDR – Museum

   

Útgefandi: Houndstooth

Jófríður Ákadóttir var bráðung byrjuð að búa til tónlist með systur sinni og fleiri stelpum í hljómsveitinni Pascal Pinon, sem var yngsta bandið í því sem var stundum kallað krútt í kringum árið 2010. Hún var í Samaris og fleiri grúppum en sólóferil hefur hún ástundað síðan 2017 þegar fyrsta JFDR-platan, Brazil, kom út. Museum er þriðja sólóplata hennar og varð til upp úr sjálfskoðun á Covid-tímum, mikið unnin með eiginmanni hennar, Ástralanum Joshua Wilkinson. Líkt og Nanna er Jófríður mest í hægagangi á plötunni sinni. Hún er leitandi í tónlistarsköpuninni og tekst oft vel upp í að búa til andríkt og dreymandi gáfnaljósapopp eins og t.d. í fyrstu tveimur lögunum: The Orchid með sinni sterku melódíu og skemmtilegu hljóðfæraskipan og Life Man, sem býður sömuleiðis upp á sterka melódíu og nánast sprettharðan danstakt. Eftir þessa sterku byrjun tekur við mikil eyðimerkurganga um letilegar og seinteknar ballöður, sem mynda eins konar súldarlega innistemningu, með nokkrum hápunktum þó – Air Unfolding er sem dæmi góð angurvær og blíð píanóballaða og lokalagið Underneath The Sun er nett kassagítardrifin ballaða, sem tekur mann út að ljósinu við enda ganganna. Þá er lagið Spectator glimrandi fínt og langspil gefur ósungna laginu Flower Bridge draugalegt yfirbragð.

Platan hefði getað verið enn betri með meiri fjölbreytni – allur þessi innhverfi og hvísl-listræni baðsloppafílingur, sem sjaldan er með næga innistæðu í melódíubankanum, verður dálítið þreytandi til lengdar.

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Mest lesið

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

„Ég var bara glæpamaður“
1
Viðtal

„Ég var bara glæpa­mað­ur“

„Margt af því sem ég hef gert mun ég aldrei geta bætt fyr­ir,“ seg­ir Kristján Hall­dór Jens­son, sem var dæmd­ur fyr­ir al­var­leg­ar lík­ams­árás­ir. Hann var mjög ung­ur að ár­um þeg­ar ljóst var í hvað stefndi og fann ekki leið­ina út fyrr en ára­tug­um síð­ar. Í dag fer hann inn í fang­els­in til þess að hjálpa öðr­um, en það er eina leið­in sem hann sér færa til þess að bæta fyr­ir eig­in brot.
Sparnaðarráð frá borgarfulltrúa og tilboð frá gámafélagi
6
Stjórnmál

Sparn­að­ar­ráð frá borg­ar­full­trúa og til­boð frá gáma­fé­lagi

Þór­dís Lóa Þór­halls­dótt­ir borg­ar­full­trúi hef­ur nýtt sér hug­mynda­söfn­un borg­ar­inn­ar um hvernig nýta megi fjár­muni Reykja­vík­ur bet­ur. Hún hef­ur sent ell­efu til­lög­ur inn í sam­ráðs­gátt­ina. Þar er líka kom­ið til­boð í út­flutn­ing á sorpi til brennslu – eða ork­u­nýt­ing­ar – frá Ís­lenska gáma­fé­lag­inu.

Mest lesið í mánuðinum

„Ég var bara glæpamaður“
2
Viðtal

„Ég var bara glæpa­mað­ur“

„Margt af því sem ég hef gert mun ég aldrei geta bætt fyr­ir,“ seg­ir Kristján Hall­dór Jens­son, sem var dæmd­ur fyr­ir al­var­leg­ar lík­ams­árás­ir. Hann var mjög ung­ur að ár­um þeg­ar ljóst var í hvað stefndi og fann ekki leið­ina út fyrr en ára­tug­um síð­ar. Í dag fer hann inn í fang­els­in til þess að hjálpa öðr­um, en það er eina leið­in sem hann sér færa til þess að bæta fyr­ir eig­in brot.
Íslendingar vísa trans konu á flótta frá Bandaríkjunum úr landi
5
Fréttir

Ís­lend­ing­ar vísa trans konu á flótta frá Banda­ríkj­un­um úr landi

Kona sem er á flótta frá Banda­ríkj­un­um með son sinn sótti um al­þjóð­lega vernd á Ís­landi. Fyr­ir Út­lend­inga­stofn­un lýsti hún því hvernig hat­ur hafi far­ið vax­andi þar í landi gagn­vart kon­um eins og henni – trans kon­um – sam­hliða að­gerð­um stjórn­valda gegn trans fólki. Sjálf hafi hún orð­ið fyr­ir að­kasti og ógn­un­um. „Með hverj­um deg­in­um varð þetta verra og óhugn­an­lega.“

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár