Leiðtogafundur G7 ríkjanna fór nýverið fram í Hiroshima. Á fundinum leituðu forystumenn helstu iðnríkja heims lausna á loftslagsvandanum, efnahagsástandinu og stríðinu í Úkraínu. Stærsti árangur fundarins tengdist hins vegar sokkum forsætisráðherra Bretlands.
Rishi Sunak mætti til kvöldverðar með forsætisráðherra Japan klæddur sokkum merktum japönsku hafnaboltaliði. Eftir að myndir birtust í fjölmiðlum af Sunak í sokkunum seldust þeir upp. Satoki Murai, framleiðandi sokkanna, réði sér ekki af kæti yfir velgengninni. „Ég hætti ekki að skjálfa,“ sagði hann. „Það gleður mig að íbúum Hiroshima líki hönnun mín.“
Hversdagslegar tilviljanir
Flestir þeirra sem njóta velgengni eru annaðhvort duglegir eða hæfileikaríkir. En ekki allir sem eru duglegir eða hæfileikaríkir njóta velgengni.
Í bókinni „Success and Luck“ hrekur bandaríski hagfræðingurinn Robert H. Frank goðsögnina um að það séu verðleikar sem skilji milli velgengni og misheppnaðra áforma. Hann segir fólk sem njóti efnahagslegrar farsældar oftast vanmeta þáttinn sem hversdagslegar tilviljanir leiki í velgengni þeirra.
Nefnir hann Bill Gates sem dæmi. Stofnandi tölvurisans Microsoft og einn ríkasti maður veraldar er vafalítið bæði duglegur og hæfileikaríkur. Hefði hann hins vegar ekki fyrir tilviljun sótt á æskuárum sínum einn fárra barnaskóla í heiminum sem veittu nemendum ótakmarkað aðgengi að nýrri uppfinningu sem kallaðist tölva hefði hann ekki smíðað tölvuforrit aðeins þrettán ára að aldri.
Heimilislaus í listagalleríi
Dag einn, sumarið 2022, leit Alan Warburton út um gluggann. Fyrir utan íbúð hans í Austur-London stóð ruslagámur. Flutningamenn tæmdu íbúð á hæðinni fyrir ofan þar sem nágranni hans, hæglátur eldri maður, hafði látist nokkru fyrr. Skyndilega kom Alan auga á listaverk í gámnum. Hann hljóp út. Verkin voru svarthvítar teikningar af óhlutbundnum formum. Alan var sjálfur listamaður. Hann sá að myndirnar voru dregnar af mikilli leikni og bjargaði þeim úr gámnum.
Alan hóf að grafast fyrir um fyrrum nágranna sinn. Hann hét George Westren og hafði verið utangarðs í samfélaginu, glímt við fíkn, verið heimilislaus um tíma og varið mestum tíma sínum við að teikna.
Til að heiðra minningu Westren ákvað Alan að setja upp sýningu með verkum hans. Hann hugðist fjármagna sýninguna með því að selja eftirprentanir af teikningum Westren. Myndirnar rokseldust. Saga Westren rataði í alla helstu fréttatíma og hið virta Saatchi listagallerí í London bauðst til að hýsa sýninguna.
Í lifanda lífi
„Saga George Westren er svo áhrifamikil því hún undirstrikar hversu margt fólk er aldrei metið að verðleikum þótt það fremji ótrúleg afrek,“ sagði kvikmyndagerðarmaður sem gerði mynd um Westren.
Afneitun hinna farsælu á eigin heppni er óviðurkvæmileg. En hún er meira en það.
Íslenski frumkvöðullinn Haraldur Ingi Þorleifsson sagði nýverið frá ævintýralegri velgengni sinni í sjónvarpsþættinum Dagur í lífi. Haraldur seldi fyrirtæki sitt til Twitter. En ólíkt mörgum er Haraldur meðvitaður um það hlutverk sem heppni lék í viðskiptasigrum hans. Hann sagðist hafa verið heppinn með tímasetningu þegar hann stofnaði fyrirtækið og heppinn að hafa kynnst réttu fólki á réttum tíma.
„Afneitun hinna farsælu á eigin heppni er óviðurkvæmileg.“
Rannsóknir Robert H. Frank sýna að þeir sem þakka velgengni sína eigin verðleikum eru tregir til að greiða tilskilda skatta til samfélagsins. Þeir sem telja heppni hafa átt þátt í velgengninni eru langtum viljugri til að greiða skatta og láta fé af hendi rakna til góðgerðarmála.
„Ríkisvald er mikilvægt og ég hef mikla trú á því að það sé hægt að reka góð samfélög í gegnum öflug skattkerfi,“ sagði Haraldur, sem frægur er fyrir að greiða skatta með glöðu geði og láta að auki gott af sér leiða með verkefnum á borð við Römpum upp Ísland.
Ef Rishi Sunak hefði ekki klæðst hafnaboltasokkum í Japan hefði draumur sokkasala um velgengni ekki ræst. Ef Alan Warburton hefði ekki litið út um gluggann hefðu verk George Westren ekki bjargast. Robert H. Frank telur að ef við breytum því hvaða augum við lítum velgengni aukist vilji fólks til að greiða skatta til hagsbótar samfélaginu.
Hefði George Westren búið í slíku samfélagi hefði hann kannski átt þess kost að njóta velgengni í lifanda lífi en ekki aðeins eftir sinn dag.
undir þessi orð; lykilsetning!