Um miðjan maí átti ég þrítugsafmæli, þarsíðustu helgi var mér boðið í tvö slík og síðustu helgi fór ég í virðulegt þrítugsboð með bubblubar og aðkeyptum veitingum. Árgangurinn minn er á stórafmælisári. Við ræðum í veislunum hvort við séum komin á fertugsaldur eða séum enn á þrítugsaldri eða hvort það kallist kannski að standa á þrítugu. Eins og við stæðum á fjallshrygg og öðrum megin sé æskan ung og fjörleg og hinum megin bratt og hrikalegt gil ellinnar. Afmælin eru ekki lengur eitt bretti af slots og flöskur með blandi. Héðan í frá eru það bubblur, bogin bök, hrotur og svefntruflanir.
Mér finnst tíminn ekki líða, heldur finnst mér hann hverfa, fullkomlega óvænt. Ég er í grunninn forviða á því að tíminn líði yfir höfuð. Undirmeðvitund mín stóð í þeirri trú að á einhverjum tímapunkti myndi tíminn frjósa. Eins og einkunn fyrir próf. Svona er tíminn þinn, 7.5, út lífið. En tíminn er ekki flöt háslétta heldur skörðóttur fjallshryggur.
„Afmælin eru ekki lengur eitt bretti af slots og flöskur með blandi.“
Ég virðist dæmdur til þess að endurskilgreina mig aftur og aftur í samhengi við nýtt útsýni nýrra tinda. Ég varð ekki „hamingjusamur til æviloka“ eftir fyrstu skriðuna heldur hvíldi fæturna aðeins um stund og lagði svo á næsta tind.
„Hvað ert þú að gera?“ er ég spurður í veislunni og svarið er allt öðruvísi en fyrir tíu árum síðan. Ég er ekki einu sinni sami lífmassi, hver og ein fruma er önnur en hún var. Stanslaus endurnýjun er ekki bara möguleg heldur nauðsynleg. Ég þarf að gefa nýtt svar í hvert sinn, pör þurfa að finna ástina aftur og aftur og nýjar kynslóðir þurfa að bylta samfélaginu sem bylt var fyrir þeirra tíð. Jöklar bráðna og undir þeim felast óþekktir tindar, nýtt landslag tímans með nýju útsýni og þar stöndum við, óviss um hvort við séum þrítug eða fertug, glöð eða leið, á leiðinni upp eða niður.
Athugasemdir