Þegar menn heyra fregnir af því hvernig tekjur og eignir hinna ríkustu hafa aukist og margfaldast á umliðnum árum svo að sneiðir þeirra af veraldarkökunni hafa sífellt farið stækkandi en sneiðir allra annarra minnkað að sama skapi, og „auðkýfingar“ hafa í einni sjónhverfingu ummyndast í „ofurauðkýfinga“, fara ýmsir að velta fyrir sér spurningunni: Hvað gera þeir eiginlega við alla þessa peninga? Þótt menn hafi mikið ímyndunarafl held ég að margir sitji ráðvilltir uppi, þeir sjá fátt sem þessir auðjöfrar geti fjárfest í svo ekki sé svotil jafnmikið af aurunum eftir. Þarna er reyndar á ferðinni nokkuð sem hefur löngum verið tilvistarlegt vandamál hinna fjáðu og vex sífellt eftir því sem sjóðirnir tútna út: að úthugsa verðugar leiðir til að koma aurunum í lóg. Þannig getur myndast illvíg sálarkreppa sem enginn félagsráðgjafi ræður við svo mér sé kunnugt.
Það verður þó að taka fram að frjálshyggjan hefur á reiðum höndum lausn sem gerir vandamálið ekki eins sárt. Samkvæmt hennar kokkabókum hafa peningarnir fyrst og fremst eitt hlutverk, þeir eru tæki til að ná í meiri peninga, síðan enn meiri peninga og ennþá meiri peninga og þannig áfram ad vitam aeternam. Þetta hafa menn haft fyrir augunum um nokkurt skeið, kannske án þess að skilja það að fullu. En eitthvað þarf þó til að krydda tilveruna í þessari alvöru lífsins, helst eitthvað sem lætur ríkisbubbann skynja á eigin skrokki alla dýrð peninganna sem hann á, og aðra menn fá glýju í augun af gullinu sem þeir muni aldrei geta eignast.
Nýlega birtust fréttir í blöðum um það hvernig Fransmaður einn, Vincent Farret d´Astiès að nafni, hefur nú upphugsað ítursnjalla aðferð fyrir auðjöfra að fá eitthvað fáheyrt fyrir aurana sem sjáist auk þess langar leiðir, og eins og búast má við af Fransmanni er hún á sviði veitinga, kræsinga og drykkjarfanga. Fyrirtæki hans, sem nefnist Zephalto og er til húsa í borginni Toulouse, býður mönnum upp á staka máltíð á veitingahúsi í silfurgljáandi loftbelg, að nafni Céleste, í tuttugu og fimm kílómetra hæð yfir jörðu, en það er uppi í stratosferunni, eða heiðloftunum, og fer nærri að sú hæð jafngildi þremur Everest-tindum hverjum ofan á öðrum. Ferðin þangað upp tekur eina sex tíma, og komast sex fyrir í loftbelgnum, semsé auðkýfingurinn, kona hans og börn og kannske einhverjir persónulegir þjónar.
En þegar þangað er komið er borin fram lúxusmáltíð með öllu því besta sem unnt er að finna og er því skolað niður með eðalvínum. Frægur hönnuður hefur innréttað matsalinn, og maturinn er eldaður með sólarorku, svo belgurinn er afskaplega vistvænn, hann mun ekki halda vöku fyrir náttúruverndarsinnum. Í þessari hæð sjá menn óravítt yfir, hnattlögun jarðar blasir við sjónum og stjörnur blika bæði dag og nótt. Kannske getur auðkýfingurinn líka séð í einni sjónhendingu ýmsar þær eignir sínar, verksmiðjur, járnbrautarlínur, flugvelli og hraðbrautir, sem augun geta aldrei gripið samtímis á jörðu niðri. Kjörorð fyrirtækisins Zephalto er í samræmi við þetta, Dare the dream. Máltíðin kostar hundrað tuttugu og fimm þúsund evrur á mann, sem hægt er að kalla gjafvirði, en verðið getur verið svona lágt vegna þess að fyrirtækið hefur fengið styrki bæði frá einkaaðilum, héraðinu og Evrópusambandinu sem finnur í þessu einhverja óskilgreinda hernaðarþýðingu. Geimferðastofnun Frakklands Cnes hefur auk þess lagt blessun sína yfir fyrirtækið. Starfsemin hefst árið 2024, en hægt er að panta nú þegar, og skulu menn þá leggja fram tíu þúsund evrur til tryggingar. Að máltíðinni lokinni, þegar veislugestir stíga aftur fótum á fast land, geta þeir orðið félagar í afskaplega lokuðum klúbbi.
Eigandi fyrirtækisins hefur lýst þessu öllu í viðtali við tímaritið Forbes, en í þessu öllu er þó sitthvað fleira sem óvíst er að jafnvel hann geri sér fulla grein fyrir að svo stöddu. Á fyrri öldum, þegar menn sultu heilu hungri, létu þeir sig dreyma um dýrlegar máltíðir sem hinum hólpnu veittust fyrir innan Gullna hliðið. Í kirkjum tónuðu menn á fastandi maga:
„Kláravín, feiti og mergur með mun þar til rétta veitt.“
Og í öðrum hálfum geistust fram fram hárprúðir prédikarar og boðuðu hungruðum verkamönnum fagnaðarerindi:
„You'll get pie in the sky when you die.“
Þennan draum hefur nú einstaklingsframtak frjálshyggjunnar látið rætast, með því að bjóða hinum hólpnu upp á veislu í upphæðum, - bókstaflegt pie in the sky -, og reyndar bætt um betur, því nú þurfa menn ekki einu sinni að geispa golunni til að njóta hinnar himnesku dýrðar, hinir útvöldu geta komist þangað strax, og reyndar fengið sitthvað fleira en feiti og merg eða pie til að hafa með kláravíninu. Það eina sem þarf er að standa sig vel í markaðsviðskiptunum – en það var líka lykillinn að himnaríki samkvæmt kalvínistum - því eins og skáldið sagði á sínu ljóðmáli:
„Takist þér að einast nógan auð, þig englar geyma bæði á himni og jörðu.“
Athugasemdir (1)