Þessi grein birtist fyrir meira en ári.

„Við stóðum öll í þeirri trú að þetta væri fjáröflun fyrir krakkana“

Nem­end­ur í grunn­skóla í Hafnar­firði settu upp leik­sýn­ingu í fjár­öfl­un­ar­skyni fyr­ir út­skrift­ar­ferð sína. Skól­inn ætl­aði að taka stór­an hluta fjár­ins til að greiða fyr­ir kostn­að vegna sýn­ing­ar­inn­ar og láta nem­end­urna greiða 24.000 krón­ur úr eig­in vasa fyr­ir ferð­ina.

„Við stóðum öll í þeirri trú að þetta væri fjáröflun fyrir krakkana“
Hafnarfjörður Nemendur í grunnskóla í Hafnarfirði settu upp leiksýningu til að safna fyrir útskriftarferð sinni. Mynd: Wikimedia Commons

Nemendur í tíunda bekk í grunnskóla í Hafnarfirði héldu leiksýningu til að safna fyrir útskriftarferð sinni. Foreldrum og nemendum brá í brún þegar skólayfirvöld ætluðu að nýta stóran hluta ágóðans í að greiða kostnað við að halda leiksýninguna. Inni í kostnaðinum var leiga á tækjabúnaði og kaup á nýjum glugga- og leiktjöldum. 

Kynnt sem fjáröflun“

Ákveðið hafði verið að nemendur í 10. bekk grunnskólans myndu fara í sérstaka útskriftarferð. Í henni fólst að gista tvær nætur í skála í Þórsmörk, fara í kajaksiglingu, borða grillmáltíð og pizzaveislu. Áætlaður kostnaður var 36.500 krónur á hvern nemanda. 

Til að afla fjár vegna ferðarinnar, og lágmarka þannig útlagðan kostnað nemenda, var þeim gert að sækja skylduáfanga í sviðlistum og í kjölfarið settu nemendur upp leiksýningu sem selt var inn á. 

„Það er ákveðið að setja upp söngleik og þetta er kynnt sem fjáröflun  skólaferðalags fyrir foreldrum og börnum,“ segir foreldri nemenda í 10. bekk í samtali við Heimildina. Bæði foreldrar og nemendur voru látin vita af því að einhver kostnaður fylgdi því að setja upp söngleikinn og að hann yrði dreginn frá söfnunarfénu. 

Rétt eftir áramót byrjaði undirbúningsvinna og unglingarnir lögðu sig mikið fram við gerð sýningarinnar með hjálp kennara og foreldra. „Allt í kringum það var rosalega flott. Kennarinn sem sá um þetta gerði þetta vel, byggði krakkana vel upp og þetta var allt óskaplega gleðilegt og skemmtilegt.“ 

Uppselt var á sýninguna sem naut mikilla vinsælda og söfnuðust yfir milljón króna í miðasölu. Skólinn ætlaði að nota þann pening til að greiða fyrir kostnað vegna sýningarinnar, þar með talið yfirvinnulaun kennara  samkvæmt foreldri sem Heimildin ræddi við. Foreldri segir það ekki hafa komið skýrt fram að borga ætti slíkt með fjáröflun nemenda.

„Krakkarnir virðast ekki vera að fá allt sem þau öfluðu“

„Svo kemur að því að gera upp fjáröflunina. Þá kemur í ljós að krakkarnir virðast ekki vera að fá allt sem þau öfluðu.“ Nemendur skólans fengu aðeins hálfa milljón króna og gátu þar með eingöngu borgað fyrir rútuferðina í Þórsmörk. Þetta fannst þeim skrítið miðað við velgengni sýningarinnar. Í kjölfarið sendi skólastjórn póst á foreldra með útlistun á því í hvað peningarnir voru notaðir. 

Þá kemur í ljós að nemendur fengu andvirði þess sem var selt í sjoppu leiksýningarinnar, sem var tæplega 400 þúsund krónur þegar búið var að draga frá kostnað. Auk þess söfnuðust 125 þúsund í formi styrkja og fór sá peningur beint til nemenda. Það gera rúmlega 500 þúsund krónur sem skiptast áttu á milli 44 nemenda. Nemendur áttu því aðeins 12.500 krónur inni á mann eftir fjáröflunina og áttu að greiða 24.000 krónur úr eigin vasa fyrir útskriftarferðina. 

Með þeim hundruðum þúsunda sem skólinn tók til sín voru meðal annars keyptar gardínur og leiktjöld í salinn þar sem sýningin fór fram. Skólinn hætti við að nota ágóðann til að borga kennurum yfirvinnulaun eftir spurningar foreldra. „Við stóðum öll í þeirri trú að þetta væri fjáröflun fyrir krakkana. Foreldrar voru margir hverjir búin að leggja á sig fleiri klukkutíma við að vinna við sviðsmynd og sauma búninga þannig að þau voru ekki tilbúin fyrir það að krakkarnir fengju 12.500 krónur fyrir ferðina.“

Eftir fund með ósáttum foreldrum var ákveðið að nemendur fengju hluta ágóða miðasölunnar, eða rúm 400 þúsund, og þyrftu því að greiða 10.000 krónur á mann fyrir útskriftarferðina í stað 24.000 króna. Þetta gerði það að verkum að í heildina fengu nemendur rúmlega 900 þúsund krónur af öllu því fé sem safnaðist. Þeir foreldrar sem þegar höfðu greitt hærri upphæð þurftu að láta skólann vita til að hægt yrði að fá endurgreitt. 

Kjósa
30
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Mest lesið

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

Frá endurlífgun á bráðamóttökunni í umönnun leikskólabarna
4
ViðtalÍ leikskóla er álag

Frá end­ur­lífg­un á bráða­mót­tök­unni í umönn­un leik­skóla­barna

Líf Auð­ar Ólafs­dótt­ur hjúkr­un­ar­fræð­ings og fjöl­skyldu tók stakka­skipt­um síð­asta haust þeg­ar hún sagði skil­ið við Bráða­mót­töku Land­spít­al­ans eft­ir átta ára starf og hóf störf á leik­skóla barn­anna sinna til að koma yngra barn­inu inn á leik­skóla. „Ég fór úr því að vera í end­ur­lífg­un einn dag­inn yf­ir í að syngja Kalli litli kóngu­ló hinn dag­inn.“

Mest lesið í mánuðinum

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár