Mánudaginn 17. apríl þegar Macron var búinn að koma sínum óvinsælu eftirlaunalögum „í gegn“, eins og segja mætti, en án þess að þingið hefði greitt atkvæði um þau, birtist hann í sjónvarpinu og sagði að nú væri þetta mál á enda og nauðsynlegt að halda áfram. En á sömu stundu flykktust Parísarbúar út á götur og lömdu ákaft á potta og ponnur, og var það svar þeirra við máli forsetans. Þá var einnig sú regla upp tekin að í hvert skipti sem forsetinn sjálfur eða einhver ráðherra hans brygði sér af bæ myndi þeim fagnað með þessum búsáhöldum. Hefur þessu verið fylgt vendilega, enginn þessara valdhafa hefur sloppið við þessar kveðjur nema vera í felum þegar hann annars hefði átt almenningi að mæta. Nú síðast gerðist það að Macron hafði boðað komu sína á fótboltakappleik, og þá voru verklýðsforingjar mættir við íþróttavöllinn og útbýttu blístrum og rauðum spjöldum meðal áhorfenda leiksins. Ýmis yfirvöld hafa reynt að bregðast við þessu með því að leggja bann við „flytjanlegum hljóðbúnaði“, en það þýðir á mannamáli að bannað sé að handleika potta og pönnur á almannafæri. Í sama streng tók Macron með spakmæli sínu „pottar og pönnur eiga heima í eldhúsinu“ sem er kannske það eina sem hann hefur lagt til málanna í stjórnmálafræðum til þessa.
Menn velta því nú fyrir sér hvernig Macron muni geta stjórnað landinu þau fjögur ár sem eftir eru af kjörtímabili hans, því hann hefur ekki meirihluta á þingi og andstæðingar hans, til hægri og vinstri, eru ekki lengur líklegir til að ganga til stuðnings við hann í þeim málum sem nú eru á dagskrá. Þannig er hann í pattstöðu, en ekki er hægt að segja að hún hafi verið ófyrirsjáanleg, því hér er kominn upp á yfirborðið illvígur brestur sem verið hefur í stjórnarskrá Frakklands frá því hún var sett. Til að skýra hann er rétt að rekja þá sögu.
„Stjórnarskrá fimmta lýðveldisins“, eins og hún er kölluð, var samin undir handarjaðri de Gaulle 1958, þegar hann var nýkominn til valda í kjölfarið á uppþoti agalausra herforingja í Algeirsborg. Ástandið var þá hið skelfilegasta, í Alsír geisaði sóðalegt stríð með fylgifiskum sínum pyndingum og hryðjuverkum sem virtist óleysanlegt, í Frakklandi sjálfu virtist ætla að skerast í odda milli þeirra sem vildu halda í nýlendu sína í Alsír hvað sem það kostaði, einkum með því að auka hernaðinn ennþá meir, og hinna sem vildu binda endi á stríðsreksturinn, með því að veita Alsír sjálfstæði ef ekki væri annar kostur. Hatrið og heiftin milli þessara tveggja fylkinga jókst í sífellu, landið rambaði á börmum borgarastyrjaldar, eins og menn segja núna eftir á. Framkvæmdavaldið var máttlaust og ráðlaust og gerði lítið annað en láta undan fyrir þeim sem vildu meira stríð. Þessir menn fyrirlitu þó stjórnvöld og létu sig dreyma um einvald, einhvers konar franskan Franco.
De Gaulle sá réttilega að til að hægt væri að ráða fram úr vandanum þyrfti að reisa framkvæmdavaldið við, gera því kleift að sinna sínu hlutverki, og það gerði hann svikalaust. Hann hafði hina mestu skömm á þinginu, svo og á stjórnmálaflokkum yfirleitt. Lausn hans var því sú að færa völdin sem mest í hendur forsetaembættis sem væri rækilega hafið yfir þingið og fært um að sneiða sem mest hjá því. Samkvæmt stjórnarskrá hans mótaði forsetinn stjórnarstefnuna og tilnefndi forsætisráðherra sem skipaði stjórn; hún skyldi svo sjá um daglegan rekstur landsins. Forsetinn gat sett forsætisráðherrann og stjórnina af, ef honum þóknaðist svo og útnefnt nýja, og hann gat líka rofið þing og efnt til nýrra kosninga eins og honum sýndist. Jafnframt hafði hann ýmis tæki til að ganga framhjá þinginu ef það skyldi vera honum óþægt, hann gat lagt mál beint fyrir þjóðaratkvæði, og svo var það vitanlega hin margumtalaða grein 49, paragraf 3, sem mælir svo um að hægt sé að setja lög án þess að þingið greiði atkvæði um þau, svo framarlega sem ekki sé samþykkt vantraust á stjórnina. Það var þetta ákvæði sem Macron beitti nú. Til að undirstrika að forsetinn væri yfir þingið hafið var kjörtímabil forsetans látið vera sjö ár, en þingmenn eru kjörnir til fimm ára. Í byrjun voru það þingmenn, í neðri deild og öldungadeild á sameiginlegum fundi í Versalahöll, sem skyldu kjósa forsetann en fáum árum síðar lét de Gaulle breyta því með þjóðaratkvæðagreiðslu. Eftirleiðis skyldi forsetinn kjörinn af þjóðinni.
Í engu öðru lýðræðisríki hefur forsetinn jafn mikil völd. Bandaríkjaforseti er mikill á lofti, en hann getur ekki rofið þing, hann verður að láta sér það nægja eins og það er, hann getur ekki efnt til þjóðaratkvæðagreiðslu, og hann hefur hvergi neina 49. grein 3. paragraf í vasanum. Meðan stjórnarskráin var enn í smíðum birtist því skopteikning af de Gaulle þar sem hann var með tommustokk á lofti að smíða hásæti eftir máli.
Þessi stjórnarskrá gafst vel á hinum stormasömu árum upp úr 1958, meðan verið var að leysa Alsírvandann. Þá var við ramman reip að draga, því þeir agalausu herforingjar sem komu de Gaulle til valda ætluðust greinilega til að hann tæki sér einræðisvald, gerðist einhvers konar franskur Franco eða Salasar, gersigraði Serki í Alsír með enn meiri hörku og léti svipuna vaða á vinstri mönnum, en það vildi hann umfram allt ekki – hann sagði: „Verður nokkur einræðisherra 67 ára?“ og þegar hægri menn vildu láta handtaka heimspekinginn Sartre sagði hann „maður setur ekki Voltaire í fangelsi“ - og þá snerust herforingjarnir gegn honum með hryðjuverkum. Margoft var reynt að myrða de Gaulle en hann slapp jafnan ómeiddur, eftir eina slíka árás sagði hann: „Nú skall hurð nærri hælum“, eftir aðra sagði hann: „Skelfing eru þetta lélegar skyttur.“ Eftir enn aðra sagði Madame de Gaulle: „Er allt í lagi með kjúklingana?“ Lögregluþjónarnir urðu hrærðir og viknuðu, því á þessum árum var „kjúklingur“ slanguryrði yfir lögregluþjón, þýddi semsé „lögga“. Þeir héldu því að hún væri með áhyggjur af þeirra velferð. En svo kom í ljós að Madame var bara að hugsa um mjög svo raunverulegt fiðurfé sem hún geymdi í bílskottinu fyrir einhvern væntanlegan snæðing.
En svo tóku við venjulegir tímar, það voru engin stórmál á dagská, örlög Frakklands voru ekki í veði. Þá tóku einstakir menn eftir mótsögn í stjórnarskránni: þar sem bæði þingið og forsetinn þiggja vald sitt beint frá þjóðinni í almennum kosningum, hafa þessir aðilar sömu valdastöðu, en það er engin grein í stjórnarskránni sem sker úr um það hver á að ráða ef þingið og forsetinn skyldu vera á öndverðum meiði, koma úr andstæðum fylkingum stjórnmálanna. Þetta hefur þegar gerst oftar en einu sinni, en hingað til hefur vandinn verið leystur með einhvers konar „gentlemen´s agreement“, venjulega með því að skipta valdinu og bíða svo eftir því að næstu kosningar muni leysa hnútinn. Þetta var auðveldara eftir að kjörtímabil forseta var stytt niður í fimm ár, og tengt við þingkosingar. En ef það skyldi nú skerast í odda fyrir alvöru kann stjórnarskráin enga leið til að skera úr um deiluna. Og víst er að staðan nú er mun harðari grimmari en þegar Mitterrand og Chirac höfðu þingið á móti sér.
Þetta er svo nátengt öðru atriði og djúpstæðara. Til að gegna því sérstaka forsetaembætti sem de Gaulle bjó til og mótaði síðan í stjórnarferli sínum þarf í rauninni einhvern afburðamann, að minnsta kosti þrautreyndan stjórnmálamann með langan feril að baki sem jafnvel andstæðingarnir bera virðingu fyrir. Þetta var einum og sér í lagi hugsun de Gaulles sjálfs, hann leit svo á að forsetakosningarnar, eftir að þær voru orðnar almennar, væru stefnumót einhvers stórmennis, einhverrar „sögulegrar persónu“ við þjóðina sjálfa, eins og hann mun hafa orðað það. En vandinn er nú sá, að söguleg stórmenni eru ekki á hverju strái og stundum er hörgull á þeim þegar þörfin er brýn. Sennilega má segja að af eftirmönnum de Gaulle hafi Mitterand komist einna næst því að geta talist „söguleg persóna“ , að minnsta kosti mun hann hafa litið svo á sjálfur og hafði einhverja skoðanabræður. Hann er líka eini eftirmaður de Gaulle sem hefur boðið sig fram til annars kjörtímabils og náð endurkjöri með eðlilegum hætti. Chirac og Macron náðu endurkjöri fyrst og fremst fyrir þá sök að þeir höfðu á móti sér Le Pen, föður og dóttur, og fengu því atkvæði vinstri manna, sem brugðust við eins og þar væru á ferli skrattinn og amma hans. Bæði Giscard d´Estaing og Sarkozy biðu ósigur þegar þeir fóru fram í annað sinn, og Hollande reyndi það ekki einu sinni, hann dró sig í hlé eftir eitt kjörtímabil, því hann sá að annars myndi hann fá hina háðulegustu útreið.
Nú held ég að óhætt sé að segja að Macron forseti sé sá sem síst samræmist þeirri hugmynd sem de Gaulle gerði sér um forseta Frakklands. Hvað sem segja má um aðra eftirmenn hershöfðingjans verður því ekki á móti mælt að þeir voru allir sjóaðir stjórnmálamenn sem höfðu staðið í honum krappanum í kosningabaráttu og öðru. Þegar Macron bauð sig fram til forseta hafði hann aldrei boðið sig fram til eins eða neins, aldrei þurft að standa frammi fyrir kjósendum og aldrei komið út meðal almennings. Hann hafi skriðið upp úr þeim skólum sem tilvonandi valdsmenn ganga gjarnan í og farið svo fyrst upp í hlýjar bankaskrifstofur með mjúkum stólum, síðan í það hlutverk að vera ráðgjafi Hollande í forsetatíð hans, falinn í skrifstofu í Elysée-höll, og loks hoppað upp í embætti fjármálaráherra þar sem hann stóð svo stutt við að almenningur kynntist honum ekki að neinu ráði. Hann var Skugga-Sveinn, án atgeirs, sem varla hafði nokkru sinni komið út í dagsljósið. Sagnfræðingar eiga enn eftir að fjalla um þá atburði sem leiddu til þess að hann var boðinn fram til forseta, en ljóst má nú telja að honum er nú fyrst og fremst ætlað að halda áfram að hrinda stefnu frjálshyggjunnar í framkvæmd og helst reka á hana smiðshöggið. Það sem frá honum hefur heyrst – fyrir utan spakmælið um pottana og pönnurnar – sýnir að hann hefur lært vel sína fjölrituðu fyrirlestra í skólanum og tamið sér helstu klisjur frjálshyggjunar. Þegar hann sagði við mann sem var að mótmæla atvinnuleysi: „Þú þarft ekki annað en fara yfir götuna til að fá vinnu“, var hann að vitna í þá útþvældu og margafsönnuðu kenningu að atvinnuleysi væri ekki til, bara leti. Sama var uppi á teningnum þegar hann sagði um sams konar hóp mótmælenda: „Af hverju eru þeir að þvælast á götunni í staðinn fyrir að fara og fá sér vinnu?“ Því var eitt af hans verkum að draga úr atvinnuleysisbótum. „Það eru þær sem skapa atvinnuleysið“, stóð sennilega á velktum blöðunum sem hann las í kaffistofu skólans. Þegar búið var að ræða eftirlaunalögin fram og aftur, fundu menn ekki neina skýringu á þessari lagasetningu, sem ekki var á nokkurn hátt brýn, aðra en þá að þeim væri fyrst og fremst ætlað að þóknast „fjármálamörkuðum“, fá hjá þeim góðan vilja, en í frjálshyggjunni er það einkum eftirsóknarvert. Það er eins og að sjá Gullna hliðið galopið og dýrð himnaríkis fyrir innan.
En nú hafa orðið eigendaskipti á hinu „andlega valdi“, sem Gramsci vildi greina skýrt frá hinu pólitíska valdi og taldi ekki síður mikilvægt. Því náði frjálshyggjan undir sig skamma stund með því, held ég, að stela því að næturþeli, en nú er hún búin að missa það. Ef menn vilja ganga úr skugga um það þurfa þeir ekki annað en líta inn í bókabúð í París og skoða nýútkomnar bækur. Þar geta menn lesið uppgjör við frjálshyggjuna og það sem af henni hefur nú leitt.
Macron getur vafalaust annast rekstur landsins næstu ár, sinnt daglegum málefnum, en ef hann ætlar að halda því áfram sem hann er vanur að kalla „umbætur“, semsé halda áfram að berja stefnu frjálshyggjunnar í gegn með hörku, er hætt við að búsáhöldum fari enn fjölgandi á götum úti.
Einnig safna þeir ofurríku æ meiri auð - sem mætti með réttlátu félagskerfi dreifa betur til almennings.
Ég hef þó aldrei lesið neina grein eftir hagfræðing sem útskýrir fyrir almenning bæði hugmyndafræði sem stendur bak við hækkun eftirlauna, kosti hennar og raunverulega þörf.
Kannski getur Heimildin bætt úr því?
Ég er þó bara leikmaður og tek undir með þér að það vantar grein eftir hagfræðing um þetta.