Ef samband mitt og míns heittelskaða kærasta fer einhvern tíma í ruslið, tunnuna, á haugana, er ég nokkuð viss um að rusl, tunnur og haugar munu eiga þátt í því. Við erum nokkuð gott kærustupar, rífumst eiginlega aldrei og meira að segja þegar ég reyni að búa til vandamál í sambandinu er það skotið niður af færi. Alma mín, láttu ekki svona, er ég vön að heyra. Ég hætti og sætti mig við að sambandið er gott og ég þarf ekkert að reyna að skemma það eða kveikja í því, það er best að reyna að endurvinna það.
Þau fáu rifrildi sem við eigum eru hversdagsleg og snúast helst um ruslið eða þvottinn. Aðallega um ruslið. Ferlið er alltaf eins. Það er laugardagur og ég hef loks tíma fyrir leiðinlegu verkin sem ég hef frestað alla vikuna. Ég fer inn í litla krúttlega eldhúsið okkar þar sem ég mæti haug af flokkuðu rusli. Ég skola nokkrar haframjólkurfernur, (ég drekk haframjólk því mér er svo annt um umhverfið) og kem þeim fyrir í pappapokanum, (ég nota pappapoka en ekki plastpoka því mér er svo annt um umhverfið). Nema hvað.
Í pappapokanum liggur plast. Ég veit nákvæmlega hvernig það komst þangað. Kærastinn minn hefur sett plast í pappapokann þótt ég sé margbúin að segja honum að við verðum að aðskilja pappa og plast. Ég garga á hann þar sem hann er að leika við son okkar. Auðvitað er ég að þessu öllu fyrir son okkar, svo hann eigi bjarta framtíð, eða bara framtíð yfir höfuð, því jörðin er að brenna, eða þannig hugsa ég það þegar ég er að skammast yfir plastinu í pappapokanum. Ég segi það við kærastann minn: Við erum að gera þetta fyrir barnið! Fyrir framtíð barnsins!
Í refsiskyni bið ég hann að athuga hvort laust sé í pappa- og plasttunnunni á bak við hús. Hann skottast út, með skottið á milli lappanna, og athugar. Nei, það er ekkert pláss í pappa- og plasttunnunni. Ég næ hvorki að koma ruslinu í endurvinnslu né að endurvinna þetta rifrildi. Haframjólkurfernurnar hlaðast upp í eldhúsinu, plastið er í pappanum en svo má sumt plast fara með pappa og ég er við það að fá taugaáfall og hugsa með mér hvar ég muni búa ef við skiljum og hvort það verði gott endurvinnslukerfið við húsnæðið. Eða hvort ég muni búa nálægt grenndargámi, því það er svo langt að ganga með allar glerkrukkurnar þaðan sem við búum og eldhússkáparnir eru að fyllast af krukkum.
Í stað þess að panta tíma hjá lögfræðingi til að ganga frá skilnaði panta ég tíma hjá sálfræðingnum mínum. Þar fæ ég að gasa um þriðju fernuvaktina og ótta um heimsenda og framtíð barnsins míns.
Ég segi vinnufélögum mínum frá sambandinu mínu, ruslinu sem umlykur mig og stelur af mér laugardagsmorgnum með barninu mínu. Einn þeirra nálgast mig af varfærni, setur hönd sína varlega á öxl mína, vinalega, og segir að fernurnar sem fylli eldhúsið, fernurnar sem myndi gjá í sambandinu mínu séu ekki endurunnar. Þær eru brenndar í sementsverksmiðju í Hollandi. Mig svimar við fréttirnar og fæ ekki stjörnur fyrir augun heldur fernur. Fernur eiga ekki framhaldslíf, eins og segir í fræðslumyndbandi Sorpu um endurvinnslu á fernum, en ég vona að sambandið lifi þetta af.
Athugasemdir