Sveitarfélögin Seltjarnarnes og Garðabær skera sig úr á landsvísu ef litið er til hlutfalls heimila í efsta tekjufimmtungi, en 34 prósent heimila á Seltjarnarnesi voru í þeim hópi og 33,4 prósent heimila í Garðabæ, samkvæmt tölum sem Hagstofan hefur birt úr manntali ársins 2021.
Næst á lista koma Snæfellsbær og Grýtubakkahreppur, en þar voru 28,8 og 27,6 prósent heimila í efsta tekjufimmtungi. Þar á eftir koma Kópavogur og Fjarðabyggð, þar sem um og yfir 24 prósent heimila voru í efsta tekjufimmtungi.
Í nokkrum sveitarfélögum hefur þetta hlutfall lækkað talsvert frá manntalinu 2011, sér í lagi í Vestmannaeyjum, á Skagaströnd og í Fjarðabyggð. Í þessum sveitarfélögum voru yfir 30 prósent heimila í efsta tekjufimmtungi árið 2011, en öllu lægri nú. Allra mest var breytingin í Vestmannaeyjum, þar sem hlutfall heimila í efsta tekjufimmtungi lækkaði um 8,1 prósentustig.
Á hinum enda skalans sést í tölum Hagstofunnar að hlutfallslega fæst heimili í Þingeyjarsveit, Húnaþingi vestra og Hrunamannahreppi voru í efsta tekjufimmtungi heimila í landinu, eða innan við 11 prósent heimila í hverju sveitarfélagi um sig.
Mörg tekjulág heimili á Ásbrú og miðborg Reykjavíkur
Hagstofan hefur einnig tekið saman upplýsingar um það hvernig hlutfall heimila í lægsta tekjufimmtungi eru innan svokallaðra smásvæða í landinu. Þar má sjá nokkur svæði skera sig úr. Hæst er hlutfallið á skilgreindu svæði sem nær yfir Ásbrú í Reykjanesbæ, en 42 prósent heimila þar voru í lægsta tekjufimmtungi samkvæmt manntalinu.
Í og við miðborg Reykjavíkur er hlutfall tekjulágra heimila einnig hátt, eða allt upp í rúm 38 prósent á einu svæði miðsvæðis.
Á hinum enda þessa skala var eitt skilgreint smásvæði á Seltjarnarnesi, þar sem 8,2 prósent heimila voru í lægsta tekjufimmtungi og svæði á Akranesi þar sem 8,6 prósent heimila voru í lægsta tekjufimmtungi. Þar á eftir komu svo fjögur smásvæði í Garðabæ.
Eins og gefur að skilja hefur gerð heimila mest um það að segja hvernig tekjur þess eru. Þannig voru um 70 prósent heimilanna sem féllu í lægsta tekjufimmtunginn heimili með einungis einum einstakling, eða þá heimili einstæðra mæðra og feðra.
Athugasemdir