Íslenskri tónlistarútgáfu hefur í gegnum áratugina verið haldið uppi af ofurhugum. Þeir eiga það sameiginlegt að hafa haldið góðum dampi um mis-skamma hríð, en svo sprungið á limminu, líklega þegar stærð örmarkaðarins og neikvæð staða bankareikningsins rennur upp fyrir þeim. Svipaða sögu hefur verið hægt að sjá síðan Tage Ammendrup byrjaði með Íslenzka tóna á Fimmunni. ÁÁ-Records, Thule, Kimi, Record Records – svo nokkur merki séu tínd til – hafa dælt út efni yfir nokkur misseri, en svo lognast út af. Við tónlistaraðdáendur erum auðvitað þakklátir ofurhugunum, án þeirra kæmi lítið út. Plötuútgáfa og fífldirfska haldast í hendur.
300 eintaka sala á Íslandi ásættanleg
Nú um stundir er Reykjavík Record Shop á Klapparstíg sú plötuútgáfa sem iðnust er við kolann. Þar kemur nánast út ein plata á mánuði og hefur gert um nokkra hríð – flest á vínyl. Upplag hvers titils er lítið, enda er plötuútgáfa vitanlega ekki svipur hjá sjón. Niðurhal og streymi drap CD-diskinn og nú, í endurkomu vínylsins, er upplag vínylplatna á Íslandi oftast ekki nema þetta 30 til 300 eintök. Telst 300 eintaka sala á Íslandi mjög ásættanleg. Er þetta auðvitað ekki nema brotabrot af því sem var þegar vínylplatan var allsráðandi, fyrir 40 árum eða svo.
Mukka - Study Me Nr. 3
★★★✰✰
Mukka er samstarfsverkefni Kristjóns Hjaltested og Guðmundar Óskars Sigurmundssonar. Þeir kokka upp níu seigfljótandi stemmur á þriðju plötu sinni. Þetta er ósungin tónlist. Það er reyndar rödd í flestum lögunum, en oftast er hún mixuð aftarlega og höfð í þykku lagi af effektum, svo speisað muldrið er stemningsgjafi fremur en textaflytjandi. Mikill Níu-keimur er af Mukku og margt sem minnir á svala enska tónlist, trip hop og Manchester baggy. Aðgengilegasta lagið á plötunni, Heather, er til að mynda í svipuðum kærileysis-gír og útvítt grúv-poppið sem Happy Mondays eru þekktir fyrir. Lokalag A-hliðar er svo Autumn, súrsæt krautrokk-ballaða, sem myndi skotganga sem stemningsgjafi í heimildarmynd, t.d. um eitthvað tengt íþróttum. Það sama má segja um flest lögin á plötunni, þau eru „kvikmyndaleg“.
Svöl og skemmtileg
Góður slagkraftur og framvinda er á fyrri hlið Mukka-plötunnar og er hún mun sterkari en sú seinni. Þar er eins og safnað hafi verið saman ýmsum hugmyndum og er losarabragur á sumu og pælingarnar ekki alveg geirnegldar. Það breytir því þó ekki að plata Mukka er skemmtileg og býr til svala stemningu sé hún sett á fóninn.
Þórir Georg- Nokkur góð
Þórir Georg Jónsson er eins manns fjölsmiðja, jafnvígur á gítarpönk, órafmagnaða rokkballöðugerð, hljóðgervla-tilraunamennsku og dularfulla hljóðmúra – og reyndar margt fleira. Hann hefur gefið út plötur síðan 2004, undir eigin nafni eða sem hluti af hljómsveitum eins og Ofvitarnir, Skjálfti og ROHT. Mikill dugnaðarforkur og flest mjög spennandi sem frá honum kemur. Platan Nokkur góð safnar saman 12 lögum frá síðustu tíu árum og er nokkur munur á hljóðgæðum.
Eins manns fjölsmiðja
Margt er óheflað og hrátt, annað með „dýrara“ hljóðverssándi. Allt er þetta melódískt gítarpönk með bæði íslenskum og enskum textum, sem reyndar er ekki hægt að heyra nema einstaka línur því það er ekkert textablað og óframfærinn söngur Þóris er aftarlega í mixinu og oftast bjagaður. Þó má lesa kaldhæðni og tómhyggju úr lagaheitum eins og „Skiptir engu“, „Ekki neitt“ og „Ælulykt“. Þórir sér um alla spilamennsku nema hann fær trommara í heimsókn í tveimur lögum. Hann hannar líka umslagið, sem er töff.
Þetta er fín plata en lögin tólf eru misgóð. Það best heppnaða er grípandi melódískt popppönk með hamrandi takti og sniðugum útúrdúrum sem koma á óvart. Til að mynda þegar lagið „The Idiot Song“ dettur niður á frumlegan hátt, þegar hljóðgervlamottur taka lagið „Fastur“ í nýjar og ferskar áttir og þegar ýlfrandi hávaðakaflinn í „Skiptir engu“ fær mann til að athuga hvort of mikið ryk hafi safnast á plötunálina og maður þurfi að blása það af. Margt er hér um fína músík en stundum er endurtekningin þó fullmikil og sami trommutaktur leiðir of mörg lög. Maður fær stundum á tilfinninguna að maður sé að hlusta á sama lagið aftur og aftur.
Nokkur góð er fín fyrsta kynning á tónlistarmanninum Þóri Georg. Rökrétt næsta skref er svo að svolgra í sig þá gnótt sem liggur eftir hann og finna má á netinu (Bandcamp) – sirka 50 titlar, takk fyrir.
Athugasemdir