Að rölta um miðbæ Reykjavíkur meðan að þjóðarleiðtogar Evrópu funduðu í Hörpu minnti í senn á Covid og bókina um Palla sem var einn í heiminum. Stöku túristi á ferli með flugfreyjutösku, annars enginn nema þungvopnaðir lögreglumenn í byssuvestum með hríðskotabyssur, svo eitt augnablik fannst konu hún vera í París.
Mávar svifu yfir hausnum á mér þar sem ég rölti í nýja hverfinu við Höfðatorg og hægði á mér þegar ég nálgaðist veitingastað þar sem tvær löggur með hríðskotabyssur fylgdust gaumgæfilega með mér. Hversu nærri þeim get ég farið, hugsaði ég, áður en ég verð stoppuð?
„Kyrrðin minnti á ófrið, öll þessi kyrrð til að vernda þjóðhöfðingja að ráða ráðum sínum vegna ófriðarins í Úkraínu.“
Fuglar og byssur
Kyrrðin minnti á ófrið, öll þessi kyrrð til að vernda þjóðhöfðingja að ráða ráðum sínum vegna ófriðarins í Úkraínu. Daginn áður höfðu þyrlur sveimað yfir ritstjórnarskrifstofu Heimildarinnar og einhver hélt að þyrlan sem sveimaði fram og aftur um langa stund hefði að geyma sendinefnd frá Úkraínu. En enginn vissi neitt fyrir víst. Nema jú, við vissum að allt í kringum okkur lúrðu leyniskyttur inn á milli fuglanna á húsþökunum þessa daga, bæði fuglahreiður og byssuhreiður í rjáfum.
Skyndilega var stríðið í Úkraínu svo nærri. Svipuð tilfinning færðist yfir mig og þegar ég var á ferð í Póllandi í sumar, þar sem meðvitundin um stríðið var þyngri, og það hafði verið skrýtin tilfinning að vera í Kraká, aðeins 200 kílómetrum frá Úkraínu og vita að svo skammt frá voru börn að deyja, fólk að sæta pyntingum. Ég var í Póllandi ásamt ferðafélaga sem var á efnafræðiráðstefnu þar, sjálf á leiðinni beint þaðan á bókmenntahátíð í Tékklandi og Slóvakíu – sem hafði upphaflega átt að vera líka í Úkraínu. Fjölmargir íslenskir höfundar tóku þátt í þessari hátíð og rétt áður en stríðið skall á hafði ég sagt við einn kollega minn að kannski kæmumst við ekki eftir allt saman til Úkraínu en hann hafði engar áhyggjur af því. Stríð var eitthvað svo langsótt – í Reykjavík.
Iðnvædd fjöldamorð
Nú yrði aðeins sérstök kvöldstund helguð Úkraínu á tékknesku bókmenntahátíðinni og þarna var ég reyndar að skrifa esseyju fyrir aðra bókmenntahátíð í Toronto síðar um haustið, þar sem PEN samtökin yrðu með viðburð tileinkaðan Úkraínu. Höfundar voru því beðnir um að skrifa esseyju með yfirskriftinni: We Come Back Together, Only to Fall Apart.
Ég var að bisast við að skrifa þessa esseyju meðan ferðafélagi minn sat ráðstefnuna og mitt í því tók ég rútu og fór að skoða Auschwitz og Birkenau, þar sem voru stunduð iðnvædd fjöldamorð.
Úti var steikjandi hiti og í nokkra klukkutíma labbaði ég um útrýmingarbúðirnar með sagnfræðimenntaðri leiðsögukonu sem sagði það lífsstarf sitt að fræða fólk um það sem mætti aldrei gleymast. Engin orð ná utan um hryllinginn sem hún sagði frá, að vera á þessum stöðum er eitthvað sem mig langar ekki einu sinni til að lýsa. Óhugnaðurinn nísti inn að beini, þannig óhugnaður að hann fer aldrei úr manni aftur.
Inni í einu húsinu í Auschwitz hékk mynd af á að giska fimm ára dreng í biðröð að bíða dauðans með mömmu sinni. Hann horfði þannig fram að það var eins og að horfast í augu við hann að horfa á myndina. Ég missti máttinn í fótunum, um stund horfðist ég í augu við son minn.
Drengurinn í næsta húsi
Þegar sonur minn var á svipuðum aldri bjuggum við ásamt pabba hans, fyrrverandi eiginmanni mínum, í Berlín; í hverfi þar sem margir gyðingar bjuggu á sínum tíma. Sonur minn stríddi þá við svo mikla viðkvæmni fyrir barkabólgu að það gat ógnað lífi hans þannig að ég var á þessum tíma ansi taugastrekkt. Það átti sinn þátt í að ég fékk fjölskyldu í næsta húsi á heilann. Nema sú fjölskylda hafði búið þar á öðrum tíma, hún var flutt í útrýmingarbúðir í seinni heimsstyrjöldinni. Kona sem var jafngömul mér, maður sem var jafngamall þáverandi manninum mínum og lítill drengur, nýorðinn fimm ára þegar hann fór þangað til að deyja nokkrum dögum síðar. Og ég gat ekki hætt að hugsa um hann, þennan litla dreng sem hafði leikið sér í sama bakgarði og sonur minn á sama aldri og síðan sætt þessum örlögum.
Ég fékk skrýtna þráhyggju, stundum horfði ég út í bakgarðinn og barðist við grátinn og ágenga sektarkennd að hafa ekki verið þess megnug að bjarga þessu barni sem fæddist og dó fyrir minn dag, um leið og ótti fór um mig þegar mér varð hugsað til þess að aðeins hefði munað nokkrum mínútum að ég hefði ekki náð að bjarga syni mínum nokkru áður. Og nú horfði þessi drengur á mig, annar drengur en samt hann, og um leið sonur minn, barnið okkar allra, alltaf.
Hópnum sem hlýddi á leiðsögukonuna var flestum orðið ómótt af frásögninni, andrúmsloftinu, hitanum ... meðan hún talaði þarna inni andspænis myndinni og það sem eftir lifði dags sá ég allt í móðu.
Næsta dag leið mér svipað og eftir að hafa verið með son minn á spítala í Berlín í nokkra daga eftir að munaði svo litlu að hann kafnaði úr bólgu í barkanum. Einhvern veginn út úr sjálfri mér og stöðugt að hugsa um börnin 200 kílómetra frá mér, í fallega blómsælu sumrinu – að deyja í sprengingum og andspænis byssum.
Öllu því sem aftur kemur saman þau örlög boðin að skilja aftur
Síðan lá leiðin til Tékklands, þaðan til Slóvakíu. Við ferðafélagi minn sátum í fornfálegri lest á leiðinni til Bratislava, hann að fara yfir vísindaritgerð meðan ég skrifaði esseyjuna fyrir hátíðina í Toronto. Svo mikið þrýsti á mig að segja að ég gat ekki sagt neitt. Svo ég spurði hann: Hvað dettur þér í hug þegar ég segi: We Come Back Together, Only to Fall Apart?
Og efnafræðingurinn svaraði: Börn byggja turn sem síðan hrynur.
Ég sá fyrir mér grátandi börn að leika sér með legókubba, ég sá þau fyrir mér hrinda turni sem þau voru rétt í því að reisa, grátandi yfir eigin tortímingarhvöt.
Þegar hann hélt áfram skrifaði ég orð hans niður fyrir esseyjuna og hann sagði: Ekkert er varanlegt. Hvorki efnislega né í afstöðu hluta hver til annars. Þannig er öllu því sem aftur kemur saman þau örlög boðin að skilja aftur. Þetta á við jafnt um eðli hinna smæstu einda sem og menningarlega arfleifð og skipulag þjóða. Jáeindin, sú smáa andeind rafeindarinnar, myndast við sundrun og sameinast til að sundrast. Þessi betaeind, sem átt getur uppruna sinn úr kjarna flúorsins, á sér aldrei langan líftíma því hún hefur óseðjandi sameiningarþörf, botnaði hann.
Hann þagði um stund en hélt svo áfram: Því eins sjaldgæf og hún er, þá er andeind hennar, sem hún alltaf sækist eftir að parast, alls staðar, í ómældu magni. Þannig að stuttu eftir að jáeind frelsast úr viðjum kjarna einhvers frumefnisins líður ekki á löngu þar til hún sameinast næstu rafeind til þess eins að renna saman í eitt sem jafnskjótt verður ekkert, annað en tveir gammageislar sem ferðast með hraða ljóssins í beinni línu hvor frá öðrum. Þetta er trúlega tærasta mynd sameiningar til sundrunar. Tærasta mynd þess sem kemur saman, til þess eins að sundrast.
Án þess að ég gæti útskýrt það fyrir sjálfri mér tendurðu orð hans sorg, samt ekki lausa við fögnuð. Svipað og ég stæði við bjargbrún, við það að hrapa, svo glöð að hafa lifað. Deyjandi. Lifandi. Á brún alls.
Endalokin viðbúin.
Í upphafi.
Evrópa með áfallaviðbrögð í blóðinu
Og þá stoppaði lestin. Í næstum tvo tíma sátum við föst út af eldi á akri skammt frá. Meðan akurinn brann svitnaði fólkið í lestinni og stelpa sem sat andspænis ferðafélaganum stytti sér stundir við að búa til fugla úr pappír. Hún gaf honum einn, honum sem helgar líf sitt efnafræði og tekst á við afleiðingar lífspora okkar sem eru að tortíma börnunum og öllum fuglunum.
Akrar og skógareldar brenna af hamförum af mannavöldum, heimurinn hitnar og hitnar, fleiri og fleiri börn deyja, lífið skíðlogar, brennur. Ég hugsaði um Berlín sem brann og var sprengd og hvernig hún var byggð upp aftur, og hvernig hún iðar, rétt eins og Kraká, og ég hugsaði um öll börnin sem dóu einu sinni þar, og börnin sem deyja í Úkraínu og hvernig meðvitund mín um stríð er önnur á meginlandinu en á Íslandi. Hversu oft getur mannfólkið tortímt öllu til að byggja það aftur, eins og legóturn? Eins og í Síðasta sálminum um blómið – einhver tímann verður einn sálmurinn sá síðasti.
Hugsaði ég þar sem ég ráfaði um auðar göturnar í Reykjavík, í maí árið 2023, og mávarnir skitu á hausinn á leyniskyttum meðan þjóðarleiðtogar álfunnar, sem sundrast og sameinast – með áfallaviðbrögð í blóðinu – og sundrast ... funduðu í Hörpu og ókyrrðin í þögninni var ærandi.
Athugasemdir