Kammersveit Reykjavíkur
Kammersveit Reykjavíkur – Frá Bretlandi Tónleikar í Norðurljósum í Hörpu sunnudaginn 14. maí 2023 Efnisskrá: Henry Purcell/Benjamin Britten: Chaconne í g moll Gerald Finzi: Konsert fyrir klarinett og strengi op. 31 Benjamin Britten: Serenaða fyrir tenór, horn og strengi op. 31 Klarinett: Rúnar Óskarsson Einsöngvari: Stuart Skelton Horn: Frank Hammarin Konsertmeistari: Una Sveinbjarnardóttir Stjórnandi: Mirian Khukhunaishvili
Síðustu tónleikar starfsárs Kammersveitar Reykjavíkur voru helgaðir breskri tónlist og voru þrjú verk á efnisskrá, sem sjaldheyrð eru á tónleikum hér á landi.
Tónleikarnir hófust á fallegri Chaconnu í g moll eftir Purcell í útsetningu fyrir strengjasveit eftir Britten. Kammersveitin var fullmönnuð strengjasveit (6-5-4-3-2), sem þýðir að það eru sex í fyrstu fiðlu, 5 í annarri fiðlu, fjórir í víóludeildinni, þrjú selló og tveir kontrabassar. Það var ljóst frá fyrsta hljómi að hér hafði verið nostursamlega æft. Hver hending var fagurlega mótuð og hljómur sveitarinnar heilsteyptur og fallegur. Chaconna er í raun stef með tilbrigðum og ferðaðist hið dásamlega barokkstef Purcells fagurlega í höndum sveitarinnar í hinum ýmsu myndum, þar sem dýnamík og lítil smáatriði nutu sín til fullnustu. Ég man satt að segja ekki eftir því að hafa heyrt svo fagran, heilsteyptan og dýnamískan strengjahljóm frá íslenskri hljómsveit áður, en þess ber þó að geta að ég hef ekki verið á öllum tónleikum. Þetta var því dásamlegt upphaf og eftirvæntingin eftir því þegar Rúnar Óskarsson klarinettuleikari sté á svið í næsta verki, sem var klarinettukonsert eftir Gerald Finzi.
Endaði á virtúósískum nótum með bravúr
Rúnar hefur verið fastráðinn hljóðfæraleikari við Sinfóníuhljómsveit Íslands um árabil, auk þess að gegna öðrum störfum eins og gengur og gerist, sem kennari og stjórnandi, en einhvern veginn hefur bassaklarinettið orðið hans aðalsmerki á síðustu áratugum, enda fáir sem komast með tærnar þar sem hann hefur þær í þeirri deild. Það var því einkar kærkomið að sjá hann í hlutverki einleikarans í þessum klarinettukonserti, sem sjaldan heyrist hér á landi. Ég veit ekki hvort þessi konsert er í sérstöku uppáhaldi hjá klarinettuleikurum, en ég held að allir klarinettuleikarar þekki hann án þess þó að hafa spilað hann. Konsertinn var frumfluttur í London árið 1949 og er kannski það verk sem haldið hefur nafni Finzi á lofti frekar en önnur verk hans, en hann lést árið 1956, aðeins fimmtugur.
Konsertinn gerir kröfur til einleikarans, annað væri fáránlegt, og Rúnar stóðst þær kröfur fyllilega. Konsertinn er í hefðbundnum þremur þáttum og fyrsti þáttur brunaði áfram þar sem klarinettan átti samtal við þétta strengjasveitina. Annar þátturinn er kannski hjarta konsertsins. Hann var leikinn afar fallega og stóð sveitin þétt við baki á einleikarans hvort sem var í léttum sunnan- andvara eða brimróti. Stef lokakaflans myndi sóma sér vel í hvaða BBC periodu-sjónvarpsseríu sem er, með grípandi laglínu og fallegum strengjahljómi með klarinettuna svífandi yfir. Rúnar fór létt með allar þær þvælingar sem Finzi leggur fyrir og endaði á virtúósískum nótum með bravúr. Heilt í gegn og góð skemmtun. Rúnar ætti í raun og veru að gera þetta oftar, að koma fram sem sólisti, hann er fantagóður klarinettuleikari.
Síðasta verkið á efnisskránni var Seranaða fyrir tenór, horn og strengi eftir Benjamin Britten. Verk sem sannarlega gerir kröfur til þeirra tveggja sem eru í aðalhlutverkum, að þessu sinni ástralska tenórsins Stuarts Skeltons og bandaríska hornleikarans Franks Hammarin. Tenórinn Stuart Skelton hitti í mark á Íslandi þegar hann söng á Listahátíð í sameiginlegri uppfærslu Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Íslensku óperunnar á óperu Brittens, Peter Grimes. En við erum svo heppin að Skelton hefur síðan orðið tengdasonur Íslands og hefur glatt okkur nokkrum sinnum síðan með söng sínum.
Frank Hammarin hefur verið fastráðinn hornleikari hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands frá 2016 og hefur einnig verið áberandi á öðrum sviðum í íslensku tónlistarlífi. Serenaða Brittens er langt frá því að vera aðgengilegt verk en með þessum tveimur frábærum sólistum, Stuart og Frank var þetta upplifun. Serenaða Brittens er frá árinu 1943, samin í miðri heimsstyrjöld, við ljóð Cotton, Tennyson, Blake, Keats o.fl. Hún er ágeng, hrjúf, blíð og allt þar á milli og aðalleikararnir Stuart og Frank fóru ásamt Kammersveitinni með áheyrandann í ferðalag, erfitt ferðalag á stundum en stundum ljúft og fallegt.
Negldi þessi sóló
Stuart Skelton þarf varla að lofa meir en hann var þarna í hlutverki sem er ekki auðvelt og alls ekki söng hann allt fallegt – stundum söng hann bara ljótt og rödd hans var ljót í samræmi við texta. Samspil þeirra tveggja, Stuarts og Franks, var áþreifanlegt, eins og þetta væri samtal og strengjasveitin á bak við væri bara eitthvað sem væri eðlilegt. Ef einhver er með sama volume og horn hefur er það Stuart Skelton – og þegar þeir tveir voru saman í samtali var það sannarlega upplifun. Verkið hefst og endar á hornsólói – Prologue og Epilogue sem Britten skrifar fyrir náttúruhorn. Það gefur að sjálfsögðu tóninn fyrir því sem á eftir kemur að tónninn í náttúruhorninu er ekki sá sami og við þekkjum í ventlahornum – það hljómar pínu falskt - en það á að vera þannig. Frank Hammarin negldi þessi sóló algjörlega – hið fyrra af sviði og hið seinna af sviði. Þetta var því magnaður flutningur á merkilegu verki. Það verður að minnast á fumlausa stjórn Mirian Khukhunaishvili, sem var frábær og með allt sitt á hreinu. Það er ekki auðvelt að takast á við svona verkefni, einhvern veginn óvægin og ekki auðveld í hlustun, en hann leysti þetta af hendi fumlaust og frábærlega og væri gaman að sjá hann takast á við stærri hljómsveit.
Það eina sem skemmdi fyrir þessum tónleikum var barnsgrátur í viðkvæmu hornsólói í byrjun lokaverksins. Annað, í hléi var ekki hægt að ná sér í vatn, nema í krana inni á klósetti. Á meðan allir þeir sem voru boðnir í afmæli Ólafs Ragnars Grímssonar (var þetta ekki opinn viðburður?) fengu vatn í Hörpuhorni, já og köku líka, var tónleikagestum Kammersveitarinnar gert að halda sér til hlés með borðum eins og á þýskum flugvelli og þeir sem voguðu sér að ná í vatnið voru litnir illu auga af eftirlitsaðilum. Harpa, þú getur gert betur en þetta.
Athugasemdir