Að undanförnu hef ég verið að kalla eftir umræðu um vímuefni á veggnum mínum á Facebook. Ástæða þess er augljós því það ríkir ópíóðafaraldur hér, eins og víða annars staðar. Stærsti sökudólgurinn hvað ofskömmtun og dauða varðar er skítbillegt vímuefni sem heitir Fentanyl. Það er að stærstum hluta framleitt í Kína, Indónesíu og Kólumbíu. Samkvæmt gögnum sem ég sá kostar um 200 dollara að búa til hvert kíló af því. Götuverðið er meira en 1000% hærra.
Ég elska reyndar ekki Fentanyl eða aðra ópíóða því samkvæmt minni reynslu af ópíóðum eru þetta skítalyf sem valda verulegum óþægindum af harðlífi og eiga ekki heima nema inni á sjúkrahúsum í lúkunum á fagfólki sem gefa þau til að minnka líkamlegan sársauka, til dæmis eftir skurðaðgerðir eða slys. Þannig kynntist ég þeim eftir stóra aðgerð. En ég var fljótur að henda þeim lyfjum sem ég var sendur með heim eftir aðgerðina og var það þó bara Parkódín sem er allt annað efni en Fentanyl þótt ópíóði sé.
Okkur hefur verið sagt það af þjóðfélaginu öllu eins og það leggur sig að fíkn sé vond og eitthvað til að forðast og að það séu ákveðin efni sem valdi eða geti valdið fíkn. Þetta er okkur sagt þrátt fyrir að oft sé vitneskjan takmörkuð og fæstir hafi pælt í hvað orðið fíkn nákvæmlega þýðir. Og hvort fíkn sé raunverulega eins slæm og okkur er sagt. Það er nú einu sinni náttúran sjálf og lífið sem hefur kennt okkur á fíkn og að sækjast eftir vellíðan. Það er í eðli mannsins og allra dýra að láta sér líða vel. Að minnsta kosti eru fæstir sem beinlínis sækjast eftir vanlíðan, ekki síst ef vellíðan er í boði.
Við vitum það núna eftir margar rannsóknir að fyrirbærið fíkn verður til í heilanum á því svæði sem heitir OFC eða orbitofrontal cortex, sem kallast framheilabörkur á íslensku. Þetta svæði er mjög tengt randkerfi (limbic) heilans sem hefur með tilfinningar að gera og væri hægt að kalla það tilfinningastjórnstöð. Það fær upplýsingar frá öllum skynfærum okkar, metur þær, greinir og ákvarðar. Það er þetta svæði sem ákveður fyrir okkur á míkrósekúndu hvort okkur geðjast vel eða illa að einhverju, t.d. manneskju sem við hittum. Það er OFC sem túlkar líkamstjáningu og tilfinningaleg viðbrögð.
Heilaþroski á meðgöngu og í æsku er stærsti og áhrifaríkasti þátturinn um það hvort manneskja á það á hættu að verða fíkill á einhvern hátt, ekki erfðir eða gen. Hvort heldur er vegna lyfja eða hegðunar/athafna. Þetta kann að virðast fjarstæðukennt en hefur verið staðfest með rannsóknum. Meðal annars af Dr. Vincent Felitti á fleiri en sautján þúsund miðstéttar Ameríkönum í rannsókn sem var gerð fyrir Kaiser Permanente og U.S. Centres for Disease Control. Þessi rannsókn kallast ACE (Adverse Childhood Experience) og niðurstaða Dr. Felitti var að „grunnurinn að fíkn er að mestu reynsla úr æsku en ekki vegna efnanna. Núverandi skilgreining er illa grunduð.“
Fíkn gerir kröfu um ákveðna niðurstöðu eða áhrif á sjálfið, án hennar finnst sjálfinu það svikið. Óviðráðanleg löngun sem neytandi getur engan veginn staðið gegn, sama hvaða afleiðingar það hefur, bæði fyrir hann og/eða umhverfi. Öll fíkn notar sömu heilabrautir og boðefni í heilanum, öll fíkn hefur líffræðilega eiginleika. Fíkn hefur líffræði-, efnafræði-, tauga-, sálfræði-, læknisfræði-, tilfinningalega-, félagslega-, pólitíska-, efnahagslega- og andlega þætti. Þannig að fíkn er ekkert einföld.
Svo sjónarmiðið að líta á fíkn sem sjúkdóm, hvort heldur er áunninn eða meðfæddan þrengir hana niður í læknisfræði sem að mínu viti er ofureinföldun því hún er svo miklu flóknari. Eins og hópur fíknisérfræðinga sem kom saman á ráðstefnu 2001 sagði eftir bollaleggingar og umræður: „Fíkn er langvarandi taugalíffræðilegur sjúkdómur... sem einkennist af einum eða fleiri af eftirtöldum þáttum: skertri stjórn á neyslu, áráttuneyslu, áframhaldandi neyslu þrátt fyrir skaða og löngun.“
„Nýjar heilamyndarannsóknir hafa leitt í ljós undirliggjandi truflanir á svæðum í heila sem eru mikilvægar við eðlilegt hvataferli, umbun og hömlustjórn í fíklum. Það leggur grunn að nýju sjónarhorni, að fíkn sé heilasjúkdómur og frávikshegðun sem fylgir sé afleiðing af truflun á starfsemi í heilavef, rétt eins og slagæðaþrengsli eru hjartasjúkdómur,“ sagði Nora Volkoff læknir og forstýra NIDA (National Institude Of Drug Abuse). Þetta finnst mér fremur þröngt sjónarhorn.
Því hefur verið haldið fram að fíkn sé einskorðuð við manninn en það er náttúrulega ekki rétt. Maður er nefndur Ronald K. Siegel. Hann er prófessor í Los Angeles og hefur verið ráðgjafi tveggja Bandaríkjaforseta og hjá WHO. Þannig að Siegel er enginn asni og veit sitt af hverju um fíkn hjá öðrum dýrategundum en manninum. Einkum vegna þess að hann eyddi rúmlega 25 árum í að rannsaka það. Niðurstaða hans er: „Í öllum löndum og hjá næstum öllum dýrategundum fann ég tilfelli af, ekki bara af slysni, heldur vísvitandi, vímuefnaneyslu.“ Af rannsóknum Siegels og niðurstöðum má ráða að það séu einkum tvær ástæður fyrir vímuefnaneyslu meðal dýra. Annars vegar er það flótti frá tilfinningum sem dýrinu finnast sárar og hins vegar til hreinnar skemmtunar. Það er álitið að dýr hafi ekki beina rökhugsun en stjórnist aðallega af frumhvötum og tilfinningum. Ef Siegel hefur rétt fyrir sér er það ein af frumhvötunum að víma sig.
Dr. Bruce Alexander starfar í Vancouver í Kanada. Það var hann sem gerði rottugarðstilraunina frægu, The Rat Park Experiment. Hann ánetjaði rottur á heróíni og kókaíni í litlum búrum. Þegar rotturnar komu í rottugarðinn sem hann hafði gert héldu þær áfram að víma sig í nokkra klukkutíma eða dag en hættu svo, allar með tölu. Alexander marg endurtók tilraunina með ýmsum afbrigðum því hann vildi vera viss um að niðurstaðan héldi samkvæmt öllum vísindalegum stöðlum. En það var sama hvaða afbrigði var af tilrauninni, bæði í magni og fjölbreytni efna. Niðurstaðan var alltaf sú sama. Þegar rotturnar voru teknar úr fráhrindandi og einhæfu umhverfi og settar í rottugarðinn misstu þær áhugann á því að víma sig því þær höfðu um annað að hugsa. Svo Alexander læknir dró þá ályktun að umhverfi og kringumstæður hefðu meira að segja en efnin sjálf með tilliti til fíknar. Og rottugarðstilraunin skaut frekari stoðum undir ályktunina.
Þetta segir okkur tvennt. Í fyrsta lagi að umhverfis- og félagslegir (set and setting) þættir hafa meiri áhrif á neyslu heldur en efnið sem neytt er. Í öðru lagi að ef mannskepnan hefur markmið og tilgang hafa fæstir nokkurn áhuga á að liggja í neyslu alla daga, kannski af því það tefur og hindrar þátttöku í lífinu sjálfu sem gefur meira þegar til lengri tíma er litið. Undir þetta tekur Lance Dodes, sálfræðingur við Harvard læknaháskólann í þeirri deild sem fæst við að skoða fíkn sem lét hafa eftir sér á prenti að „fíkn sé vandamál fólks, ekki vímugjafans eða hvaða áhrif hann hefur“. Dodes hefur rannsakað fíkn í mörg ár og er m.a. höfundur The Sober Truth, The Heart of Addiction og Breaking Addiction. Mér sýnist samkvæmt því sem hér er upp talið að fíkn sé aðlögun. Fíkn er ekki þú, fíkn er búrið sem þú ert í.
En hvers vegna getur þessi þörf, að víma sig, leitt til fíknar? Það er, að einstaklingur verði svo heltekinn af löngun í efni eða ástand að ekkert annað komist að í lífinu? Þegar maður er orðinn fíkill held ég að hann sé að leita fróunar. Sumir mundu kalla það flótta frá lífinu en það er ekki alls kostar nákvæmt. Flóttinn snýst um líkn frá ástandi, kringumstæðum, ótta, reiði og örvæntingu, ekki lífinu sjálfu. Fíklar eru ekki geimverur, þeir eru hluti þjóðfélagsins. Jaðarsettur hluti.
Það er vísindaleg staðreynd að um 90% þeirra sem víma sig eiga ekki í neinum vandamálum með sína neyslu. Ekki frekar en heimiliskötturinn sem situr um að komast í garðabrúðu, Valeriana officialis. Þetta er meira að segja viðurkennt af UN Office on Drug Control en það er sú stofnum hinna sameinuðu þjóða sem er arkitekt að og hefur umsjón með fíknistríðinu. Lang harðskeyttasti fíkni-zarinn hjá bandarískum stjórnvöldum, William Bennett, sagði: „Non addicted users still comprise the vast bulk of our drug involved population.“
En hvað þýðir þetta? Að vímuþörfin sé ein af frumhvötunum eins og löngun í mat, í vökva og kynlíf? Andrew Weil læknir segir einhvers staðar að þessi þörf sé svo almenn og áberandi að hún hljóti að vera ein af frumhvötum mannsins og prófessor Siegel tekur undir það og fullyrðir að hún sé „fjórða þörfin“ og sé „líffræðilega óhjákvæmileg“. Þessi þörf uppfylli löngunina fyrir frelsi og létti, þótt ekki sé nema augnablik. Undir þetta tekur Gabor Maté læknir og vísindamaður sem að öðrum ólöstuðum veit kannski mest allra núlifandi manna um fíkn. „Fíkn,“ segir Gabor læknir, „á alltaf upptök sín í sársauka, hvort heldur hann er sýnilegur eða falinn í undirmeðvitundinni“.
Það er almennt viðurkennt af vísindamönnum að allar lífverur stjórnist af efnaboðum. Í spendýrum er það heili og ýmsir innkirtlar sem framleiða þessi efni. Þetta eru efni eins og endorfín, dópamín, adrenalín, oxytósín, kynhormónar og fleiri og það er athyglisvert að mörg eða jafnvel flest þessara efna finnast líka í flórunni. Sem staðfestir að maðurinn sem dýr þróaðist í sambýli við flóruna því það er nokkuð ljóst að hann þróaðist ekki í lofttæmi óháður umhverfi sínu.
Þetta þýðir að mínu viti að þessi eiginleiki sem spekingar hafa kallað fíkn er órjúfanlegur hluti af efnabúskap mannsins. Rétt eins og löngunin í mat, vöka og kynlíf. Ég veit ekki um aðra en mér finnst fáránlegt að reyna að banna eða stjórna frumlöngunum með lagabókstaf. Eða mundi einhverjum detta í hug að banna fólki að borða, drekka eða eðla sig? Þess vegna eigum við að fagna þessum eiginleika, ræða hann, einkum hvað hann þýðir og hvaða leiðir eru færar til að nýta okkur hann. Læra á hann.
Maðurinn er nú einu sinni bara dýrategund, ein af mörgum á jarðkúlunni, og stjórnast af sömu lögmálum efnafræði og rafboða. Ef maðurinn er með móttakara í heila sem virkja áhrif af plöntu gefur auga leið að einhver not telur heilinn sig hafa af neyslunni. Svo af hverju má ekki nýta þessa reynslu ef hægt er að gera það áhættulaust? Það er ástæða fyrirsagnar þessarar greinar. Ég elska vímuefni og nota þau mér til ánægju. Sum hver daglega og jafnvel oft á dag eins og koffín, nikótín og sykur og hef ekkert á móti rauðvínsglasi með góðri steik.
Höfundur er áhugamaður um sögu menningarbundnar vímuefnanotkunar.
Athugasemdir (1)