Tuttugu lífeyrissjóðir segja að áform Bjarna Benediktssonar fjármála- og efnahagsráðherra, um slit og uppgjör á ÍL-sjóði, séu til þess fallin að kasta rýrð á orðspor íslenska ríkisins og trúverðugleika á fjármálamarkaði, þau byggi á ófullnægjandi greiningu á lagalegum og fjárhagslegum þáttum og feli í sér tilraun til að sniðganga fjárhagslegar skuldbindingar ríkisins.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sjóðanna, sem hafa í dag sameiginlega lagt fram athugasemdir í samráðsgátt stjórnvalda við áformin, sem voru kynnt þar 31. mars.
Í athugasemdum lífeyrissjóðanna segir einnig að áformin gætu raskað jafnvægi á fjármálamarkaði með ófyrirséðum afleiðingum fyrir eignaverð og hagsmuni fjárfesta. Áform ráðherra séu því illa ígrunduð og geti kostað ríkið umtalsverðar fjárhæðir auk langdreginna málaferla bæði innanlands og erlendis.
Í athugasemdum sjóðanna segir að umfjöllun í áformaskjalinu um „einfalda“ ábyrgð ríkisins á skuldbindingum ÍL-sjóðs sé villandi og það sé umfjöllun í skjalinu um óvissu um efndir íslenska ríkisins á skuldabréfunum sömuleiðis.
„Enginn vafi leikur á að kröfur lífeyrissjóðanna til framtíðarvaxta af skuldabréfunum teljast til eignar og njóta sem slíkar verndar stjórnarskrár og Mannréttindasáttmála Evrópu. Löggjöf sú sem áformuð er um slit á ÍL-sjóði með þeim afleiðingum að lífeyrissjóðirnir fengju uppgjör miðað við verðbættan höfuðstól og áfallna vexti en færu á mis við vaxtagreiðslur til lokagjalddaga skuldabréfanna fæli í sér eignarnám í skilningi 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar. Hún þyrfti því að uppfylla skilyrði stjórnarskrár um m.a. almenningsþörf,“ segir í samantekt yfir athugasemdir lífeyrissjóðanna.
Þar segir sömuleiðis að „útilokað“ sé að sá vandi sem ríkið sendur frammi fyrir og lýst sé í áformaskjali sé þess eðlis að kröfur um almenningsþörf séu uppfylltar. „Í dómaframkvæmd Hæstaréttar eða Mannréttindadómstóls Evrópu eru ekki dæmi um svo víðtæka heimild löggjafans til bótalausra eignaskerðinga af því tagi sem hér um ræðir og við sambærilegar aðstæður,“ segir í samantekt sjóðanna.
Einnig segja sjóðirnir að sú þversögn sem felist í því, að fyrirhuguð löggjöf um slit ÍL-sjóðs muni spara íslenska ríkinu hundruð milljarða í uppgjöri við kröfuhafa án þess að kröfuhafarnir verði sjálfir fyrir nokkru tjóni, sé sláandi.
Í niðurlagi athugasemdanna er skorað á ráðherra um að falla frá áformum sínum um lagasetningu.
Sjóðirnir sem standa að athugasemdunum og fólu lögfræðistofunni Logos að taka þær saman eru Almenni lífeyrissjóðurinn, Birta lífeyrissjóður, Brú lífeyrissjóður starfsmanna sveitarfélaga, Eftirlaunasjóður F.Í.A., Festa lífeyrissjóður, Frjálsi lífeyrissjóðurinn, Gildi lífeyrissjóður, Íslenski lífeyrissjóðurinn, Lífeyrisauki, séreignasjóður, Lífeyrissjóður bankamanna, Lífeyrissjóður Rangæinga, Lífeyrissjóður starfsmanna Búnaðarbanka Íslands hf., Lífeyrissjóður starfsmanna Reykjavíkurborgar, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, Lífeyrissjóður Tannlæknafélags Íslands, Lífsverk lífeyrissjóður, Lífeyrissjóður verslunarmanna, Lífeyrissjóður Vestmannaeyja, Stapi lífeyrissjóður og Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda.
Telur Bjarni sig vera göldróttan og að hann geti með einfaldri aðgerð sparað ríkinu hundruð milljarða án þess að það komi niður á öðrum? Ja hérna, nú hlýtur að vera kominn tími á Bjarna.
Það hefur verið Bjarna mikið keppikefli að lækka skuldir ríkisins og hafa innviðir verið í svelti ekki síst þess vegna. Að horfast í augu við að skuldir Íbúðalánasjóðs sem sjóðurinn getur ekki greitt eru skuldir ríkisins er því meira en Bjarni getur sætt sig við.
Þetta er erfitt mál fyrir Bjarna vegna þess að hann ásamt öðrum ber ábyrgð á þeim lögum sem sköpuðu þetta ástand þrátt fyrir alvarlegar viðvaranir um að mál gætu þróast einmitt eins og nú blasir við.
Það fylgir því mikil orðsporsáhætta fyrir ríkið að hlaupa frá ríkisábyrgð. Lánskjör ríkisins munu óhjákvæmilega versna og mikill kostnaður falla á ríkið vegna málaferla innanlands og erlendis.
Svo er mjög sérstakt að Bjarni vilji að lífeyrissjóðir taki á sig skuldbindingar ríkisins en ekki sjávarútvegsfyrirtæki, orkufyrirtæki og auðmenn sem geta hæglega staðið undir þessum skuldbindingum í formi skatta.
Rett hjá Àsmundi! Svo er mjög sérstakt að Bjarni vilji að lífeyrissjóðir taki á sig skuldbindingar ríkisins en ekki sjávarútvegsfyrirtæki, orkufyrirtæki og auðmenn sem geta hæglega staðið undir þessum skuldbindingum í formi skatta.