„Það má velta því fyrir sér hvort þetta sé einhvers konar kapítalísk snilli eða bara hugmynd sem vekur óþægileg hugrenningatengsl við aðrar fjármálaafurðir eins og vafninga, en skilyrði þess að kerfi með upprunaábyrgðir þjóni markmiði sínu er að það sé aðeins gefin út ein upprunaábyrgð á hverja einingu eða hverja megavatta stund.“
Þetta sagði Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, þegar hún spurði Guðlaug Þór Þórðarson, umhverfis-, orku og loftslagsráðherra, út í það kerfi sem heldur utan um sölu og upprunaábyrgð raforku í þingi í dag.
Þórunn sagði að upp væri komin upp vandræðaleg staða fyrir Ísland sem raforkuframleiðanda vegna hættu á tvítalningu upprunaábyrgðar.
Töluvert hefur verið fjallað um sölu á raforku undanfarin misseri en skráning slíkra viðskipta þykir ekki nógu skýr. Þórunn spurði ráðherra hvort við værum „komin þangað að öll fyrirtæki sem selja vöru og fullyrða að hún sé framleidd með grænni raforku þurfi framvegis og kaupa vottaða upprunaábyrgð?“.
Guðlaugur Þór svaraði Þórunni og sagði þætti málsins vera í skoðun og benti á að fyrirkomulagið væri komið frá Evrópusambandinu. „Þetta er ekki kapítalisminn, þetta er Evrópusambandið.“ Ráðherra lagði áherslu á að afla þyrfti upplýsinga um málið þar sem miklir hagsmunir væru undir en þátttaka fyrirtækja byggðist á EES-samningnum.
Þegar Þórunn tók aftur til máls minnti hún á að þátttaka í þessu kerfi væri valkvæð. „Það eru kapítalistar úti um allt líka í Evrópusambandinu,“ sagði hún og ítrekaði að íslensk fyrirtæki ættu ekki að hljóta tjón af núverandi fyrirkomulagi.
Orkumálaráðherra bað þingmanninn að halda sig hæga er hann steig aftur til pontu en Þórunn hafði vísað ábyrgð á hann. Ráðherra sagði fyrirtæki taka ábyrgð á sínum gjörðum. „[Ég] hef oft beitt mér fyrir því að hjálpa þeim sem minnst mega sín í þessu samfélagi og mun halda því áfram. Þessi fyrirtæki eru ekki þar…,“ sagði ráðherra og undirstrikaði að ræða þyrfti fyrirkomulagið betur.
Athugasemdir (1)