Þegar mótmæli gegn Kárahnjúkavirkjun stóðu sem hæst heyrði ég orðið tilfinningarök svo oft að ég veitti því fyrst athygli. Um hríð hafði kona lagt í vana sinn að valsa út í hádeginu og mótmæla fyrir framan Alþingishúsið ásamt hópi sem samanstóð oft af sama fólkinu. Þarna voru oftast einhverjir listamenn og rithöfundar – reyndar líka hinir og þessir vísindamenn – en líka alls konar fólk úr ýmsum fögum og stéttum samfélagsins – eins og ég man þetta. En það að listamenn og rithöfundar væru áberandi í gagnrýni á virkjunina – gagnrýni sem var ekki síður byggð á gögnum og ályktunum frá vísindafólki en tilfinningum – átti sennilega sinn þátt í að orðið tilfinningarök var notað svo oft að kona varð hugsi yfir því. Og kannski líka því meðal mótmælenda voru fjölmargar konur með litríkar lopahúfur, svolítið eins og í bíómyndinni About a boy, byggðri á bók eftir Nick Hornby með Hugh Grant í aðalhlutverki.
Svokölluð nytsemisrök voru notuð gegn svokölluðum tilfinningarökum – þannig að upplifunin var skynsemi gegn rómantík. Í fjölmiðlum las maður kaldhæðna penna skrifa sitthvað um fólk sem stjórnaðist af tilfinningarökum og einhver, tímann hnaut ég um þau ummæli að það væru aðallega móðursjúkar skáldkonur sem væru að standa í þessu og vissi ekki alveg hvort væri meira niðrandi: Að vera skáld eða kona. Það að flokkast undir að vera móðursjúk skáldkona, ófær um að setja fram rök öðruvísi en á valdi tilfinninga, hafði auðvitað tilskilinn fælingarmátt. Hver vildi vera þannig, svona ósmart, í upphafi nýrrar aldar, fyrir Hrunið og allt?
Nú skrifa ég þessi orð út frá tilfinningalegri skynjun. Ég hef engin gögn í höndunum sem rökstyðja minningar í móðu tímans. Ég man bara þessa skynjun. Að finnast ég vera sett niður af því ég var rithöfundur (lesist skáldkona) á valdi tilfinninga (lesist: að beita fyrir mig rökum á tilfinningasaman hátt – sem sum hver voru beint úr ályktunum menntaðra sérfræðinga) og móðursjúk (lesist: því ég var kona). En ég skrifa þetta eins og mér FINNST að það hafi verið.
Á þessum sirka tveimur áratugum sem eru liðnir síðan hefur orðið öðlast mun meiri virðingu og þunga á jákvæðan hátt. Eftir Metoo-vakninguna og hraðar viðhorfsbreytingar á ýmsum sviðum sem hafa hreyft hratt við samfélaginu, ekki síst vegna samfélagsmiðla og breytts tíðaranda, þá getum við nú stigið fram og tjáð upplifun okkar án þess að einhver dragi upp skilti með áletruninni MÓÐURSJÚK!
Einhvern veginn finnst mér – já, finnst! – eins og það yrði síður notað gegn mér í málflutningi í dag að ég væri að nota tilfinningarök. Ég hef rétt á mínum gildisdómum. Já, rétt á að tjá upplifun mína, og get búist við að fá lágmarks hljómgrunn, svo fremi það sé einhver innistæða fyrir henni. Held ég allavega! Það má jú segja að við byggjum samfélagslega sáttmála um siðferði og gildismat að mörgu leyti á tilfinningarökum. Og þetta er jú skrifað sem pistill á sérstökum menningarsíðum þar sem fjallað er um list og sú umfjöllun kemst ekki hjá því að byggja töluvert á túlkun tilfinningalegra skynhrifa. Við sjáum, heyrum, skynjum listaverk – og finnum fyrir því í tilfinningum okkar.
Listaverk er til í eins mörgum útgáfum og þeir sem það upplifa. Skynjun viðkomandi ljáir hverju verki sérstöðu. Svona má endalaust ranta. En opnuviðtalið á menningarsíðunum að þessu sinni er viðtal við kvikmyndagerðarmanninn Ólaf Sveinsson, sem frumsýndi nýlega í Bíó Paradís tvær kvikmyndir um Kárahnjúkavirkjun og áhrifasvæði hennar fyrir framkvæmdirnar – og eftir þær. Við að lesa gagnrýni hans á framkvæmdirnar, sem byggja mikið til á vísindalegum grunni, rifjaðist upp fyrir mér þetta orð tilfinningarök og hvernig það var notað í blábyrjun aldarinnar – þegar maður ólgaði af tilfinningum í mótmælum, um leið og þessar tilfinningar kviknuðu að miklu leyti eftir að hafa lesið gagnrýna umfjöllun sérfræðinga. Að mínu mati bjó bæði hugsun og tilfinning í afstöðu manns. Og tilfinningarök vega jú líka þungt sem rök fagurfræði minnar og gildismats. En tilfinningin sem ég sat eftir með á sínum tíma var að skynjun mín og túlkun hennar væru ekki bara verðlaus heldur mögulega sjúk – samanber móðursjúk. Ég fór að velta fyrir mér hvort orðið tilfinningarök blasi öðruvísi við í dag en í blábyrjun aldarinnar. Og um leið þýðingu þess. Hvað eru tilfinningarök? Er eitthvað að marka það sem mér finnst?
Til að svara þessari spurningu heyrði ég í einum íslenskufræðingi og einum sálfræðingi – og bað þá báða um að senda mér nokkur orð um hvernig þeir skilja og greina orðið. Já, hvað segir tilfinningin þeim?
Rödd hjartans
Samkvæmt orðanna hljóðan þá eru tilfinningarök þau rök sem studd eru tilfinningum. Hér áður fyrr var algengt að orðið væri notað sem skammaryrði, neikvætt, og þá andstæða við alvörurök sem væru studd vísindum og skynsemi, skynsemisrök. Í því fólst sú skoðun að tilfinningarök væru afstæð, breyttust eftir því hver talaði, væru persónubundin og því ekki gjaldgeng í alvöru umræðu. Oft notaði fólk þetta um málstað sem það var andsnúið, til dæmis í sambandi við náttúruvernd sem oft væri studd tilfinningarökum („við eigum að vernda landið af því það er fallegt og mér þykir vænt um það“) sem ekki væri mark á takandi. Þá minnist ég þess þegar Frakkinn Gervasoni sótti hér um landvistarleyfi í upphafi níunda áratugarins til þess að komast hjá herskyldu í heimalandinu, að þeir sem studdu umsókn hans voru sakaðir um tilfinningarök og um þann þingmann sem vaskast studdi hann, Guðrúnu Helgadóttur, var sagt að hún væri óhæf til ráðherradóms því hún styddist iðulega við tilfinningarök. Undirtextinn er semsé að slík rök séu ógrunduð, styðjist lítt við skynsemi og of persónuleg.
Það eru nefnilega oft kölluð tilfinningarök þegar til stendur að gera eitthvað sem flestir hafa á tilfinningunni að sé með einhverjum hætti rangt, til dæmis sökkva landi, hafna landvistarleyfum flóttamanna o.s.frv. Þetta passar við að stundum er talað um að fólk skuli hlusta á sína innri rödd, „rödd hjartans“. Þar er ef til vill uppsprettu tilfinningaraka að finna, en þeim hefur vaxið ásmegin síðustu áratugi, ef til vill í samhengi við aukna virðingu fyrir tilfinningagreind, sem er náskyld og af sama meiði.
Gera sér grein fyrir hvað tilfinningin er í raun að segja
Lengi vel var litið svo á í sálfræðinni að tilfinningar og skynsemi væru tveir aðskildir hlutir. Stóra fyrirmyndin er hin þekkta setning Descartes „Cogito ergo sum“ – „Ég hugsa, þess vegna er ég“, það er, ég tek ákvarðanir án þess að taka tilfinningar með inn í myndina. Taugavísindamaðurinn Antonio Damasio sneri þessu á rönguna með rannsóknum sínum og sagði: „Ég finn, þess vegna er ég.“ Það sem rannsóknir hans og annarra hafa sýnt fram á er að hugsanir og tilfinningar eru nátengd fyrirbæri, nánar tiltekið á þann máta að án tilfinningakerfisins okkar getum við ekki tekið skynsamlegar ákvarðanir.
Þegar talað er um að beita tilfinningarökum er oftast átt við að við hegðum okkur í samræmi við tilfinningar okkar án þess að beita skynseminni. Dæmi: „Ég er kvíðinn og þar af leiðandi er eitthvað slæmt að fara að gerast.“ Við það eykst kvíðinn og við grípum gjarnan til hegðunar sem ekki er í samræmi við aðstæður og er því óuppbyggileg fyrir okkur.
Leiðin út úr þessari tilfinningagryfju er að gera sér grein fyrir því að tilfinningar kvikna út frá upplifun okkar á aðstæðum og kjarni upplifunarinnar er einhver hugsun, oftast ómeðvituð. Með kvíðann er það að eitthvað í aðstæðunum gerir mig óöruggan. Spurningin er þá “ hvað gerir mig óöruggan? Dæmi: Ég er að fara í próf sem mig langar til að standa mig vel í. Ég veit ekki hvernig útkoman verður og hvernig er þá uppbyggilegt að túlka kvíðann? Jú, kvíðinn gefur mér til kynna að það er mér mikilvægt að standa mig vel. Kvíðinn er merki um mikilvægi. Gott og vel. Kvíðinn er þannig ekki að segja mér að mér komi til með að ganga illa, heldur hreinlega að ég vilji standa mig vel. Og hvernig geri ég það? Undirbý mig vel, skipulegg mig, passa upp á svefninn minn o.s.frv. Með því að skilja kvíðann á þennan máta og fylgja honum hámarka ég líkurnar á því að mér gangi vel. Þetta er að taka á kvíðanum af skynsemi. Skynsemi og kvíði vinna saman mér til gagns.
Ef ég hins vegar beiti tilfinningarökum, það er ég fer ekki til baka í upplifunina sem kveikti kvíðann og túlka hana rétt, þá myndi ég kannski hætta við að fara í prófið, gefa mér fyrir fram að það gangi illa og þá gengur mér væntanlega illa.
Tilfinningarökin eru þannig að mistúlka kvíðann og ég reyni þar af leiðandi að forðast aðstæður sem yfirleitt er ekki rétta leiðin. Og þar koma vandræðin. Lausnin: að rekja sig til baka í ferlinu, hvað vakti tilfinninguna og dvelja síðan í því til að gera sér grein fyrir hvað tilfinningin er í raun að segja mér. Skynsemin/rökin felast í að fara í upplifunina, bæta tilfinningunni við, og taka síðan ákvörðun út frá samvinnu hugsunar og tilfinningar. Ég er vera sem hugsar, hef tilfinningar og með því að blanda þeim saman kemst ég að skynsamlegri niðurstöðu.
Athugasemdir