Alls eru 44,2 prósent landsmanna fylgjandi því að Íslandi gangi í Evrópusambandið samkvæmt könnun sem Maskína gerði fyrir Evrópuhreyfinguna í lok apríl. Hlutfall þeirra sem eru fylgjandi inngöngu hefur aldrei mælst hærra í könnunum sem Maskína eða fyrirrennari hennar MMR hafa gert.
Þeir sem eru á móti inngöngu mælast nú 33,3 prósent og fækkar um þrjú prósentustig frá síðustu könnun, sem gerð var í febrúar.
Hlutfall þeirra sem eru fylgjandi því að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort Ísland eigi að ganga í sambandið hefur vaxið hratt undanfarið, og mælist nú 59 prósent. Það hlutfall var 48 prósent í könnun sem gerð var í desember í fyrra.
Nýja könnunin var gerð dagana 24. til 28. apríl 2023 og voru svarendur 2.343 talsins.
Þetta er fimmta könnunin sem gerð hefur verið undanfarið rúmt ár sem sýnir fleiri fylgjandi því að ganga í Evrópusambandið en eru á móti því.
Í mars í fyrra birtust niðurstöður úr Þjóðarpúlsi Gallup sem sýndu að 47 prósent landsmanna væru hlynnt aðild að Evrópusambandinu en 33 prósent mótfallin henni. Það var í fyrsta sinn frá árinu 2009 sem meirihluti mældist fyrir aðild í könnunum hérlendis.
Hlutfall þeirra sem eru hlynntir inngöngu Íslands í sambandið hafði raunar ekki mælst meira en rúmlega 37 prósent í mánaðarlegum könnunum sem MMR framkvæmdi frá 2011 og út árið 2021. Í síðustu könnun fyrirtækisins, sem var gerð í desember það ár, mældist stuðningurinn 30,4 prósent en 44,1 prósent voru á móti. MMR rann svo inn í Maskínu Kannanirnar sem gerðar hafa verið undanfarið ár eru því þær fyrstu sem fyrirtækið gerir sem sýna meirihluta fyrir aðild.
Í könnun Prósents í júní í fyrra var niðurstaðan svipuð og hjá Gallup í mars, 48,5 prósent sögðust hlynnt aðild en 34,9 prósent voru andvíg. Alls 16,7 prósent sögðust ekki hafa neina skoðun á málinu.
Í nóvember birtist önnur könnun Prósents þar sem kom fram að alls 42,8 prósent landsmanna sögðust vera hlynnt inngöngu Íslands í Evrópusambandið en 35,1 prósent eru andvíg því og 22,1 prósent voru óviss um afstöðu sína.
Athugasemdir (2)