Löggæsla á leiðtogafundi Evrópuráðsins sem fram fer í Hörpu 16. og 17. maí verður af þeirri stærðargráðu sem hefur ekki sést áður á Íslandi. Fundurinn er sá umfangsmesti sem haldinn hefur verið hér á landi. 44 af 46 þjóðarleiðtogum hafa staðfest komu sína.
Löggæslan mun hafa töluverð áhrif á miðborgina og nánasta nágrenni, meðal annars með víðtækum götuokunum. Svæðið í kringum Hörpu og í Kvosinni verður lokað fyrir umferð almennra ökutækja, nema viðbragðsaðila, frá klukkan 23 mánudaginn 15. maí til klukkan 18 miðvikudaginn 17. maí. Hægt verður að fara um svæðið gangandi og á hjóli. Það á hins vegar ekki við um svæðið næst Hörpu, sem verður lokað almenningi.
Utanríkisráðuneytið, Reykjavíkurborg og lögreglan sjá um skipulagningu götulokana á meðan fundinum stendur en samkvæmt upplýsingum frá stjórnarráðinu er enn von á upplýsingum um ráðstafanir fyrir hreyfihamlaða.
Meðal möguleika sem eru til skoðunar er að bíll frá akstursþjónustu fatlaðra fái leyfi til að aka innan lokaða svæðisins og í honum verði lögreglumaður ásamt farþegum.
„Þetta hefur verið orðað við mig já að hugsanlega komi til greina. Ég geri ráð fyrir að eiga eitthvert samtal um þetta,“ segir Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalags Íslands, í samtali við Heimildina.
„Við erum ekki vön því að allt er tekið úr sambandi og fólk komist ekki heim til sín eða út í búð nema í lögreglufylgd. Við erum ekki vön þessu og auðvitað hugsar maður ýmislegt. Þetta getur verið erfitt fyrir ákveðinn hóp fatlaðs fólks,“ segir hún.
Óljóst er hvaðan hugmyndin kemur upphaflega. Í svari lögreglunnar við fyrirspurn Heimildarinnar segir einfaldlega að verið sé „að leggja lokahönd á útfærslu á þessum málum“ og að útfærslan verði vel kynnt um leið og hún liggur fyrir. Götulokanir vegna leiðtogafundarins hefjast að kvöldi 15. maí, eftir eina viku.
„Þetta eru léleg vinnubrögð“
Ráðstafanir fyrir hreyfihamlaða vegna götulokana á meðan leiðtogafundurinn fer fram voru á dagskrá aðgengis- og samráðsnefndar í málefnum fatlaðs fólks í Reykjavík síðastliðinn fimmtudag. Útfærslan er hins vegar ekki klár og því gafst lítið færi á að ræða aðgengismál.
„Það er greinilegt að aðgengismál fatlaðra eru einhver afgangsstærð.“
„Þetta eru léleg vinnubrögð, það var slæmt að geta ekki spurt spurninga eða komið okkar athugasemdum á framfæri,“ segir Elísabet Guðrúnar Jónsdóttir, varaborgarfulltrúi Pírata og formaður aðgengis- og samráðsnefndar í málefnum fatlaðs fólks. Bókun var lögð fram á fundinum þar sem gagnrýnt var að ráðstafanir fyrir hreyfihamlaða liggja ekki fyrir svo stuttu fyrir fundinn.
„Það er greinilegt að aðgengismál fatlaðra eru einhver afgangsstærð í þessu,“ segir Elísabet. Um tillöguna að fólk með fötlun þurfi lögreglufylgd vegna götulokana spyr Elísabet hvort það sendi ekki þau skilaboð að fólk með fötlun sé tortryggilegt. „Mér finnst frekar fáránlegt ef það er talin þörf á því að fatlað fólk verði í lögreglufylgd, það stafar ekki ógn af þeim. Það þurfa auðvitað vera öryggisráðstafanir en mér finnst þetta vera full langt gengið.“
Ekki fordæmi fyrir lögreglufylgd fólks með fötlun
Þuríður veit ekki til þess að fordæmi séu fyrir því að lögreglumaður fylgi fólki með fötlun sem þarf að komast milli staða á svæðum sem lokað er fyrir almennri umferð. „Ekki svo ég viti til.“ Hún kallar eftir því að niðurstaða fáist sem fyrst.
„Ég held að hljóti að þurfa að koma niðurstaða bráðlega svo hægt verði að kynna þær fyrir þeim sem þurfa á sérstökum úrræðum að halda, svona í ljósi þess hversu stutt er í þetta,“ segir Þuríður.
Uppfært klukkan 10:21:
Upplýsingar á vef Stjórnarráðsins hafa verið uppfærðar þar sem finna má upplýsingar um hvernig hreyfihamlað fólk mun komast ferða sinn innan lokaða svæðisins. Þar kemur fram að sérútbúinn bíll frá akstursþjónustu fatlaðra, Pant, verður staðsettur við Ráðhús Reykjavíkur.
Allur akstur innan lokaða svæðisins mun fela í sér lögreglufylgd. „Milliganga lögreglumanna er ekki síst til þess að tryggja að aksturinn inni á lokunarsvæðinu gangi snurðulaust fyrir sig þar sem mikil öryggisgæsla verður í gangi,“ segir í svari frá utanríkisráðuneytinu.
Athugasemdir