Ég hef klæðst sömu buxum í tvö ár. Þú ímyndar þér gallabuxur: Rangt. Buxurnar eru svartar úr teygjanlegu efni, að aftan eru rassvasarnir eins og á sparibuxum og að framan er klauf með rennilás – eins og á gallabuxum.
Í tvö ár hafa Einar buxur reynst mér betur en flestir vinir mínir. Saman höfum við gengið upp að eldgosi, borðað á KFC, syrgt í jarðarför, setið á námsbekk, sungið í karókí og nefnt son minn (sem heitir ekki Einar). En hvernig gat þetta gerst?
Ég gæti slegið um mig, kallað þetta „lífsstíl“ sem er sprottinn úr nýjustu straumum og stefnum nútímans: mínímalisma, hægri tísku, Góða hirðinum eða síðbúinni uppreisn gegn foreldrum mínum sem nota alltof margar buxur.
Ég gæti látið ástæðuna snúast um stétt: Hef ég efni á fleiri buxum? „Já og nei“, myndi ég svara. „Nýjar buxur kosta peninga sem ég á en þær kosta líka það sem ég á ekki: tíma. Mér líður eins og að það staðsetji mig í millistétt en þykjumst við ekki flest vera þar?“ spyr ég gáfulega á móti.
„Það er eins og öllum sé sama um það hvaða buxum ég klæðist, svo fremi sem ég klæðist buxum.“
Nei, þetta snýst ekki um lífsstíl eða stétt og í sannleika sagt veit ég ekki hvernig þetta gerðist, þetta gerðist bara. Í tvö ár hefur enginn tekið eftir því að ég sé í sömu buxum og síðast, þarsíðast eða þarþarsíðast og það er eins og öllum sé sama um það hvaða buxum ég klæðist, svo fremi sem ég klæðist buxum. Kannski mun fólkið sem stendur mér næst núna, eftir að ég hef skrifað þennan pistil, taka eftir buxunum (sem eru vel á minnst hreinar því ég á þvottavél).
Ég viðurkenni þó að stundum fyllist ég eftirsjá yfir því að hafa ekki keypt tvennar buxur, en þá væru þær ekki Einar.
Athugasemdir