Bandarísk stórfyrirtæki í tæknigeiranum snerta líf okkar flestra á hverjum einasta degi. Amazon, Google, Netflix, Apple og Meta/Facebook eru hreint óhemju fyrirferðarmikil í snjallvæddum heimi.
Í hlaðvarpsþáttunum Land of the Giants, sem hófu göngu sína árið 2019, hafa blaðamenn rýnt í sögu og stefnu áðurnefndra fyrirtækja og hvernig þau hafa skotið keppinautum á sínu sviði ref fyrir rass, svona að mestu leyti.
Undirliggjandi í nálgun þeirra sem rýna í fyrirtækin er það, sem margir ugglaust velta fyrir sér, hvort þau séu orðin of stór, of umlykjandi, of valdamikil.
Í umfjölluninni um Amazon var kastljósinu til dæmis beint að því hvernig fyrirtækið notfærir sér markaðsráðandi stöðu sína með því að framleiða og selja eigin vörur í samkeppni við þá fjölmörgu framleiðendur og smásala sem háðir eru Amazon um vettvang til að selja vörur sínar.
Er fjallað var um Google var meðal annars rýnt í hvort það væri mögulegt að vafra um netið án þess að það skilaði beint eða óbeint krónum í vasann hjá Google. Niðurstaðan: Það er hæpið.
Sjöunda og nýjasta serían af Land of the Giants fjallar svo um stefnumótaforrit á borð við Tinder, sem margir þekkja. Á yfirborðinu er nokkur samkeppni í þeim bransa vestanhafs, og alltaf eitthvað nýtt að bætast við.
Þegar markaðurinn er skoðaður nánar kemur hins vegar í ljós að flest mest notuðu ástar-öppin eru í eigu sömu aðila, Match.com-veldisins, sem hefur hjálpað fólki að finna ástina (eða eitthvað í þá áttina) allt frá árdögum internetsins og grætt morðfjár á meðan.
Athugasemdir