Tæplega helmingur vinnandi fólks á erfitt með að ná endum saman í ár, borið saman við tæplega þriðjung á síðasta ári. Fjárhagsstaða kvenna er verri en karla á öllum mælikvörðum, fjárhagsstaða innflytjenda er verri en innfæddra Íslendinga og hið sama má segja um fólk með erlendan bakgrunn. Verst standa einstæðar mæður en ríflega tveir þriðju þeirra eiga erfitt með að ná endum saman.
Þetta er meðal niðurstaðna umfangsmikillar spurningakönnunnar um stöðu launafólks á Íslandi sem gerð var meðal félaga í aðildarfélögum ASÍ og BSRB. Í könnuninni, sem ríflega 14 þúsund manns svöruðu, alls 8,5 prósent allra aðildarfélaga ASÍ og BSRB, var spurt um fjárhagsstöðu fólks, stöðu þess á húsnæðismarkaði, líkamlega og andlega heilsu, kulnun og réttindabrot á vinnumarkaði. Er þetta í þriðja sinn sem sambærileg rannsókn er lögð fyrir af Vörðu-Rannsóknastofnunar vinnumarkaðarins.
Tvöföldun á fjölda þeirra sem eiga mjög erfitt með að ná endum saman
45,7%
Könnunin sýnir að fjöldi þeirra sem eiga erfitt eða mjög erfitt með að ná endum saman tvöfaldast milli ára. Í sambærilegri könnun á síðasta ári svöruðu 6,5 prósent þátttakenda því til að þeir ættu erfitt með að ná endum saman en nú er hlutfallið 12,1 prósent. Þeir sem áttu mjög erfitt með að ná endum saman í fyrra voru 3,2 prósent en eru nú 7,2 prósent. Þeim sem eiga nokkuð erfitt með að ná endum saman fjölgar líka, um 3,5 prósentustig, og er nú 26,4 prósent. Alls segjast því 45,7 prósent eiga erfitt með að ná endum saman.
Þegar niðurstöður könnunarinnar eru greindar eftir kyni kemur í ljós að fleiri konur en karlar eiga erfitt með að ná endum saman en karlar. Alls svöruðu tæp 46 prósent kvenna því til að þær ættu erfitt með það á móti tæpum 43 prósentum karla.
22%
Þá standa einstæðir foreldrar verr en aðrir fjárhagslega. Alls sögðu ríflega 62 prósent einstæðra foreldra að þau ættu erfitt með að ná endum saman. Verst allra standa einstæðar mæður en ríflega tvær þriðju þeirra eiga erfitt með að ná endum saman, 67,6 prósent, og þar af svöruðu ríflega 22 prósent þeirra því til að þær ættu mjög erfitt með að ná endum saman. Rúmur helmingur einstæðra feðra átti erfitt með að ná endum saman og þar af sögðu rúm 14 prósent að það væri mjög erfitt.
Innflytjendur standa illa
Niðurstöður könnunarinnar eru þá einnig brotnar niður eftir uppruna þátttakenda. Þar kemur í ljós að innflytjendur standa mun verr að vígi en innfæddir Íslendingar, og hið sama má segja um fólk með erlendan bakgrunn.
57%
Af þeim sem eru innfæddir hér á landi segjast tæp 39 prósent eiga í fjárhagslegum erfiðleikum, borið saman við 45 prósent þeirra sem eru með erlendan bakgrunn. Af innflytjendum svara hins vegar 57 prósent hinu sama til. Lítill munur er milli kynja þegar horft er til innflytjenda, rúm 57 prósent karla eiga erfitt fjárhagslega og tæp 57 prósent kvenna.
Í samhenginu var fólk einnig spurt um getu sína til að mæta óvæntum fjárhagslegum útgjöldum, upp á 80 þúsund krónur, án þess að þurfa að skuldsetja sig. Allt í allt svöruðu rúm 38 prósent aðspurðra því til að þau gætu ekki mætt slíkum útgjöldum. Talsvert fleiri konur voru ekki í stakk búnar til þess en karlar, 43 prósent borið saman við 34 prósent, og þá sögðust allt í allt 59 prósent einstæðra foreldra ekki geta mætt slíkum útgjöldum, þar af 64 prósent einstæðra mæðra.
Tíu prósent búa við efnislegan skort
Í könnuninni var spurt um efnislegan skort með því að biðja svarendur að taka afstöðu til níu staðhæfinga. Meðal þeirra voru staðhæfingar á borð við að heimilið hefði lent í vanskilum síðasta árið, gæti ekki mætt óvæntum útgjöldum, hefði ekki efni á nægjanlegri kyndingu auk annars. Þeir teljast búa við skort þar sem þrír þættir eiga við um heimili og þar sem fleiri þættir eiga við er um verulegan efnislegan skort að ræða.
Í ljós kom að í heild býr einn af hverjum tíu við efnislegan skort, þar af búa 5,7 prósent svarenda við efnislegan skort og 4,2 prósent við verulegan efnislegan skort. Á móti búa 54,6 prósent svarenda við engan efnislegan skort. Staða einstæðra mæðra er verst en 13,7 prósent þeirra búa við efnislegan skort og 12,1 prósent þeirra búa við verulegan efnislegan skort. Þá er staða innflytjenda umtalsvert verri en innfæddra. Alls búa 15 prósent innflytjenda við efnislegan skort borið saman við 7,6 prósent innfæddra.
Athugasemdir