Hrafnhildur Ásta Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Menntasjóðs námsmanna, fær tvö auka ár sem æðsti stjórnandi stofnunarinnar. Skipunartími framkvæmdastjóra Menntasjóðs, áður Lánasjóðs íslenskra námsmanna, er fimm ár. Hrafnhildur var skipuð árið 2013 og ætti skipunartíma hennar því að ljúka í ár, 10 árum eftir að hún tók við starfinu.
Svo er hins vegar ekki því þegar ný lög um Menntasjóðs námsmanna voru samþykkt sumarið 2020 endurskipaði Lilja Alfreðsdóttir, þáverandi menntamálaráðherra, hana í starfið til fimm ára. Lilja hafði einnig endurskipað Hrafnhildi Ástu í starfið til fimm ára árið 2018, áður en nýju lögin um Menntasjóð námsmanna voru samþykkt. Þetta þýðir að í staðinn fyrir að sitja í 10 ár og vera svo endurskipuð eftir atvikum mun Hrafnhildur Ásta að minnsta kosti gegna starfinu í 12 ár.
„Umfjöllun ráðuneytisins er ekki lokið og því ekki unnt að veita umbeðnar upplýsingar vegna takmarkana á upplýsingarétti almennings.“
Þetta kemur fram í svari háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytis Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, við spurningum Heimildarinnar. „Mennta- og menningarmálaráðherra ákvað að skipa Hrafnhildi Ástu Þorvaldsdóttur í embætti framkvæmdastjóra Menntasjóðs námsmanna til fimm ára frá og með 1. júlí 2020, sem er jafnframt gildistökudagur laga um Menntasjóð námsmanna, nr. 60/2020.“
Umdeild skipun fyrir 10 árum
Illugi Gunnarsson skipaði Hrafnhildi Ástu í starfið með umdeildum hætti þegar hann var menntamálaráðherra árið 2013. Hrafnhildur Ásta er frænka Davíðs Oddssonar, fyrrverandi forsætisráðherra og yfirmanns Illuga, og er hún auk þess systir Ólafs Barkar Þorvaldssonar sem skipaður var með umdeildum hætti í Hæstarétt Íslands fyrir tveimur áratugum.
Bæði voru skipuð í störfin af ráðherrum Sjálfstæðisflokksins, þrátt fyrir að aðrir umsækjendur hafi verið taldir betur til þess fallnir að gegna störfunum. Gengið var framhjá þeim umsækjendum.
Afturkalla þurfti áminningu vegna samskiptavanda sem Hrafnhildur Ásta fékk í umhverfisráðuneytinu til að hún gæti fengið starfið hjá LÍN.
Ráðuneytið svarar ekki um rannsóknina
Heimildin hefur greint frá því að nú standi yfir athugun á meintu einelti Hrafnhildar Ástu í garð fyrrverandi starfsmanns ráðuneytisins. Um er að ræða karlmann á fimmtudagsaldri sem kvartaði til ráðuneytisins undan einelti Hrafnhildar í sinn garð. Mál mannsins fór í athugun hjá sálfræðifyrirtækinu Líf og Sál sem komst að því í skýrslu að hann hefði orðið fyrir einelti í starfi. Starfslokasamningur var gerður við manninn fyrr á árinu.
Ráðuneytið neitar að upplýsa um stöðu rannsóknarinnar á hinu meinta einelti og vísar til takmarkana í upplýsingalögum. „Umfjöllun ráðuneytisins er ekki lokið og því ekki unnt að veita umbeðnar upplýsingar vegna takmarkana á upplýsingarétti almennings... “
Hrafnhildur Ásta hefur neitað ásökunum mannsins um einelti í svari til Heimildarinnar og hefur útskýrt hvernig málið horfir við sér í langri greinargerð.
Neitar að svara hvort brugðist hafi verið við ábendingum
Um er að ræða annað slíka málið sem ráðuneytið fær inn á sitt borð þar sem starfsmaður í Menntasjóði námsmanna hefur ásakað Hrafnhildi Ástu um einelti. Í hinu máli tilkynnti kona á sjötugsaldri um einelti til ráðuneytisins árið 2021. Gerð var sálfræðiskýrsla um hennar mál og komist að því að hún hafi orðið fyrir eineltistilburðum. Konan lét af störfum í Menntasjóði námsmanna í fyrra eftir 30 ára starf eftir að ráðuneytið komst að þeirri niðurstöðu að hún hefði ekki orðið fyrir einelti.
Í skýrslunni um mál konunnar voru ábendingar frá sálfræðifyrirtækinu, Auðnast, til háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins um hvernig væri hægt að bæta stjórnunarhætti í Menntasjóði námsmanna og bent á að auka þyrfti eftirlit með stofnuninni. Þar sagði: „Framkvæmdastjóri fái stjórnendahandleiðslu þar sem farið er yfir sálfélagslega þætti í tengslum við stjórnendahlutverk.“
Þegar ráðuneytið er spurt að því hvort Hrafnhildur hafi verið gert neitar það að svara og vísar til upplýsingalaga og þess atriðis að gæta beri trúnaðar um starfssambands framkvæmdastjóra Menntasjóðs og ráðuneytisins.
Telur ráðuneytið ekki þurfa að svara fyrir endurráðninguna
Þegar háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið er spurt um endurskipun Hrafnhildar Ástu árið 2018, sem gagnrýnd var opinberlega af Stúdentaráði Háskóla Íslands meðal annars, og um endurskipunina árið 2020 segir í svari þess að ráðuneytið geti ekki svarað fyrir eitthvað sem annar ráðherra gerði.
„Í spurningunni er vísað til endurskipunar frá árinu 2018, en á þeim tíma áttu málefni Lánasjóðs íslenskra námsmanna, forvera Menntasjóðs námsmanna, undir mennta- og menningarmálaráðuneyti. Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti var stofnað 1. febrúar 2022. Frá þeim tíma hafa málefni Menntasjóðs námsmanna heyrt undir það ráðuneyti og eðli málsins samkvæmt getur það ekki svarað fyrir ákvarðanir sem teknar voru af ráðherra í öðru ráðuneyti á árinu 2018.“
Hrafnhildur Ásta hefur því í reynd verið skipuð í starfið þrisvar sinnum. Fyrst árið 2013, svo aftur án auglýsingar árið 2018 og svo loks árið 2020 vegna lagabreytinganna á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna.
Athugasemdir