Í fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar vegna rekstrarársins 2022 var gert ráð fyrir að A-hluti borgarinnar, sá sem er fjármagnaður með skatttekjum, myndi skila 2,8 milljarða króna tapi í fyrra. Niðurstaðan í rekstri borgarinnar reyndist hins vegar allt önnur. Tapið á A-hlutanum var 15,6 milljarðar króna. Þar skeikaði 12,8 milljörðum króna.
Samstæðan í heild, A- og B-hlutinn, skilaði hins vegar sex milljarða króna hagnaði, sem var þremur milljörðum króna undir fjárhagsáætlun. Þar skipti mestu að matsbreytingar fjárfestingaeigna, sem eru þær 3.067 íbúðir sem Félagsbústaðir eiga, voru 21 milljarður króna í stað þeirra sex sem gert hafði verið ráð fyrir í áætlunum. Þetta gerðist vegna þess að íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði miklu meira en áætlanir gerðu ráð fyrir. Hér er þó um peninga sem ekki er hægt að ráðstafa nema með því að selja umræddar íbúðir, en Reykjavíkurborg er bakbeinið í félagslega húsnæðiskerfinu á höfuðborgarsvæðinu með nálægt 80 prósent alls slíks húsnæðis á svæðinu innan sinna marka.
Þetta má lesa úr ársreikningi Reykjavíkurborgar sem birtur var í dag.
Í tilkynningu frá borginni segir að þegar ljóst var að stefndi í að áætlanir myndu ekki standast vegna hækkandi verðbólgu og tafa á leiðréttingum frá ríkinu, hafi í byrjun september 2022 verið samþykktar í borgarráði aðgerðir til að takast á við halla í rekstri og önnur áhrif erfiðra skilyrða í ytra efnahagsumhverfi borgarinnar. „Dregið var úr fjárfestingum og þar með lántökuþörf. Gjaldskrár voru leiðréttar í ljósi aukinnar verðbólgu. Þá voru settar samræmdar reglur um ráðningar til að gæta aðhalds á því sviði. Fimm ára fjárhagsáætlun fyrir árin 2023-2027 sem samþykkt var í borgarstjórn 6. desember síðastliðinn tekur með sama hætti mið af erfiðri stöðu.“
Rekja tapið til verðbólgu og ríkisskuldar
Forsvarsmenn Reykjavíkurborgar segja að meginástæða þess að svona mikið tap hafi verið á A-hlutanum vera tvær. Annars vegar verðbólga og vaxtahækkanir sem hún hefur leitt af sér, sem hafi aukið fjármagnskostnað, aðallega vegna verðtryggðra lána, um margra milljarða króna. Hins vegar er um að ræða sá halli sem er á rekstri á málaflokki fatlaðra, en hann var 9,3 milljarðar króna á síðasta ári. Um er að ræða lögbundna þjónustu sem færð var frá ríkinu til sveitarfélaga fyrir rúmum áratug án þess að nægjanlegir tekjustofnar fylgdu með. Reykjavíkurborg metur þann halla sem er á rekstri málaflokksins, vegna þess að ríkið hafi ekki látið fjármagn fylgja skuldbindingum, á 35,6 milljarða króna á árunum 2011 til 2022.
Hinn hlutinn í rekstri borgarinnar, B-hlutinn, nær yfir afkomu þeirra fyrirtækja sem borgin á að öllu leyti eða að hluta. Fyrirtækin sem teljast til B-hlutans eru Orkuveita Reykjavíkur, Faxaflóahafnir sf., Félagsbústaðir hf., Íþrótta- og sýningahöllin hf., Malbikunarstöðin Höfði hf., Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins bs., Sorpa bs. og Strætó bs, auk Aflvaka hf og Þjóðarleikvangs ehf. Þessi hluti var rekinn langt yfir áætlun, en hagnaður af rekstri hans nam 21,5 milljarði króna. Stóra breytan þar var, líkt og áður sagði, miklar matsbreytingar á virði eigna Félagsbústaða.
Yfir skuldaviðmiði
Samkvæmt sveitarstjórnarlögum ber sveitarstjórn að sjá til þess að rekstri, fjárfestingum og ráðstöfun eigna og sjóða sé þannig hagað á hverjum tíma að sveitarfélagið muni til framtíðar geta sinnt skyldubundnum verkefnum sínum.
Til að fullnægja þessari skyldu er sveitarfélögum gert að fylgja ákveðnum fjármálareglum. Þær fela í fyrsta lagi í sér svokallað jafnvægisviðmið, sem segir að samanlögð heildarútgjöld samstæðu til rekstrar á hverju þriggja ára tímabili megi ekki verða hærri en nemur samanlögðum reglulegum tekjum. Í öðrum lagi er svokallað skuldaviðmið, sem í felst að heildarskuldir og skuldbindingar samstæðu séu ekki hærri en 150 prósent af reglulegum tekjum.
Skuldaviðmið samstæðu Reykjavíkurborgar hefur verið að hækka nokkuð skarpt á skömmum tíma. Það var til að mynda 79 prósent árið 2019 en er nú 158 prósent. Það verður þó að taka fram að árið 2022 er fyrsta árið sem skuldir Orkuveitu Reykjavíkur eru taldar með við útreikninginn á skuldaviðmiðunum og hefur það umtalsverð áhrif. Án hennar væri skuldaviðmiðið 108 prósent.
Auk þess ætlar borgin sér að vaxa út úr þeirri stöðu sem nú er uppi með því að ráðast í sóknaráætlun í fjárfestingum.
Viðmiðið var hækkað tímabundið upp í 200 prósent með lögum sem Alþingi setti árið 2020 til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru. Sú heimild er sem stendur í gildi til loka árs 2025. Reykjavík hefur því út það ár að koma skuldaviðmiðinu aftur undir 150 prósent.
Óánægð en styðja samt meirihlutann
Þrátt fyrir fjárhagsstöðu borgarinnar og það að borgarstjórnarmeirihluti Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar sem myndaður var í fyrra hafi þurft að takast á við fjölmörg önnur erfið mál, til að mynda tengd leikskólum, myglu og snjómokstri, þá mælist sameiginlegt fylgi þeirra enn mjög svipað og flokkarnir fjórir fengu í síðustu kosningum.
Alls segjast 54,8 prósent aðspurðra í nýrri könnun Maskínu að þeir myndu kjósa einhvern flokkanna fjögurra sem mynda meirihlutann, en þeir fengu 56,4 prósent atkvæða í kosningunum í fyrra. Töluverð tilfærsla hefur þó orðið á fylgi á milli þeirra. Samfylkingin hefur bætt við sig tæpum sjö prósentustigum og mælist með 27 prósent fylgi. Viðreisn og Píratar hafa einnig bætt vel við sig en Framsóknarflokkurinn, undir stjórn Einars Þorsteinssonar verðandi borgarstjóra, hefur hrunið. Flokkurinn vann mikinn kosningarsigur síðast og fékk 18,7 prósent atkvæða. Nú segjast 5,1 prósent borgarbúa að það sé bara best að kjósa Framsókn.
Í könnuninni kemur einnig fram umtalsverð óánægja með frammistöðu meirihlutans. Alls sögðust 54,1 prósent aðspurðra að þeir teldu að hann hefði staðið sig illa og einungis 16,8 prósent töldu hann hafa staðið sig vel. Þessi óánægja virðist ekki gera kjósendur fráhverfa því að styðja áfram við meirihlutann, enda hefur minnihlutinn í borgarstjórn einungis bætt við sig tæpum tveimur prósentustigum samanlagt það sem af er kjörtímabili.
Sitjandi borgarstjóri, Dagur. B. Eggertsson, mælist ekki sérstaklega vinsæll. Einungis 11,3 prósent sögðu hann hafa staðið sig best borgarfulltrúa á kjörtímabilinu. Einungis sex prósent nefndu Einar, sem tekur við af Degi um komandi áramót.
Athugasemdir