Þessi grein birtist fyrir meira en ári.

Sá hluti Reykjavíkur sem fjármagnaður er með skattfé tapaði 15,6 milljörðum í fyrra

Sam­stæða Reykja­vík­ur­borg­ar skil­aði sam­tals sex millj­arða króna hagn­aði. Þar skipti mestu að virði rúm­lega þrjú þús­und íbúða í eigu Fé­lags­bú­staða hækk­aði langt um­fram spár. A-hluti borg­ar­inn­ar tap­aði hins veg­ar tæp­um 13 millj­örð­um króna meira en áætl­að hafði ver­ið.

Sá hluti Reykjavíkur sem fjármagnaður er með skattfé tapaði 15,6 milljörðum í fyrra
Borgarstjórinn Dagur B. Eggertsson er borgarstjóri Reykjavíkur og mun sitja í því embætti út þetta ár. Þá tekur Einar Þorsteinsson við. Mynd: Heimildin / Davíð Þór

Í fjár­hags­á­ætlun Reykja­vík­ur­borgar vegna rekstr­ar­árs­ins 2022 var gert ráð fyrir að A-hluti borgarinnar, sá sem er fjármagnaður með skatttekjum, myndi skila 2,8 milljarða króna tapi í fyrra. Niðurstaðan í rekstri borgarinnar reyndist hins vegar allt önnur. Tapið á A-hlutanum var 15,6 milljarðar króna. Þar skeikaði 12,8 milljörðum króna. 

Samstæðan í heild, A- og B-hlutinn, skilaði hins vegar sex milljarða króna hagnaði, sem var þremur milljörðum króna undir fjárhagsáætlun. Þar skipti mestu að matsbreytingar fjárfestingaeigna, sem eru þær 3.067 íbúðir sem Félagsbústaðir eiga, voru 21 milljarður króna í stað þeirra sex sem gert hafði verið ráð fyrir í áætlunum. Þetta gerðist vegna þess að íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði miklu meira en áætlanir gerðu ráð fyrir. Hér er þó um peninga sem ekki er hægt að ráðstafa nema með því að selja umræddar íbúðir, en Reykjavíkurborg er bakbeinið í félagslega húsnæðiskerfinu á höfuðborgarsvæðinu með nálægt 80 prósent alls slíks húsnæðis á svæðinu innan sinna marka. 

Þetta má lesa úr ársreikningi Reykjavíkurborgar sem birtur var í dag. 

Í tilkynningu frá borginni segir að þegar ljóst var að stefndi í að áætlanir myndu ekki standast vegna hækkandi verðbólgu og tafa á leiðréttingum frá ríkinu, hafi í byrjun september 2022 verið samþykktar í borgarráði aðgerðir til að takast á við halla í rekstri og önnur áhrif erfiðra skilyrða í ytra efnahagsumhverfi borgarinnar. „Dregið var úr fjárfestingum og þar með lántökuþörf. Gjaldskrár voru leiðréttar í ljósi aukinnar verðbólgu. Þá voru settar samræmdar reglur um ráðningar til að gæta aðhalds á því sviði. Fimm ára fjárhagsáætlun fyrir árin 2023-2027 sem samþykkt var í borgarstjórn 6. desember síðastliðinn tekur með sama hætti mið af erfiðri stöðu.“

Rekja tapið til verðbólgu og ríkisskuldar

Forsvarsmenn Reykjavíkurborgar segja að meginástæða þess að svona mikið tap hafi verið á A-hlutanum vera tvær. Annars vegar verðbólga og vaxtahækkanir sem hún hefur leitt af sér, sem hafi aukið fjármagnskostnað, aðallega vegna verðtryggðra lána, um margra milljarða króna. Hins vegar er um að ræða sá halli sem er á rekstri á málaflokki fatlaðra, en hann var 9,3 milljarðar króna á síðasta ári. Um er að ræða lögbundna þjónustu sem færð var frá ríkinu til sveitarfélaga fyrir rúmum áratug án þess að nægjanlegir tekjustofnar fylgdu með. Reykjavíkurborg metur þann halla sem er á rekstri málaflokksins, vegna þess að ríkið hafi ekki látið fjármagn fylgja skuldbindingum, á 35,6 milljarða króna á árunum 2011 til 2022. 

Hinn hlut­inn í rekstri borg­­ar­inn­­ar, B-hlut­inn, nær yfir afkomu þeirra fyr­ir­tækja sem borgin á að öllu leyti eða að hluta. Fyr­ir­tækin sem telj­­­ast til B-hlut­ans eru Orku­veita Reykja­vík­­­­­ur, Faxa­fló­a­hafnir sf., Félags­­­­­bú­­­staðir hf., Íþrótta- og sýningahöllin hf., Mal­bik­un­­­ar­­­stöðin Höfði hf., Slökkvi­lið höf­uð­­­borg­­­ar­­­­svæð­is­ins bs., Sorpa bs. og Strætó bs, auk Afl­vaka hf og Þjóð­­ar­­leik­vangs ehf. Þessi hluti var rekinn langt yfir áætlun, en hagnaður af rekstri hans nam 21,5 milljarði króna. Stóra breytan þar var, líkt og áður sagði, miklar matsbreytingar á virði eigna Félagsbústaða. 

Yfir skuldaviðmiði

Sam­kvæmt sveit­ar­stjórn­ar­lögum ber sveit­ar­stjórn að sjá til þess að rekstri, fjár­fest­ingum og ráð­stöfun eigna og sjóða sé þannig hagað á hverjum tíma að sveit­ar­fé­lagið muni til fram­tíðar geta sinnt skyldu­bundnum verk­efnum sín­um. 

Til að full­nægja þess­ari skyldu er sveit­ar­fé­lögum gert að fylgja ákveðnum fjár­mála­regl­um. Þær fela í fyrsta lagi í sér svo­kallað jafn­vægis­við­mið, sem segir að sam­an­lögð heild­ar­út­gjöld sam­stæðu til rekstrar á hverju þriggja ára tíma­bili megi ekki verða hærri en nemur sam­an­lögðum reglu­legum tekj­um. Í öðrum lagi er svo­kallað skulda­við­mið, sem í felst að heild­ar­skuldir og skuld­bind­ingar sam­stæðu séu ekki hærri en 150 pró­sent af reglu­legum tekj­um.

Skulda­við­mið sam­stæðu Reykja­vík­ur­borgar hefur verið að hækka nokkuð skarpt á skömmum tíma. Það var til að mynda 79 pró­sent árið 2019 en er nú 158 prósent. Það verður þó að taka fram að árið 2022 er fyrsta árið sem skuldir Orkuveitu Reykjavíkur eru taldar með við útreikninginn á skuldaviðmiðunum og hefur það umtalsverð áhrif. Án hennar væri skuldaviðmiðið 108 prósent. 

Auk þess ætlar borgin sér að vaxa út úr þeirri stöðu sem nú er uppi með því að ráð­ast í sókn­ar­á­ætlun í fjár­fest­ing­um.

Við­miðið var hækkað tíma­bundið upp í 200 pró­­sent með lögum sem Alþingi setti árið 2020 til að mæta efna­hags­­legum áhrifum heims­far­ald­­urs kór­ón­u­veiru. Sú heim­ild er sem stendur í gildi til loka árs 2025. Reykjavík hefur því út það ár að koma skuldaviðmiðinu aftur undir 150 prósent.

Óánægð en styðja samt meirihlutann

Þrátt fyrir fjárhagsstöðu borgarinnar og það að borgarstjórnarmeirihluti Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar sem myndaður var í fyrra hafi þurft að takast á við fjölmörg önnur erfið mál, til að mynda tengd leikskólum, myglu og snjómokstri, þá mælist sameiginlegt fylgi þeirra enn mjög svipað og flokkarnir fjórir fengu í síðustu kosningum. 

Alls segjast 54,8 prósent aðspurðra í nýrri könnun Maskínu að þeir myndu kjósa einhvern flokkanna fjögurra sem mynda meirihlutann, en þeir fengu 56,4 prósent atkvæða í kosningunum í fyrra. Töluverð tilfærsla hefur þó orðið á fylgi á milli þeirra. Samfylkingin hefur bætt við sig tæpum sjö prósentustigum og mælist með 27 prósent fylgi. Viðreisn og Píratar hafa einnig bætt vel við sig en Framsóknarflokkurinn, undir stjórn Einars Þorsteinssonar verðandi borgarstjóra, hefur hrunið. Flokkurinn vann mikinn kosningarsigur síðast og fékk 18,7 prósent atkvæða. Nú segjast 5,1 prósent borgarbúa að það sé bara best að kjósa Framsókn. 

Tekur viðEinar Þorsteinsson er oddviti Framsóknarflokksins í Reykjavíkurborg.

Í könnuninni kemur einnig fram umtalsverð óánægja með frammistöðu meirihlutans. Alls sögðust 54,1 prósent aðspurðra að þeir teldu að hann hefði staðið sig illa og einungis 16,8 prósent töldu hann hafa staðið sig vel. Þessi óánægja virðist ekki gera kjósendur fráhverfa því að styðja áfram við meirihlutann, enda hefur minnihlutinn í borgarstjórn einungis bætt við sig tæpum tveimur prósentustigum samanlagt það sem af er kjörtímabili. 

Sitjandi borgarstjóri, Dagur. B. Eggertsson, mælist ekki sérstaklega vinsæll. Einungis 11,3 prósent sögðu hann hafa staðið sig best borgarfulltrúa á kjörtímabilinu. Einungis sex prósent nefndu Einar, sem tekur við af Degi um komandi áramót. 

Kjósa
5
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Mest lesið

Meira undir en vilji til að slá eign sinni á herbergi
5
Allt af létta

Meira und­ir en vilji til að slá eign sinni á her­bergi

Hild­ur Sverr­is­dótt­ir, þing­flokks­formað­ur Sjálf­stæð­is­flokks­ins, sagði ein­hug inn­an þing­flokks Sjálf­stæð­is­flokks­ins um setu­verk­fall hefði þeim ver­ið gert að skipta um þing­flokks­her­bergi. Sam­fylk­ing­in ósk­aði eft­ir því að fá stærsta þing­flokks­her­berg­ið sem Sjálf­stæð­is­menn hafa haft til um­ráða frá ár­inu 1941 en fékk það ekki.

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

Orrustan um Hafnarfjörð
5
ÚttektCarbfix-málið

Orr­ust­an um Hafn­ar­fjörð

Íbú­ar í Hafnar­firði lýsa áhyggj­um af áætl­un­um Car­bfix vegna Coda Term­inal-verk­efn­is­ins, þar sem áætl­að er að dæla nið­ur kol­díoxí­óði í næsta ná­grenni við íbúa­byggð. Fyrstu kynn­ing­ar Car­bfix hafi ver­ið allt aðr­ar en síð­ar kom í ljós. Þá eru skipt­ar skoð­an­ir á verk­efn­inu inn­an bæj­ar­stjórn­ar en odd­viti VG furð­ar sig á með­vit­und­ar­leysi borg­ar­full­trúa í Reykja­vík.

Mest lesið í mánuðinum

Ásgeir greindist með banvænt krabbamein: „Ég ætla samt að halda partí“
1
Viðtal

Ás­geir greind­ist með ban­vænt krabba­mein: „Ég ætla samt að halda partí“

Ás­geir H. Ing­ólfs­son fékk ný­ver­ið dauða­dóm, eins og hann orð­ar það. Krabba­mein­ið sem hann greind­ist með er ekki tækt til með­ferð­ar. Ljóð­skáld­ið og blaða­mað­ur­inn býð­ur því til Lífs­kviðu; mann­fagn­að­ar og list­við­burð­ar á Götu sól­ar­inn­ar við Kjarna­skóg. Ás­geir frá­bið­ur sér orð­ið æðru­leysi í þessu sam­hengi, því auð­vit­að sé hann „al­veg hund­fúll.“
Viðskiptaáætlun Carbfix: Földu áform sín fyrir íbúum
2
RannsóknCarbfix-málið

Við­skipta­áætl­un Car­bfix: Földu áform sín fyr­ir íbú­um

Fyr­ir­ætlan­ir Car­bfix eru mun um­fangs­meiri en fram hef­ur kom­ið. Stefnt er að því að dæla nið­ur allt að 4,8 millj­ón­um tonna af kol­díoxí­ði (CO2) og fyr­ir­tæk­ið von­ast til þess að velta hátt í þrjú hundruð millj­örð­um á full­um af­köst­um. Það er hærri upp­hæð en stærsta fyr­ir­tæki lands­ins velt­ir í dag. Á með­al við­skipta­vina er fyr­ir­tæki sem framdi glæp gegn mann­kyni og vill dæla nið­ur CO2 á Ís­landi.
Móðir Kolfinnu Eldeyjar: „Ég segi mína sögu því að samfélagið þarf að vakna“
3
Fréttir

Móð­ir Kolfinnu Eld­eyj­ar: „Ég segi mína sögu því að sam­fé­lag­ið þarf að vakna“

Ingi­björg Dagný Inga­dótt­ir, móð­ir Kolfinnu Eld­eyj­ar Sig­urð­ar­dótt­ur, opn­ar sig um and­lát dótt­ur sinn­ar. Hún seg­ir kerf­in hafa brugð­ist barns­föð­ur sín­um, sem hef­ur ver­ið ákærð­ur fyr­ir að hafa ráð­ið dótt­ur þeirra bana. „Ég vissi strax í hjarta mínu að hann hefði ekki tek­ið með­vit­aða ákvörð­un um að gera svona lag­að“.

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár