„Það er ánægjuefni að forsætisráðherra skuli bregðast svo skjótt við erindinu,“ segir Sigurður Örn Hilmarsson hæstaréttarlögmaður í samtali við Heimildina. Þrettán manns, aðstandendur fólks sem lést í snjóflóðunum í Súðavík í janúar árið 1995, sendu Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra beiðni þann 20. apríl, þar sem óskað var eftir fundi með Katrínu sem brást fljótt við erindinu og boðaði lögmann hópsins á fund í forsætisráðuneytinu í byrjun næstu viku.
Erindi hópsins við stjórnvöld er að skipuð verði rannsóknarnefnd af hálfu alþingis, til að skoða þátt yfirvalda í snjóflóðinu. Í nýlegri rannsókn Heimildarinnar komu fram nýjar upplýsingar um vitneskju yfirvalda um snjóflóðahættu á Súðavík, sem ekki var brugðist við. Fjórtán manns létust í flóðinu, þar af átta börn. Aðstandendur reyndu ítrekað að fá þátt yfirvalda í flóðinu rannsakaðan, en án árangurs.
„Enn er tækifæri til að draga lærdóm af snjóflóðinu í Súðavík“
„Tilgangur slíkrar rannsóknar á aðdraganda og eftirmálum snjóflóðsins væri meðal annars að rannsaka málsatvik, meta kerfislæg vandamál sem voru, og eru hugsanlega enn, til staðar er varða snjóflóðavarnir, og hugsanlegan þátt þeirra í því manntjóni sem varð í Súðavík,“ segir í erindi lögmannsins fyrir hönd hópsins, þar sem jafnframt er vísað til þess að rannsóknin hafi af þessum sökum mikla almenna þýðingu.
„Umbjóðendur mínir telja að gera megi athugasemdir við nær alla atburðarásina í kringum snjóflóðið,“ segir í erindinu þar sem vísað er til þess að fyrst núna, 28 árum eftir flóðið, hafi mikið af þessum upplýsingum komið fram í fyrsta sinn, í rannsókn Heimildarinnar og gagnaöflun aðstandenda þeirra sem létust.
Í erindinu er farið yfir upplýsingar og gögn sem sýna þá fjölmörgu annmarka sem voru á viðbrögðum yfirvalda, bæði stuttu fyrir og eins árin og áratuginn á undan snjóflóðinu. Yfirvofandi snjóflóðahætta er sögð hafa verið yfirvöldum ljós löngu áður en flóðið féll, en engu að síður hafi sú hætta verið vanmetin í opinberu hættumati, þvert á upplýsingar sem fyrir lágu.
„Þó hefur áfallið orðið umbjóðendum mínum enn þungbærara eftir að nýjar upplýsingar komu fram á sjónarsviðið sem sýna meðal annars fram á vitneskju yfirvalda um snjóflóðahættu á hluta þess svæðis sem snjóflóðið féll á árið 1995, en var utan skilgreinds hættumats. Hættumatið var þannig haldið alvarlegum annmörkum að þessu leyti.“
„Persónulega finnst mér einboðið að setja slíka nefnd á fót“
Vísað er til þess hvernig yfirvöld hafi vanrækt að verja byggðina, hunsað aðvörunarorð gegn frekari íbúabyggð, og látið hjá líða að koma upplýsingum um yfirvofandi hættu til íbúanna kvöldið og nóttina fyrir flóðið.
„Af framangreindu er ljóst að hægt er að gera alvarlegar athugasemdir við atburðarásina alla sem átti sér stað í aðdraganda snjóflóðsins. Reglum um boðleiðir og fullnægjandi viðvaranir var ekki fylgt í aðdraganda flóðsins. Þá voru annmarkar á því hættumati sem lá fyrir og rangar upplýsingar og forsendur lagðar til grundvallar þess sem varð til þess að manntjón hlaust af.“
Einboðið og siðferðilega rétt
Erindið sem lögmaður þrettánmenningana sendi forsætisráðherra var einnig sent stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd alþingis, enda fer nefndin með umsjón og framkvæmd slíkra rannsókna, samkvæmt lögum, þó alþingi geti eftir sem áður sjálf ákveðið slíka skipun. Í samtali við Heimildina segist Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, hafa fengið í hendur erindi hópsins.
„Persónulega finnst mér einboðið að setja slíka nefnd á fót vegna þess að umfjöllun Heimildarinnar leiðir ýmislegt í ljós sem ég er viss um að hafi almennt ekki verið á vitorði margra. Hins vegar er ég líka á þeirri skoðun að eftirlifendur og aðstandendur þeirra sem þarna fórust eigi siðferðilegan rétt til þess að aðdragandinn og viðbrögðin við hamförunum séu rannsökuð til hlítar,“ sagði Þórunn.
Hefur ítrekað verið neitað
Aðstandendurnir þrettán sem standa að baki beiðninni eru fulltrúar sex húsa við Túngötu og Nesveg í Súðavík. Aðstandendur þeirra 14 einstaklinga sem létust í flóðinu. Um er að ræða börn, foreldra og systkini hinna látnu. Hluti þessa hóps hefur áður – ítrekað – reynt að fá fram rannsókn á þætti yfirvalda í þeim mikla mannskaða sem varð í flóðinu, en án árangurs.
Strax eftir flóðið fór lögmaður þeirra fram á að skipuð yrði opinber rannsóknarnefnd vegna þeirra. Þeirri beiðni var hafnað af yfirvöldum sem létu sér nægja að láta Almannavarnir ríkisins vinna skýrslu um flóðin. Sú skýrsla kom út ári eftir flóðið og var strax harðlega gagnrýnd. Ekki síst sú fullyrðing í skýrslunni að þrátt fyrir margvísleg mistök, hafi í raun ekkert getað forðað því manntjóni sem var, þar sem húsin sem fóru undir flóðið hafi öll verið utan skilgreinds hættusvæðis. Sú fullyrðing var einfaldlega röng.
Á þetta og fleiri atriði bentu aðstandendur strax árið 1996 og óskuðu eftir því að yfirvöld fengju óháðan aðila til rannsóknarinnar. Almannavarnir ríkisins væru enda að rannsaka eigin verk og því ekki til þess bær að gera málinu skil. Dómsmálaráðuneytið hafnaði þeirri beiðni og vísaði á Ríkissaksóknara sem vísaði málinu frá sér, það gerði Umboðsmaður líka og Ríkissaksóknari öðru sinni árið 2004.
Í bréfi lögmanns þrettánmenninganna til forsætisráðherra er vísað til þess hvernig aðstandendum var ítrekað neitað um þá eðlilegu kröfu að óháður aðili rannsakaði málið. Lögreglurannsókn hafi ekki einu sinni farið fram, líkt og kveðið var á um í lögum. Þetta hafi valdið aðstandendum sem glímdu flestir við ólýsanlega sorg og mikið áfall, óþarfa sársauka og erfiði.
„Ábati og tilgangur slíkrar rannsóknar hefði jafnframt getað leitt skýrt í ljós hvað fór úrskeiðis í samskiptum og viðbrögðum viðbragðsaðila, meðal annars með það fyrir augum að koma í veg fyrir að sambærilegir atburðir endurtækju sig,“ segir í erindi hópsins til forsætisráðherra, þar sem bent er á að „enn [sé] tækifæri til að draga lærdóm af snjóflóðinu í Súðavík“.
Athugasemdir