Árið er 2014. Klukkan er að ganga fjögur. Sjálfsmynd mín þeytist um völundarhús valdsins á hælaskóm vopnuð diktafóni og kúlupenna eins og Lois Lane, með hárið blásið eins og Dolly Parton í kvikmyndinni „Nine to five“. Raunveruleikinn er þó annar. Þótt vinnudeginum sé senn lokið sit ég enn á náttfötunum í sófanum heima hjá mér og horfi á það besta sem sjónvarpsútsendingar um hábjartan dag hafa að bjóða. Gestur í vinsælum breskum spjallþætti er við það að drekka eigið þvag í beinni útsendingu – hann segir það skerpa hugann og bæta húðina.
Farsíminn minn klingir með skilaboðum. Þau eru frá þáverandi yfirmanni mínum á Ríkisútvarpinu. Svo virðist sem vikulegur stjórnmálapistill minn í dægurmálaþætti á Rás 2 hafi valdið titringi. Pistillinn fjallaði um andstöðu Framsóknarflokksins við byggingu mosku í Reykjavík. Dagskrárstjóri Rásar 2 óskar þess að pistlar mínir verði bornir undir hann persónulega áður en þeir heyrist á öldum ljósvakans.
Maðurinn í sjónvarpinu þambar þvag úr kampavínsglasi. Mig velgir. Þrátt fyrir að hafa skrifað viðhorfsgreinar í næstum áratug fyrir hina ýmsu fjölmiðla hef ég aldrei fengið slíka beiðni áður.
Seinþreytt til vandræða afhendi ég dagskrárstjóranum næsta pistil til eftirlits. Að vanda fjallar pistillinn um hitamál vikunnar sem að þessu sinni eru enn frekari skakkaföll Framsóknarflokksins.
Þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson tók við embætti forsætisráðherra ári fyrr hafði eitt af fyrstu verkum hans verið að barma sér undan gagnrýni fjölmiðla sem hann kallaði „loftárásir“. Aldrei nokkurn tímann hafði mér dottið í hug að kona, sem sæti á náttfötunum fyrir framan sjónvarpið eins oft og hún kæmist upp með, sæist sem flugskeyti á radar forsætisráðherrans og flokks hans.
Dagskrárstjórinn kvað upp dóm sinn. Mér var tjáð að hann væri „engin ritskoðunartýpa“. Engu að síður vildi hann nýjan pistil um annað efni. Honum þótti óþarfi að fjalla um Framsóknarflokkinn tvær vikur í röð.
Bæði frjálslyndir og íhaldsfólk
Ritskoðun á sér margar birtingarmyndir. Árið 1989 lýsti klerkastjórnin í Íran bresk-indverska rithöfundinn Salman Rushdie réttdræpan vegna meints guðlasts í bók hans Söngvar Satans. Árum saman fór Rushdie huldu höfði. Rushdie hafði talið hættuna liðna hjá. Svo var þó ekki. Í ágúst síðastliðnum varð hann fyrir hrottalegri stunguárás á bókmenntahátíð í Bandaríkjunum.
Aðeins nokkrum mánuðum síðar lá náinn vinur Rushdie, breski rithöfundurinn Hanif Kureishi, einnig þungt haldinn á sjúkrahúsi. Kureishi hafði verið að horfa á fótbolta í sjónvarpinu þegar hann fékk aðsvif og rankaði við sér í blóðpolli á gólfinu. Kureishi getur nú hvorki gengið né hreyft hendurnar. Hann skrifar þó sem aldrei fyrr og gefur út fréttabréf sem hann semur en synir hans slá inn í tölvu. Í nýlegum hugleiðingum varaði Kureishi við ritskoðun. „Upp er runninn nýr tími ritskoðunar og sjálfs-ritskoðunar. Bæði frjálslyndir og íhaldsmenn krefjast þess að ákveðnir hlutir séu ekki sagðir. Fólk er skelfingu lostið við að aðrir móðgist.“
Handtökuglöð lögregla
Í næstu viku verður alþjóðadagur fjölmiðlafrelsis haldinn hátíðlegur í þrítugasta sinn. Vilja Sameinuðu þjóðirnar minna yfirvöld allra landa á að standa vörð um tjáningarfrelsið. Áminningarinnar virðist þörf.
Starfsmaður franska bókaforlagsins Éditions la Fabrique var handtekinn við komu sína til Lundúna í síðustu viku. Starfsmaðurinn, sem var á leið á hina árlegu bókastefnu Lundúnaborgar, hafði tekið þátt í mótmælum í Frakklandi gegn hækkun eftirlaunaaldurs. Var hann yfirheyrður af hryðjuverkalögreglu um pólitískar skoðanir sínar og gert að gefa upp nöfn höfunda forlags síns sem ekki styddu ríkisstjórn Frakklands og forsetann Emmanuel Macron.
Auðbeygðir dagskrárstjórar, viðkvæmir stjórnmálaleiðtogar, handtökuglöð lögregla. Við Íslendingar teljum okkur gjarnan fremsta meðal jafningja. Á sviði fjölmiðlafrelsis stöndum við hins vegar langt að baki öðrum Norðurlandaþjóðum.
Hanif Kureishi er nú fangi eigin líkama. Fátt er harðari áminning um mikilvægi frelsisins. Kureishi lýsir í fréttabréfi furðu yfir því að við skulum nú aftur þurfa að berjast fyrir mörgu því frelsi sem okkur hefur áskotnast síðustu áratugi, frelsi sem við „töldum vera í höfn“. Á alþjóðadegi fjölmiðlafrelsis mættum við kannski fleiri furða okkur á hinu sama.
Ég á RÚV.
Ritskoðun á RÚV er ekki í mínu nafni.
Það er langt frá því nógu oft fjallað í RÚV um hið gjörspillta öxulveldi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.
RÚV á að vera fulltrúi fórnarlambsins, þjóðarinnar og segja frá en ekki þegja.